Efnahagur Bretlands

Efnahagur Bretlands er eitt stærsta efnahagskerfi Evrópu. Bretland er kapítalískt þróað land. Efnahagskerfið er það fimmta stærsta í heimi að nafnvirði landsframleiðslu en það ellefta stærsta miðað við kaupmáttarjöfnuð. Það var annað stærsta efnahagskerfi í Evrópusambandinu miðað við kaupmáttarjöfnuð og þriðja stærsta að nafnverði landsframleiðslu fyrir Brexit. Efnahagur Bretlands hefur dregist aftur úr Þýskalandi sökum hruns breska pundsins gagnvart evrunni.

Lundúnaborg er stærsta fjármálamiðstöð í heiminum.

Bretland var upphafsland iðnbyltingarinnar á 18. og 19. öld og var á þeim tíma drifkraftur í heimshagkerfinu. Með annarri iðnbyltinguninni undir lok 19. aldar tóku Bandaríkin við forystuhlutverkinu í efnahagskerfi heimsins. Heimsstyrjaldirnar tvær og fall breska heimveldsins á 20. öldinnni veiktu alþjóðlega stöðu Bretlands sem efnahagsveldis. Í byrjun 21. aldarinnar gegnir Bretland þó enn mikilvægu hlutverki í efnahag heimsins vegna mikillar landsframleiðslu og stöðu Lundúna sem einnar mikilvægustu fjármálamiðstöðvar í heimi. Alþjóðlega fjármálakreppan 2007-2008 veikti efnahag Bretlands verulega og olli miklum sveiflum næsta áratuginn. Árið 2016 ákváðu Bretar með þjóðaratkvæðagreiðslu að segja sig úr Evrópusambandinu. Þegar COVID-19-faraldurinn reið svo yfir árið 2020 varð samdrátturinn í Bretlandi meiri en í nokkru öðru G7-ríki. Árið 2021 fór svo verðbólga af stað og náði yfir 10% vegna verðhækkana á alþjóðlegum mörkuðum og hærra verðs á innflutningi frá Evrópusambandinu.

Bretland er eitt alþjóðavæddasta land í heiminum. Höfuðborg landsins London er stór fjármálamiðstöð fyrir alþjóðaviðskipti. Borgin er ein af þremur „stjórnstöðvum“ efnahags heimsins (ásamt New York-borg í Bandaríkjunum og Tókýó í Japan). Hagkerfi Bretlands er samsett úr hagkerfum Englands, Skotlands, Wales og Norður-Írlands (eftir stærð). Bretland á aðild að G7, Breska samveldinu, OECD og WTO.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.