65°46′47″N 18°9′59″V / 65.77972°N 18.16639°V / 65.77972; -18.16639

Tjaldbúðir við Gásir
Útsýni yfir Gásir
Vegur að Gásum

Gásir eða Gásakaupstaður var forn verslunarstaður á Gáseyri við mynni Hörgár í Eyjafirði. Gásir voru helsti verslunarstaður Norðurlands á miðöldum. Staðurinn er um 11 km norðan við Akureyri.[1]

Sagan breyta

Ekki er vitað hvenær verslun hófst á Gásum en elstu heimildir um hana eru frá seinni hluta 12. aldar en sú yngsta frá 1394. Greinilegt er af heimildum að Gásir voru aðal kauphöfn Norðurlands á 13. og 14. öld og fornleifar sem þar hafa verið rannskaðar eru einkum frá þeim tíma.[2] Mögulegt er að kaupskip hafi komið að Gásum fram eftir 15. öld en ekki er ljóst hvers vegna staðurinn lagðist af og verslun færðist til Akureyrar. Ein kenningin er sú að framburður úr Hörgá, einkum vegna skriðufalla í Hörgárdal 1390, hafi gert höfnina ónothæfa fyrir stærri kaupskip en einnig er möguleg skýring að breyttir verslunarhættir á 15. öld, þegar ensk skip tóku að sigla til Íslands, hafi orðið til þess að siglingar þangað lögðust af.[3] Í dag eru Gásir friðaðar samkvæmt íslenskum þjóðminjalögum og er í umsjón Fornleifaverndar ríkisins.

Fornleifarannsóknir breyta

Árið 1907 gerðu Daniel Bruun og Finnur Jónsson uppgröft á Gásum. 16 prufuholur og 4 sambyggðar búðartóftir voru grafnar upp. Þeir töldu að ummerkin sýndu að búðirnar hafi ekki verið ætlaðar til vetursetu, heldur hafi þær aðeins verið notaðar að sumarlagi.[4]

Árið 1986 gerðu Margrét Hermanns-Auðardóttir og Bjarni F. Einarsson rannsókn á Gásum. Grafnar voru 4 prufuholur og þar á meðal 1 í kirkjutóftinni.[5]

Á árunum 2001-2006 stóðu Minjasafnið á Akureyri, Þjóðminjasafn Íslands og Fornleifastofnun Íslands fyrir rannsóknum. Markmið þeirra var að varpa ljósi á hvenær verslun hófst, hvers eðlis hún var og hvers vegna hún lagðist af og beindust þær rannsóknir að umsvifum á 14. og 15. öld. Í þessum rannsóknum voru niðurstöðurnar þær að Gásir hafi sennilegast verið líkari hafskipahöfnum nútímans, þar sem starfsemin snérist um uppskipun og útskipun, tollgæslu og landamæraeftirlit, en verslunin sjálf fór að mestu fram annars staða. Í kjölfar rannsóknanna var staðurinn kynntur fyrir almenningi og kynningarverkefni um staðinn komið á lagnirnar með Miðaldadögum.[6]

Fornleifafundir breyta

Eitt stærsta safn leirkerjabrota frá miðöldum hefur fundist á Gásum. Flest brotin eru tímasett til 14. og 15. aldar og eru ensk eða þýsk að uppruna. Brot úr krukku sem var notuð undir smyrsl eða olíur hafa fundist. Vegna þessara funda hafa spurningar um álitamál á íslensku miðaldasamfélagi vaknað, þ.e. hvort að utanríkisverslun hafi skipt máli fyrir samfélagið í heild sinni eða hvort fyrst og fremst hafi verið verslað með munaðarvöru. Ekki er alveg ljóst hvort Gásakaupstaður og verslunarstaðir eins og hann hafi fyrst og fremst verið til vegna utanríkisverslunar eða hvort að Íslendingar hafi líka verslað þar hver við annan.[7]

Miðaldadagar breyta

Miðaldadagar hafa verið haldnir ár hvert á Gásum síðan 2003 og er kynningarverkefni á staðnum og því sem hefur komið fram í rannsóknum á staðnum. Þar getur fólk komið og upplifað stemminguna sem var ríkjandi á markaðnum á miðöldum. Kaupskapur, handverk, leikir og matargerð sem endurspegluðu athafnir Gásakaupstaðar á miðöldum sem og alls kyns iðnaður er kynntur fyrir almenningi, eins og t.d. kolagerð og brennisteinsvinnsla.[8]

Tenglar breyta

Tilvísanir breyta

  1. (Gásir. Gásir.)
  2. (Gásir. Sögulegar heimildir.)
  3. (Náttúrufræðistofnun Íslands. Eyðing Gásakaupstaðar af völdum skriðufalla 1390.)
  4. (Helgar dagur 30.04.1981). (Helgar dagur/Jón Gauti Jónsson, 30. ágúst 1981).
  5. (Gásir. Fornleifarannsóknir.)
  6. (Gásir. Fornleifarannsóknir á Gásum.)
  7. (Gásir. Fornleifarannsóknir á Gásum.)
  8. (Gásir. Miðaldadagar.)

Heimildir breyta

  • Gásir. Sögulegar heimildir. Sótt 17. febrúar 2012 af [1]
  • Gásir. Fornleifarannsóknir á Gásum. Sótt 19. febrúar 2012 af [2]
  • Gásir. Miðaldaverslun á Íslandi. Sótt 17. febrúar 2012 af [3]
  • Helgar dagur/Jón Gauti Jónsson (30. ágúst 1981). Gásir höfuðkaupstaður Norðurlands. Sótt 19. febrúar 2012 af [4]
  • Náttúrufræðistofnun Íslands. Eyðing Gásakaupstaðar af völdum skriðufalla 1390. Sótt 17. febrúar 2012 af [5] Geymt 7 mars 2016 í Wayback Machine
  • Þjóðminjasafnið.Endurfundir. Gásir í Eyjarfirði. Sótt 20. febrúar 2012 af [6] Geymt 20 janúar 2014 í Wayback Machine