Elihu Root

Bandarískur stjórnmálamaður (1845-1937)

Elihu Root (15. febrúar 1845 – 7. febrúar 1937) var bandarískur lögfræðingur og stjórnmálamaður úr Repúblikanaflokknum. Hann var utanríkisráðherra Bandaríkjanna á forsetatíð Theodores Roosevelt og þar áður stríðsmálaráðherra í ríkisstjórnum Roosevelts og forvera hans, Williams McKinley. Root hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1912 fyrir sáttagerðir sínar í ýmsum milliríkjadeilum, meðal annars landamæradeilu Breta og Bandaríkjamanna um mörk Alaska og Kanada.

Elihu Root
Elihu Root árið 1902.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna
Í embætti
19. júlí 1905 – 27. janúar 1909
ForsetiTheodore Roosevelt
ForveriJohn Hay
EftirmaðurRobert Bacon
Stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna
Í embætti
1. ágúst 1899 – 31. janúar 1904
ForsetiWilliam McKinley
Theodore Roosevelt
ForveriRussell A. Alger
EftirmaðurWilliam Howard Taft
Öldungadeildarþingmaður fyrir New York
Í embætti
4. mars 1909 – 3. mars 1915
ForveriThomas C. Platt
EftirmaðurJames Wadsworth
Persónulegar upplýsingar
Fæddur15. febrúar 1845
Clinton, New York, Bandaríkjunum
Látinn7. febrúar 1937 (91 árs) New York, New York, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiClara Wales
HáskóliHamilton-háskóli
New York-háskóli
AtvinnaStjórnmálamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1912)
Undirskrift

Æviágrip breyta

Elihu Root fæddist þann 15. febrúar árið 1845 í þorpinu Clinton í New York-fylki. Eftir að hafa lokið grunnskólanámi gekk Root í Hamilton-háskóla í þorpinu, þar sem faðir hans vann sem stærðfræðiprófessor. Hann gekk síðan í lagadeild New York-háskóla og útskrifaðist þaðan árið 1867.[1]

Root hóf þátttöku í stjórnmálum þegar Chester A. Arthur Bandaríkjaforseti útnefndi hann ríkissaksóknara í suðurlögdæmi New York. Árið 1899 varð Root stríðsmálaráðherra í ríkisstjórn Williams McKinley forseta. Hann hélt ráðherraembættinu eftir að McKinley var myrtur árið 1901 og Theodore Roosevelt tók við forsetaembættinu. Root kom á breytingum á skipulagi stríðsmálaráðuneytisins, meðal annars með því að breyta stöðuhækkunarferlum og skipuleggja skóladeildir fyrir sérsveitir innan hersins. Root sá einnig um skipulagsmál landsvæða sem Bandaríkin höfðu unnið í stríði Spánar og Bandaríkjanna. Meðal annars hóf hann skipulagningu á ferli til að færa stjórn Kúbu í hendur Kúbverja, setti nýja stjórnarskrá í Filippseyjum og felldi niður innflutningstolla til Bandaríkjanna frá Púertó Ríkó. Þegar samtök andheimsvaldasinna gagnrýndu stríð Bandaríkjanna gegn uppreisnarmönnum á Filippseyjum varði Root stefnu stjórnarinnar og sakaði andheimsvaldasinnana um að draga átökin á langinn með því að mótmæla henni.[2]

Árið 1903 sat Root í samninganefnd Bandaríkjamanna í viðræðum við Breta um landamæradeilur milli Alaska og Kanada.[3]

Root sagði upp ráðherraembætti sínu árið 1904 til að snúa sér að lögmannsstörfum í einkageiranum en tók aftur sæti í stjórninni næsta ár þegar Roosevelt forseti útnefndi hann utanríkisráðherra í kjölfar dauða Johns Hay. Sem utanríkisráðherra gerði Root samning við Japan þar sem ríkin tvö viðurkenndu landsvæði hvors annars í Asíu og á Kyrrahafi og Japanir féllust á að takmarka aðflutning fólks til Bandaríkjanna.[4] Root stóð fyrir 24 tvíhliða samningum sem skuldbundu Bandaríkin og aðra samningsaðila til að leysa úr milliríkjadeilum á friðsaman hátt. Þessir samningar leiddu til stofnunar Alþjóðadómstólsins í Haag.[5][6]

Árið 1909 var Root kjörinn á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir New York-fylki. Sem þingmaður studdi hann lagningu tekjuskatts árið 1910 í opnu bréfi í The New York Times.[7] Tekjuskatturinn hafði verið heimilaður með sextánda viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna árið 1909.

Root lét af þingmennsku árið 1914. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út sama ár kallaði Root eftir inngripi Bandaríkjanna í stríðið og gagnrýndi hlutleysisstefnu Woodrows Wilson forseta. Root studdi inngöngu Bandaríkjanna í stríðið árið 1917 og fór í júní sama ár til Rússlands á vegum Bandaríkjastjórnar til að semja við byltingarstjórn Aleksandrs Kerenskij um lán frá Bandaríkjunum. Root ítrekaði fyrir Rússum að þeir myndu ekki fá lán nema þeir héldu áfram að berjast í stríðinu.[8] Þetta hvatti Kerenskij til að hleypa af stokkunum nýju áhlaupi gegn Austurríkismönnum í júlí 1917. Áhlaupið fór út um þúfur og átti sinn þátt í því að vinsældir stjórnar hans döluðu og að bolsévikum tókst að steypa henni af stóli í októberbyltingunni sama ár.[9]

Root var forseti Friðarstofnunar Carnegies frá 1910 til 1925. Root lést árið 1937 og var þá síðasti eftirlifandi meðlimur úr ríkisstjórn Williams McKinley.

Tilvísanir breyta

  1. „Constitutional Conservatives in the Progressive Era: Elihu Root, William Howard Taft, and Henry Cabot Lodge, Sr“ (enska). The Heritage Foundation. 15. febrúar 2013. Sótt 22. apríl 2020.
  2. James R. Arnold (2011). The Moro War: How America Battled a Muslim Insurgency in the Philippine Jungle, 1902–1913. Bloomsbury Publishing. bls. 171–72. ISBN 9781608193653.
  3. Keenlyside, Hugh L. L.; Brown, Gerald S. (1952). Canada and the United States: Some Aspects of Their Historical Relations. Alfred A. Knopf. bls. 178–189. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. september 2020. Sótt 22. apríl 2020.
  4. Gould, Lewis L. (1992). The Presidency of Theodore Roosevelt. University Press of Kansas. bls. 268. ISBN 0-7006-0565-7.
  5. Cross, Graham (2012). The Diplomatic Education of Franklin D. Roosevelt, 1882-1933. New York, NY: Palgrave Macmillan. bls. 71. ISBN 978-1-137-01453-5.
  6. Muccigrosso, ed., Research Guide to American Historical Biography (1988) 3:1330
  7. "Root For Adoption of Tax Amendment," New York Times, 1. mars 1910
  8. David Mayers (1997). The Ambassadors and America's Soviet Policy. Oxford University Press. bls. 77. ISBN 9780195115765.
  9. Ralph Buultjens (7. nóvember 1984). „U.S. 'AID' TO THE BOLSHEVIKS“ (enska). The New York Times. Sótt 22. apríl 2020.


Fyrirrennari:
Russell A. Alger
Stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna
(1. ágúst 189931. janúar 1904)
Eftirmaður:
William Howard Taft
Fyrirrennari:
John Hay
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna
(19. júlí 190527. janúar 1909)
Eftirmaður:
Robert Bacon