Edward Heath

Forsætisráðherra Bretlands (1916–2005)

Sir Edward Richard George Heath (9. júlí 191617. júlí 2005), oft kallaður Ted Heath, var breskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Bretlands frá 1970 til 1974 og leiðtogi Íhaldsflokksins frá 1965 til 1975. Hann var mikill stuðningsmaður evrópska efnahagsbandalagsins (EC) og eftir að hafa unnið atkvæðagreiðslu í neðri deild breska þingsins með afgerandi hætti fór hann fyrir inngöngu Bretlands í bandalagið árið 1973. Gjarnan er talað um þetta sem helsta stjórnmálasigur Heath.[1] Heath hafði ætlað að beita sér fyrir nýsköpun sem forsætisráðherra en ríkisstjórn hans mátti glíma við ýmis konar efnahagsörðugleika, þar á meðal verðbólgu og verkföll. Hann varð síðar svarinn andstæðingur Margaretar Thatcher, sem tók við honum sem flokksformaður árið 1975.

Edward Heath
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
19. júní 1970 – 4. mars 1974
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
ForveriHarold Wilson
EftirmaðurHarold Wilson
Persónulegar upplýsingar
Fæddur9. júlí 1916
Broadstairs, Kent, Englandi
Látinn17. júlí 2005 (89 ára) Salisbury, Wiltshire, Englandi
ÞjóðerniBreti
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
HáskóliBalliol-háskóli í Oxford

Æviágrip breyta

Heath var óvenjulegur meðal leiðtoga Íhaldsflokksins þar sem hann var kominn úr lágmillistéttarfjölskyldu fremur en að vera af ríkum ættum. Hann var leiðtogi í stúdentastjórnmálum í Oxford-háskóla og var liðsforingi í fallbyssusveit í seinni heimsstyrjöldinni. Hann vann í stuttan tíma í breskri stjórnsýslu[2] en sagði af sér til þess að bjóða sig fram á breska þingið og náði kjöri í Bexley árið 1950. Hann varð atvinnumálaráðherra árið 1959 og varð síðar forseti viðskiptaráðsins. Heath varð formaður Íhaldsflokksins árið 1965 og hélt því embætti þrátt fyrir að tapa þingkosningunum árið 1966.

Heath varð forsætisráðherra eftir að hafa unnið þingkosningar árið 1970. Hann sá fyrir því að númeragerð breskra mynta var endurskipulögð árið 1971 og árið 1972 breytti hann héraðsstjórnum Bretlands og skapaði ýmsar nýjar sýslur. Mikilvægasti verknaður hans á ráðherrastóli var að leiða Bretland inn í evrópska efnahagsbandalagið (síðar Evrópusambandið) árið 1973. Ráðherratíð Heath spannaði einnig hápunkt átakanna á Norður-Írlandi og leiddi til þess að Norður-Írland var svipt heimastjórn.

Hann reyndi árið 1971 að setja lög til að hafa hemil á stéttarfélögum og vonaðist til þess að létta á efnahagseftirliti og koma á óbeinni skattlagningu í stað beinnar skattlagningar. Tvö verkföll námuverkamanna árin 1972 og 1974 urðu ríkisstjórn hans til miska og sú síðari leiddi til þess að komið var á þriggja daga orkuviku til að spara orku. Heath kallaði til kosninga í febrúar 1974 til þess að styrkja stöðu sína gagnvart kröfum námuverkamannanna en kosningarnar leiddu þess í stað til stjórnarkreppu þar sem Verkamannaflokkurinn hlaut fjögur fleiri þingsæti en Íhaldsflokkurinn þrátt fyrir að hafa hlotið færri atkvæði. Heath sagði af sér sem forsætisráðherra eftir að hafa reynt án árangurs að mynda stjórnarsamstarf með Frjálslynda flokknum. Þrátt fyrir að tapa síðan aftur kosningum síðar þetta ár sór Heath þess eið að hann myndi sitja áfram sem leiðtogi Íhaldsflokksins en í febrúar 1975 bauð Margaret Thatcher sig fram á móti honum í formannskjöri og sigraði hann.

Heath settist nú í aftursætin í breskum stjórnmálum en gerðist hávær gagnrýnandi Thatchers og forystu hennar. Hann var áfram á þingi þar til hann settist í helgan stein árið 2001. Síðustu níu ár sín á þingi var hann aldursforseti þingsins.

Utan stjórnmálalífsins var Heath kunnur fyrir að vera mikill siglingamaður og góður tónlistarmaður. Hann dó árið 2005. Hann var einn af fjórum forsætisráðherrum Bretlands sem giftist aldrei.

Árið 2015 var tilkynnt að lögreglan væri að rannsaka ásakanir um barnaníð á hendur Heath. Rannsókninni var lokað árið 2017 þar sem engin sönnunargögn gegn Heath höfðu fundist.[3]

Tilvísanir breyta

  1. John Campbell, Edward Heath (1993) p 404-5.
  2. „Edward Heath: A profile of the former UK Prime Minister“. BBC News (bresk enska). 4. ágúst 2015. Sótt 2. apríl 2017.
  3. „Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands sakaður um að hafa nauðgað 11 ára dreng“. Vísir. 5. október 2017. Sótt 8. janúar 2018.


Fyrirrennari:
Harold Wilson
Forsætisráðherra Bretlands
(19. júní 19704. mars 1974)
Eftirmaður:
Harold Wilson