Gissur hvíti Teitsson

Gissur Teitsson hvíti var íslenskur goðorðsmaður og höfðingi á 10. og 11. öld og var einn helsti foringi kristinna manna við kristnitökuna á Alþingi. Hann var einnig ættfaðir fyrstu íslensku biskupanna.

Gissur var af ætt Mosfellinga, sonarsonur Ketilbjarnar gamla Ketilssonar landnámsmanns á Mosfelli í Grímsnesi, en afkomendur hans voru síðar nefndir Haukdælir. Teitur faðir Gissurar bjó í Skálholti og þar bjó Gissur einnig en síðar á Höfða. Hann var mikill höfðingi og kemur víða við sögu í fornritum. Hann átti í deilum við Gunnar á Hlíðarenda og var foringi þeirra sem fóru að Gunnari og drápu um 990.

Gissur var einn þeirra sem Þangbrandur biskup skírði þegar Ólafur Tryggvason sendi hann hingað í trúboðsferð. Hjalti Skeggjason, tengdasonur Gissurar, tók einnig trú og urðu þeir ásamt Síðu-Halli Þorsteinssyni helstu foringjar kristinna manna. Gissur og Hjalti fóru til Noregs og voru hjá Ólafi konungi einn vetur en hann sendi þá svo til Íslands til að kristna Íslendinga. Í Kristni sögu segir að þeir hafi haft heim með sér kirkjuvið og hafi átt að boði konungs að byggja kirkju þar sem þeir kæmu fyrst að landi, en það var í Vestmannaeyjum og reis kirkjan þar. Árið 2000 var reist þar lítil stafkirkja til að minnast þessa.

Á Alþingi árið 1000 (eða 999) munaði litlu að kristnir menn og heiðnir berðust en þó varð úr að ákveðið var að Íslendingar skyldu taka kristna trú. Í framhaldi af því lét Gissur reisa fyrstu kirkjuna í Skálholti.

Gissur var þrígiftur. Fyrsta kona hans var Halldóra Hrólfsdóttir og var dóttir þeirra Vilborg, kona Hjalta Skeggjasonar. Þriðja kona hans var Þórdís, dóttir Þóroddar spaka Eyvindarsonar goða í Ölfusi og systir Skafta Þóroddssonar lögsögumanns og voru synir þeirra þeir Ketill og Ísleifur, fyrsti biskup Íslands. Einnig átti Gissur dótturina Þórkötlu, konu Marðar Valgarðssonar, sem mjög kemur við sögu í Njálu, en móðir hennar er óþekkt.

Tenglar breyta

„Þúsund ár milli stafkirkna. Greinasafn mbl.is., 20. janúar 2000“.