Engelbert Dollfuss

Fasistaleiðtogi og kanslari Austurríkis (1892-1934)

Engelbert Dollfuss (þýska: Engelbert Dollfuß; 4. október 1892 – 25. júlí 1934) var austurrískur stjórnmálamaður úr Kristilega félagsflokknum og Föðurlandsfylkingunni sem ríkti sem einræðisherra yfir Austurríki frá 1933 til 1934. Dollfuss hafði verið skóga- og landbúnaðarráðherra þegar hann varð kanslari árið 1932 í miðri stjórnarkreppu sitjandi íhaldsstjórnarinnar. Snemma árið 1933 leysti hann upp þingið, bannaði austurríska nasistaflokkinn og tók sjálfum sér einræðisvald. Hann barði niður hreyfingar sósíalista í febrúar árið 1934 og setti síðan nýja, gerræðislega stjórnarskrá sem skilgreindi svokallaðan „Austurríkisfasisma“ sem stjórnarstefnu landsins. Dollfuss var myrtur í misheppnaðri valdaránstilraun nasista árið 1934. Eftirmaður hans, Kurt Schuschnigg, viðhélt stjórnarháttum Dollfussar þar til Adolf Hitler innlimaði Austurríki í Þýskaland árið 1938.

Engelbert Dollfuss
Dollfuss í herbúningi austurríska Heimavarnarliðsins árið 1933.
Kanslari Austurríkis
Í embætti
20. maí 1932 – 25. júlí 1934
ForsetiWilhelm Miklas
ForveriKarl Buresch
EftirmaðurKurt Schuschnigg
Persónulegar upplýsingar
Fæddur4. október 1892
Texingtal, Neðra Austurríki, Austurríki-Ungverjalandi
Látinn25. júlí 1934 (41 árs) Vín, Austurríki
DánarorsökMyrtur
ÞjóðerniAusturrískur
StjórnmálaflokkurKristilegi félagsflokkurinn
Föðurlandsfylkingin
MakiAlwine Dollfuss
TrúarbrögðKaþólskur
HáskóliVínarháskóli

Dollfuss var mjög smávaxinn maður og leiddi þetta til þess að hann var oft kallaður „litli Napóleon“ og „Metternich í vasaútgáfu“.[1]

Æviágrip breyta

Engelbert Dollfuss fæddist til fátækrar bændafjölskyldu í Neðra Austurríki árið 1892. Með styrk frá föður sínum gekk hann í háskóla í Vínarborg og síðan í Berlín. Þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst bauð Dollfuss sig fram í austurrísk-ungverka herinn og hlaut stöðu undirforingja. Eftir stríðið sneri hann aftur til náms í Vínarborg og útskrifaðist úr Vínarháskóla með doktorsgráðu í lögfræði. Hann gerðist síðan ritari í bændasambandi í Neðra Austurríki og varð einn af áhrifamestu talsmönnum fyrir hagsmunum stórbænda á austurríska þinginu. Árið 1931 varð Dolfuss skóga- og landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Karls Buresch kanslara.[2]

Buresch sagði af sér eftir þingkosningar árið 1932 og Dollfuss hlaut stuðning borgaralegu stjórnmálaflokkanna til að taka að sér stjórnarmyndun og gerast nýr kanslari. Eftir að Adolf Hitler og Nasistaflokkurinn komust til valda í Þýskalandi jukust kröfur þjóðernissinna um að Austurríki og Þýskaland sameinuðust í stórt þýskt þjóðríki. Frakkar og Ítalir vildu alls ekki láta Þjóðverja innlima Austurríki og því veittu Frakkar stjórn Dollfussar rausnarlega fjárstyrki til að treysta kanslarann í sessi.[2] Í mars árið 1933 leysti Dollfuss upp austurríska þingið og tók sér einræðisvald.

Í febrúar árið 1934 hóf Dollfuss ofsóknir gegn austurrískum jafnaðarmönnum. Liðsmönnum Dollfussar og bandamanna hans tókst að útrýma andspyrnusveitum jafnaðarmanna í blóðugum átökum sem entust frá 12. til 16. febrúar 1934. Sigur Dollfussar leiddi þó ekki til langvarandi friðar eða stöðugleika í Austurríki heldur varð kall nasista eftir samruna við Þýskaland einungis hærra. Á næstu mánuðum voru margar tilraunir gerðar til þess að ráða Dollfuss af dögum.[3] Dollfuss naut í þessum efnum stuðnings austurríska Heimavarnarliðsins (þýska: Heimwehr), fasískra skærusveita sem vildu varðveita sjálfstæði Austurríkis gagnvart Þýskalandi.[1]

Dollfuss setti nýja stjórnarskrá fyrir Austurríki í apríl árið 1934. Stjórnarskráin lögfesti sérstakt austurrískt afbrigði af fasisma (þýska: Austrofaschismus) sem opinbera hugmyndafræði ríkisins. Þessi hugmyndafræði byggðist á kaþólskri samráðsskipan og lagði áherslu á að hið kaþólska Austurríki ætti ekki mikla samleið með Þýskalandi, sem var aðallega mótmælendatrúar.

Þann 25. júlí óku 144 nasistar dulbúnir sem lögregluþjónar að stjórnarbyggingunni í Vín, handtóku stjórnina og drápu Dollfuss. Þrátt fyrir dauða Dollfussar misheppnaðist uppreisn nasistanna og aðeins klukkutíma síðar tókst hermálaráðuneytinu að vinna bug á uppreisnarmönnunum.[3]

Morðið á Dollfuss vakti hörð viðbrögð meðal andstæðinga Hitlers um allan heim. Í blaðinu Popolo di Italia, málgagni stjórnar Benito Mussolini, var sagt að „enn einu sinni hefði nú komið fram í dagsljósið sú villimennska og blóðþorsti, sem raunverulega ríkti í hugum Þjóðverja“.[4] Austurríki hélt sjálfstæði sínu í fjögur ár eftir dauða Dollfussar en var síðan loks innlimað í Þýskaland árið 1938.

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 „Bræðrastríðið milli Þjóðverja og Austurríkismanna“. Lesbók Morgunblaðsins. 9. júlí 1933. Sótt 8. febrúar 2019.
  2. 2,0 2,1 „Dr. Engilbert Dollfuss: Litli maðurinn, sem erlend ríki notuðu gegn hans eigin þjóð“. Alþýðublaðið. 9. ágúst 1934. Sótt 8. febrúar 2019.
  3. 3,0 3,1 „Þegar Dollfuss var myrtur“. Fálkinn. 29. september 1934. Sótt 8. febrúar 2019.
  4. „Hitler heiðrar morðingjana“. 1. maí - Reykjavík. 1. maí 1938. Sótt 8. febrúar 2019.


Fyrirrennari:
Karl Buresch
Kanslari Austurríkis
(20. maí 193225. júlí 1934)
Eftirmaður:
Kurt Schuschnigg