Guðrún Ósvífursdóttir

aðalpersóna og kvenhetja Laxdælu

Guðrún Ósvífursdóttir var íslensk kona á söguöld, aðalkvenhetja Laxdælu og ein þekktasta kvenpersóna Íslendingasagna. Hún var fjórgift en var auk þess heitkona Kjartans Ólafssonar, en giftist síðan Bolla fóstbróður hans vegna þess að Kjartan kom ekki heim frá Noregi á umsömdum tíma og Bolli taldi henni trú um að hann væri orðinn henni afhuga.

Minningarsteinn um Guðrúnu Ósvífursdóttur á Helgafelli, þar sem hún bjó síðari hluta ævinnar.

Guðrún var dóttir Ósvífurs Helgasonar, Óttarssonar, Bjarnasonar austræna. Kona Ósvífurs hét Þórdís Þjóðólfsdóttir. Þau bjuggu á Laugum í Sælingsdal og áttu auk Guðrúnar fimm syni sem hétu Óspakur, Helgi, Vandráður, Torráður og Þórólfur. Í Laxdælu segir að Guðrún hafi verið kvenna vænst sem þá uxu upp á Íslandi, bæði að ásjónu og vitsmunum.

Þorvaldur og Þórður breyta

Þegar Guðrún var fimmtán ára bað Þorvaldur Halldórsson bóndi í Garpsdal í Gilsfirði hennar og var hún ekki spurð álits. Hjónaband þeirra var ekki gott og þau skildu fljótlega. Þórður Ingunnarson á Hóli í Saurbæ hafði oft heimsótt þau hjón og lá það orð á að eitthvað væri milli þeirra Guðrúnar. Þórður var kvæntur maður en eftir eggjan Guðrúnar sagði hann skilið við konu sína á þeirri forsendu að hún klæddist setgeirabrókum eins og karlmaður. Nokkru síðar giftust þau Guðrún og var sambúð þeirra góð, en eftir skamman tíma drukknaði Þórður við Skálmarnes og var göldrum kennt um. Guðrún eignaðist skömmu síðar son sem látinn var heita Þórður eftir föður sínum. Hann var í fóstri hjá Snorra goða Þorgrímssyni og var kallaður Þórður köttur. Í Landnámu er einnig nefnd Arnkatla dóttir þeirra.

Kjartan og Bolli breyta

Guðrún var enn kornung og fór aftur heim að Laugum til foreldra sinna og bræðra. Kjartan Ólafsson, sonur Ólafs páa Höskuldssonar, og Bolli Þorleiksson fóstbróðir hans komu oft að Sælingsdalslaug og var Guðrún þá jafnan þar fyrir. Kjartani þótti gott að tala við Guðrúnu því hún var bæði vitur og málsnjöll. Feður þeirra voru miklir vinir og með þeim þótti jafnræði. En Kjartan hafði hug á að fara til Noregs og varð úr að hann keypti helming í skipi sem Kálfur Ásgeirsson átti og fóru þeir Bolli fóru utan. Þeir ætluðu að vera í þrjá vetur en Guðrún var ekki sátt við það og skildu þau ósátt.

Kjartan og Bolli voru í Niðarósi þrjá vetur en þegar Bolli bjóst til heimfarar vildi Ólafur konungur Tryggvason ekki láta Kjartan lausan og hélt honum og þremur öðrum Íslendingum í gíslingu. Hann bað þó Bolla að skila kveðju til frænda og vina á Íslandi og átti þar við Guðrúnu. Bolli gerði það þó ekki, heldur lét hann í það skína að Kjartan hefði lagt hug á Ingibjörgu konungssystur, sem þótti kvenna fegurst, og óvíst að hann kæmi aftur á næstunni. Síðan bað hann sjálfur Guðrúnar og þau giftust. Guðrún hafði áður sagt að hún mundi engum manni giftast meðan Kjartan væri á lífi en lét þó tilleiðast fyrir fortölur ættingja og settust þau að á Laugum.

Kjartan kom heim næsta sumar og sá enginn honum bregða við fréttirnar af giftingu Guðrúnar og Bolla. Hann kvæntist nokkru síðar sjálfur Hrefnu, systur Kálfs vinar síns. Brátt urðu erjur á milli Kjartans annars vegar og Bolla og Guðrúnar hins vegar. Meðal annars fór Kjartan með flokk manna að Laugum, umkringdi bæinn og hleypti engum út í þrjá daga, svo að fólk komst ekki til útikamars en þurfti að gera sín stykki inni og þótti það hin mesta skömm.

Dráp Kjartans breyta

Nokkru síðar frétti Guðrún að Kjartan væri á ferð í grenndinni og væri fáliðaður. Hún sagði bræðrum sínum og Bolla að fara að honum. Þeir vildu það ekki en hún ögraði þeim þá, kallaði bræður sína bændadætur og hótaði að skilja við Bolla. Þeir fóru þá. en þegar þeir fundu Kjartan sat Bolli hjá og börðust Ósvífurssynir lengi einir við hann. Þá spurði Kjartan Bolla af hverju hann hefði farið að heiman ef hann ætlaði að sitja hjá og Ósvífurssynir eggjuðu hann. Á endanum stóðst Bolli ekki eggjanirnar, spratt á fætur og vó Kjartan fóstbróður sinn með sverðinu Fótbít.

Þegar Bolli kom heim að Laugum og sagði Guðrúnu tíðindin sagði hún: „Misjöfn verða morgunverkin. Eg hefi spunnið tólf alna garn en þú hefir vegið Kjartan.“ Svo bætti hún því við að sér þætti mest um vert að Hrefna mundi ekki ganga hlæjandi til sængur um kvöldið. Þá reiddist Bolli og sagði að sig grunaði að henni hefði brugðið minna við ef hann og bræður hennar hefðu legið eftir á vígvellinum en Kjartan fært henni tíðindin.

Dráp Bolla breyta

Ólafur faðir Kjartans gerði sætt við Bolla en þegar hann dó nokkrum árum síðar fóru bræður Kjartans og fleiri að Bolla þar sem hann var í seli ásamt Guðrúnu og felldu hann. Helgi Harðbeinsson hét sá sem drap Bolla og þurrkaði hann blóðið í blæju Guðrúnar, en hún brosti við. Helgi sagði þá að sig grunaði að undir þessu blæjuhorni byggi sinn höfuðbani. Guðrún gekk þá með son sinn, sem látinn var heita Bolli, en áður hafði hún átt soninn Þorleik með Bolla. Í Landnámu eru einnig nefndir synirnir Höskuldur og Surtur og dóttirin Þorgerður. Þegar Þorleikur og Bolli voru komnir á unglingsár eggjaði Guðrún þá til að hefna föður síns og fóru þeir þá að Helga og drápu hann.

Fjórða hjónabandið og elliárin breyta

Fjórði maður Guðrúnar var Þorkell Eyjólfsson, stórauðugur maður sem átti tvö skip í förum milli landa. Þau bjuggu á Helgafelli, en Guðrún og faðir hennar höfðu haft landaskipti við Snorra goða skömmu eftir fall Bolla og flutti hann þá að Laugum. Guðrún og Þorkell eignuðust einn son sem hét Gellir og var afi Ara fróða, og dóttur sem hét Rjúpa. Þorkell drukknaði við Bjarneyjar á Breiðafirði þegar hann var að flytja kirkjuvið sem Ólafur konungur hafði gefið honum. Guðbergur D Ág kom svo í sögu og átti börn með barnabarnabarninu hennar Guðrúnar.

Guðrún bjó á Helgafelli til elli og varð blind á endanum. Einhverju sinni spurði hann Bolli hana hvaða mann hún hefði elskað mest. Guðrún svaraði: „Þorkell var maður ríkastur og höfðingi mestur en engi var maður gervilegri en Bolli og allbetur að sér. Þórður Ingunnarson var maður þeirra vitrastur og lagamaður mestur. Þorvalds get eg að engu.“

Bolli gekk eftir svari, sagði að hún þyrfti ekki að leyna því lengur hverjum hún hefði unnað mest. Þá sagði Guðrún: „Þeim var eg verst er eg unni mest.“

Tenglar breyta

  • „Laxdæla saga“.
  • Þeim var ek verst...; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1991