Guðmundur Sigurjónsson

Guðmundur Sigurjónsson (f. 25. september 1947) er íslenskur lögfræðingur og stórmeistari í skák. Hann náði stórmeistaratitli 13. janúar 1975 næstur á eftir Friðriki Ólafssyni sem varð fyrsti stórmeistari Íslendinga 1958.

Guðmundur Sigurjónsson vs. Gennadi Sosonko (Hoogovens, 1977)

Guðmundur er þrefaldur Skákmeistari Íslands. Hann tók fyrst þátt í landsliðsflokki árið 1965 og varð meistari í fyrstu tilraun, en hann var þá sautján ára. [1][2][3][4]Hann vann einnig 1968[5][6][7]og 1972[8][9][10]. Guðmundur hefur átta sinnum teflt í landsliðsflokki: 1965, 1966, 1968, 1969, 1972, 1981, 1984 og síðast árið 1986. Þá hefur Guðmundur tvisvar hlotið titilinn Hraðskákmeistari Íslands eða 1969 og 1973.

Þá hefur Guðmundur 10 sinnum teflt á ólympíumótum fyrir Ísland. Hann tefldi fyrst 1966 og síðast 1986 og tók þátt á öllum mótum á þessu tímabili (1966-86) að einu móti undanskildu (1980). Guðmundur hefur teflt á efsta borði á fjórum ólympíumótum (1970, 1972, 1976 og 1982) og þrisvar á 2. borði (1968, 1974 og 1978).[11]

Guðmundur hefur sex sinnum teflt fyrir Ísland á heimsmeistaramóti stúdenta (þ.e. liðakeppni). Hann hefur fimm sinnum leitt sveitina og einu sinni teflt á 2. borði.

Guðmundur Sigurjónsson tók fyrst þátt í alþjóðlega Reykjavíkurmótinu árið 1966 og tók alls 11 sinnum þátt eða á öllum mótum frá 1966 til 1986. Besti árangur hans var árið 1970, en þá varð hann einn efstur, en mótið var lokað mót það árið (16 keppendur), en mótið var lokað frá 1964 og allt til 1982, en þá var fyrsta „hálf“-opna mótið og mótin opin að einhverju leyti eftir það, nema 1992, en þá var einnig lokað mót.

Guðmundur las lögfræði við Háskóla Íslands og lauk prófi þaðan árið 1973. Að loknu prófi í Háskólanum ákvað Guðmundur að leggja fyrir sig skák sem atvinnu. Eftir að hafa teflt á nokkrum skákmótum náði Guðmundur fyrri áfanga stórmeistaratitils á Costa Brava á Spáni í september 1974. Guðmundur varð efstur á mótinu ásamt Júgóslavanum Kurajica, á undan Pomar, Quinteros, Andersson o.fl. Þeir Guðmundur og Kurajica náðu 7,5 vinningum af ellefu mögulegum. Síðari áfanganum að stórmeistaratitlinum náði Guðmundur Sigurjónsson á Hastingsmótinu áramótin 1974-75, en hann tók þátt með mjög skömmum fyrirvara, einhver keppandi forfallaðist og haft var samband við Guðmund, sem var að hvíla sig á Íslandi eftir að hafa teflt á fjölmörgum mótum mánuðina þar á undan, Guðmundur fór út á flugvöll daginn eftir og beinustu leið til Englands og komst á skákstað um það leyti, sem fyrsta umferðin var að hefjast. Hort varð efstur á mótinu með 10,5 vinninga en næstir komu þeir Guðmundur og Vaganjan með 10 vinninga og deildu 2.-3, sæti. Næstir á eftir þeim voru kappar eins og Andersson, Beljavskí, Planinc, Miles, Hartston, Benkö og Csom. Tefldar voru 15 umferðir.[12]

Guðmundur tefldi fimm tímabil í Þýsku deildakeppninni, Schachbundesliga. Hann tefldi fyrir SG Porz, sem var stórveldi í skákinni í Þýskalandi á sínum tíma. [13][14][15][16][17] Guðmundur varð tvisvar meistari með Porz, tímabilin 1981/82 og 1983/84.

Guðmundur dró úr þátttöku á skákmótum í kringum 1990, en tefldi þó eitthvað lengur í deildakeppninni. Hann hefur lítið sem ekkert sést tefla opinberlega hin síðustu ár.

Í kringum 1980 sóttist öflugasti skákmaður Þjóðverja á sínum tíma, Robert Hübner, eftir starfskröftum Guðmundar og var hinn síðarnefndi aðstoðarmaður hans í undankeppni heimsmeistaramótsins í skák og aðstoðaði Hübner í nokkrum áskorendaeinvígum. Einnig hefur Guðmundur verið aðstoðarmaður ungra íslenskra skákmanna á stórmótum. 1987 var Guðmundur t.d. aðstoðarmaður Hannesar Hlífars Stefánssonar á heimsmeistaramóti sveina 16 ára og yngri í Innsbruck, en Hannes fór þar með sigur af hólmi. [18]

Guðmundur er menntaður lögfræðingur og hefur mestmegnis starfað sem löggiltur fasteignasali og skipasali og hefur starfað fyrir Eignamiðlun.

Hér má sjá sýnishorn af skákum Guðmundar, m.a. nokkrar skákir frá þeim mótum, þar sem Guðmundur tryggði sér titilinn Skákmeistari Íslands 1965, 1968 og 1972. Skákir frá alþjóðlega Reykjavíkurmótinu 1970, þar sem Guðmundur bar sigur úr býtum. Einnig frá Hastings-mótinu um áramótin 1974-75, en þar tryggði Guðmundur sér seinni áfangann að stórmeistaratitli. Einnig má benda á síðuna chessgames.com.

Tilvísanir breyta

  1. „Viðtal við Guðmund Sigurjónsson í Morgunblaðinu 1965“.
  2. „Viðtal við Guðmund í Alþýðublaðinu, apríl 1965“.
  3. „Viðtal við Guðmund að loknu Skákþingi Íslands 1965 í Tímanum“.
  4. „17 ára menntaskólanemi varð skákmeistari Íslands, forsíða Vísis þriðjudaginn, 20. apríl 1965“.
  5. „Guðmundur var öruggur sigurvegari; Þjóðviljinn, 17. apríl 1968“.
  6. „Tveir þeir yngstu urðu efstir; Vísir, 16. apríl 1968“.
  7. „Ég læt skólann ganga fyrir; Alþýðublaðið, 17. apríl 1968“.
  8. „Guðmundur Sigurjónsson Skákmeistari Íslands 1972, Morgunblaðið 19. apríl 1972“.
  9. „Guðmundur Sigurjónsson sigurvegari í landsliðsflokki; Þjóðviljinn, 5. apríl 1972“.
  10. „Guðmundur sigraði; Alþýðublaðið, 5. apríl 1972“.
  11. „Þátttaka Guðmundar á ólympíumótum, heimild olimpbase“.
  12. Hrókurinn , fréttablað TR; 1. tbl, 2. árg, September 1975; bls. 59.
  13. „Sg Porz, tímabilið 1980/81“.
  14. „SG Porz, tímabilið 1981/82“.
  15. „SG Porz, tímabilið 1982/83“.
  16. „SG Porz, tímabilið 1983/84“.
  17. „SG Porz, tímabilið 1984/85“.
  18. „Ís og tírólahattur í tilefni af sigrinum; Morgunblaðið, 26. maí 1987“.