Flatey (Skjálfanda)

(Endurbeint frá Flatey á Skjálfanda)

66°09′54″N 17°51′35″V / 66.16500°N 17.85972°V / 66.16500; -17.85972

Flatey á Skjálfanda séð frá Flateyjardal
Vitinn á Flatey

Flatey er eyja á Skjálfanda um 2,5 kílómetra frá landi utan við Flateyjardal. Hún er um 2,62 ferkílómetrar að flatarmáli og rís hæst 22 metra yfir sjó.

Byggð var í eyjunni frá 12. öld fram til 1967 þegar hún lagðist af vegna einangrunar og skorts á endurnýjun fólks. Náði íbúafjöldi mest að vera 120 manns um 1943. Fiskveiðar voru aðalatvinnuvegur eyjaskeggja auk kvikfjárræktar en hlunnindi voru einnig nokkur af rekaviði, fuglavarpi og sel. Frá upphafi 20. aldar var í eyjunni starfrækt kaupfélag og barnaskóli sem m.a. íbúar á Flateyjardal sóttu þjónustu til enda hafnaraðstaða í eyjunni mun betri en í landi. Á móti kom að eyjaskeggjar sóttu kirkju að Brettingsstöðum á Flateyjardal allt þar til byggð í dalnum lagðist af (1953) og kirkjan var flutt út í Flatey (vígð að nýju 1960).

Í eyjunni standa enn nokkur myndarleg hús sem haldið er við af afkomendum íbúa. Þar er viti reistur árið 1963. Hann er um 10 metra hár ferstrendur appelsínugulur turn. Ljóseinkenni hans er Fl(3)W 15s (þrjú hvít blikkljós á 15 sekúndna fresti).

Tenglar breyta