Fenrisúlfur (einnig Hróðvitnir „Hinn frægi úlfur“) er skepna í norrænni trú. Fenrisúlfur er jötunn í úlfsham, það er jötunn sem hefur tekið á sig ásjónu úlfs. Hann er sonur þeirra Loka og Angurboðu, en systkini hans eru Miðgarðsormur og Hel. Þau voru send í burt fljótlega eftir að þau fæddust. Fenrisúlfur leikur mikilvægt hlutverk í heimsýn norrænna manna, en samkvæmt Eddukvæðum er hann ein af þeim lykilskepnum sem móta örlög bæði guða og manna þegar Ragnarök ganga í garð. Varast ber að segja Fernisúlfur eins og sumir gera og tengja (óafvitandi) fyrri hluta orðsins við fernisolíu. [1]

Fenrisúlfur bítur höndina af á teikningu eftir John Bauer (1911).

Fenrisúlfur fjötraður breyta

Í upphafi stóð ekki mikil ógn af Fenrisúlfi, en hann stækkaði fljótt og ógnaði að lokum jafnvel ásunum. Æsir urðu að gera eitthvað í málunum og ákváðu að binda hann fastan. Fyrst bjuggu þeir til fjötur sem hét Læðingur. Þeir sögðu Fenrisúlfi að frægð og frami myndi fylgja honum ef að honum tækist að leysa sig úr þeim fjötri. Fenrisúlfi fannst það lítið mál að slíta sig úr því. Þaðan er komið máltækið "að leysa úr læðingi" sem merkir "að kalla eitthvað fram".

Æsir ákváðu að búa til nýjan fjötur sem kallaður var Drómi og var tvöfalt sterkari en Læðingur. Sögðu æsin þá að tvöföld frægð biði hans ef honum tækist að leysa sig úr þessum fjötri. Úlfurinn fer létt með það að leysa sig úr reipinu. Þaðan er komið orðatiltækið "að drepa úr dróma" sem merkir "að leysa úr fjötrum".

Æsir voru farnir að örvænta og sendu Skírni í Svartálfaheim þar sem hann fékk dverga til að búa til fjötur úr 6 hlutum:

  • Dyn kattarins
  • Skeggi konunnar
  • Rótum bjargsins
  • Sinum bjarnarins
  • Anda fisksins
  • Hráka fuglsins

Nýting þessara hluta í fjöturinn skýrir ástæðu þess að þeir eru ekki (lengur) til. Sá fjötur nefndist Gleipnir og leit sakleysislega út, mjög lítill og þunnur, en var í raun búinn göldrum. Úlfurinn áttaði sig á því að æsir voru að reyna að plata hann vegna þess hve fjöturinn var smár en goðin sannfærðu hann um að ef hann gæti ekki sjálfur losað sig myndu þau losa hann og því til sönnunar lagði Týr hönd sína að veði í gin úlfsins. Fjöturinn slitnaði ekki og missti Týr höndina því að goðin losuðu úlfinn að sjálfsögðu ekki. Fenrisúlfur stendur síðan bundinn í Jötunheimum til ragnaraka.

Ragnarök breyta

Völuspá segir að í ragnarökum muni Fenrisúlfur losna úr fjötrum sínum. Hann mun verða svo stór að gin hans nær frá jörðu og upp í himin er hann gapir. Fenrisúlfur mun berjast við Óðinn í ragnarrökum og mun vega hann. Víðir, sonur Óðins, mun hefna hans með því að stíga með öðrum fætinum í neðri góm úlfsins, en teygir hönd sína upp í efri góm hans við himin og kjálkabrýtur hann.

Tilvísanir breyta

  1. Morgunblaðið 1997

Heimildir breyta

  • „Fenrisúlfur á sænsku Wikipedia“. Sótt 31. janúar 2006.