Ebóla (EBOV) eða Ebóluveira er einþátta RNA þráðveira sem veldur blæðandi veirusótthita í mönnum, einnig kallað Ebólu-blæðingarsótt. Veiran er skæð og ein sú banvænansta sem þekkist nú á dögum. Veiran er nefnd eftir Ebólafljótinu í Austur-Kongó og kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1976. Fjögur þekkt afbrigði eru til af veirunni og öll nefnd eftir þeim svæðum sem þau hafa fundist á.

Rafræn smásjármynd af Ebóla veirunni

Peter Piot, belg­ískur vísindamaður, var meðal þeirra sem greindu veiruna fyrst árið 1976. Veiran hefur skotið upp kollinum reglulega og hafa staðbundnir faraldrar átt sér stað í Afríku allt frá árinu 1994. Fyrsta tilfelli Ebóluverunar utan Afríku átti sér stað árið 2014, og var þar að um að ræða heilbrigðisstarfsmann í Madríd sem hafði smitast við aðhlynningu sjúklinga sem fluttir höfðu verið til Spánar frá Afríku.

Einkenni breyta

Ebólan ræðst á öll líffæri og vefi mannslíkamans nema vöðva og bein. Veiran inniheldur sjö gerðir af próteinum sem vinna þrotlaust líkt og vél og éta upp vefi líkamans á meðan veiran fjölgar sér. Blóðið þykknar og blóðtappar myndast í æðakerf líkamans. Þetta stöðvar blóðflæði til líffæra og vefja líkamans, veldur súrefnisþurrð og drepi í vefjum (nekrósu) sem birtist sem svartir blettir á líffærum og líkmana. Húðblæðingar (petechiae) eiga sér einnig stað.

Veiran leysir upp kollagen-þræði líkamans og veldur því að neðsta lag húðarinnar verður vessakennt og deyr. Maculopapular ástand myndast á húðinni sem einkennist af örsmáum hvítum vökvafylltum blöðrum sem minna á sagógrjón. Húðin verður viðkvæm fyrir allri viðkomu og rifnar auðveldlega af við snertingu eða þrýsting. Blæðingar hefjast úr munnholi, tannholdi og munnvatnskirtlum. Smám saman fer að blæða úr öllum líkamsopum líkamans. Yfirborð tungunnar flagnar að lokum af, sjúklingurinn annaðhvort spýtir því út úr sér eða gleypir það ósjálfrát. Yfirborð slímhúðar í koki og barka flagnar einnig af þegar blóðug uppköst hefjast.

Blæðingar hefjast í gollurshúsi, hjartavöðvinn mýkist og seytir blóði sem veldur blæðingum í brjóstholi.

Augnblæðingar hefjast, blóð seytlar úr tárakirtlum sjúklingsins og hann virðist gráta blóði. Ímyndin af sjúklingum grátandi blóði er það sem sjúkdómurinn er þekkastur fyrir í vinsælli dægurmenningu.

Ebóluveiran drepur mikið af vefjum líkamans meðan sjúklingurinn lifir, veldur nekrósuflekkjum á öllum líffærum og húð. Lifraskemmdir og bráð nýrnabilun af völdum blóðugrar þvagmengunar á sér einnig stað. Blæðingar hefjast í þörmum sem einkennast af blóðugum niðurgangi.

Heimildir breyta

  • Preston, Richard. The Hot Zone, A Terrifying True Story (New York: Random House, 1994). ISBN 0-385-47956-5.