Eldfjall (kvikmynd)

Eldfjall er íslensk dramamynd frá árinu 2011 sem Rúnar Rúnarsson leikstýrði og skrifaði. Benedikt Erlingsson, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Theódór Júlíusson, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Þorsteinn Bachmann fara með aðalhlutverkin í myndinni. Myndin er þroskasaga manns sem þarf að horfast í augu við val fortíðarinnar og erfiðleika nútímans til að eiga möguleika á framtíð. Myndin kom út í kvikmyndahúsum þann 30. september 2011 og hefur síðan verið sýnd á fjölmörgum kvikmyndahátíðum, þar á meðal í Cannes þar sem hún var tilnefnd til Caméra d'Or verðlauna.

Eldfjall
Auglýsingaplakat myndarinnar.
LeikstjóriRúnar Rúnarsson
HandritshöfundurRúnar Rúnarsson
FramleiðandiÞórir Snær Sigurjónsson

Skúli Malmquist

Egill Dennerline
LeikararTheódór Júlíusson

Margrét Helga Jóhannsdóttir
Elma Lísa Gunnarsdóttir

Þorsteinn Bachmann
FrumsýningFáni Íslands 30. september 2011
Lengd95 mín.
Tungumálíslenska
AldurstakmarkLeyfð
Ráðstöfunarfé104.000.000 kr.

Söguþráður breyta

Hannes er kominn á eftirlaun eftir 37 ára starf sem húsvörður í skóla þar sem nemendum stóð ætíð stuggur af honum. Hann veltir því nú fyrir sér hvað hann eigi að taka sér fyrir hendur og efst á listanum er að gera upp gamlan bát sem hann á. Annað sem Hannes myndi gjarnan vilja laga er samband hans við tvö uppkomin börn sín, en það samband er ekki upp á marga fiska. Eina ástæðan fyrir því að hann hittir þau endrum og sinnum er að þau koma stundum að heimsækja móður sína, Önnu. Við föður sinn hafa þau hins vegar lítið að tala og enn minni áhuga á því. Kvöld eitt þegar þau Hannes og Anna eru að snæða kvöldverð fær Anna heilablóðfall. Eftir að hún er flutt á sjúkrahús og rannsökuð kemur í ljós að hún mun sennilega aldrei komast til heilsu á ný. Í stað þess að skilja Önnu eftir í höndum lækna og hjúkrunarfólks ákveður Hannes að fara með hana heim þar sem hann tekur til við að hjúkra henni og sjá henni fyrir því sem hún þarf. Um leið fær hann sjálfur nægan tíma til að skoða sjálfan sig og eigið líf og kemst að því að það er aldrei of seint að taka út þroska og laga það sem aflaga hefur farið.[1]

Leikendur breyta

Framleiðsla breyta

Tökur á myndinni hófust þann 24. september 2010 í Reykjavík og Kópavogi og stuttu síðar var farið til Vestmannaeyja til þess að taka upp atriði þar. Fjármögnun myndarinnar kom frá danska kvikmyndasjóðnum sem gaf 104 milljónir íslenskra króna í verkefnið sem þótti óvenjulegt vegna þess að myndin var alfarið tekin upp á íslensku. Innifalið í fjárhæðinni var sjónvarpssala til dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2.[2] Eldfjall hlaut einnig styrk frá kvikmyndamiðstöð Íslands, Nordic Film & TV Fond og iðnaðarráðuneytinu.

Útgáfa breyta

Eldfjall var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes þann 13. maí 2011 og var þar tilnefnd til bæði Caméra d'Or sem eru veitt fyrir bestu fyrstu kvikmynd leikstjóra og Director's Fortnight verðlauna.[3][4] Myndin var einnig sýnd og margverðlaunuð á kvikmyndahátíðunum í Reykjavík, São Paulo, Denver, Chicago, Kænugarði, Montréal, Cluj-Napoca og Valladolid. Eldfjall hóf síðan göngu sína í kvikmyndahúsum á Íslandi þann 30. september 2011.[5]

Heimildir breyta

  1. Eldfjall (2011)
  2. Freyr Gígja Gunnarsson (24. september 2010), Danir setja hundrað milljónir í fyrstu mynd Rúnars, Fréttablaðið
  3. Freyr Gígja Gunnarsson (19. apríl 2011), Kvikmyndin Eldfjall keppir í Cannes, Fréttablaðið
  4. Marta María (16. maí 2011), Íslendingar í stuði í Cannes, Fréttablaðið
  5. Eldfjall, Kvikmyndir.is
   Þessi kvikmyndagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.