Dufgussynir voru nafnkunnir bræður á Sturlungaöld, liðsmenn Sturlunga og frændur. Þeir voru synir Dufgusar Þorleifssonar (Dufgúsar) bónda á Sauðafelli í Dölum, Hjarðarholti og Stafholti, en Þuríður móðir hans var laundóttir Hvamm-Sturlu. Bræðurnir voru fjórir: Svarthöfði, Kolbeinn grön, Björn drumbur og Björn kægill (eða Kægil-Björn). Þeir þóttu hraustir og miklir bardagamenn og voru jafnan í liði Sturlunga, fyrst með Sturlu Sighvatssyni og síðar meðal annars með Þórði kakala og koma mjög víða við sögu í Sturlungu.

Kægil-Björn var veginn af mönnum Kolbeins unga í Króksfirði 18. apríl 1244, sagður hafa dáið hlæjandi.

Björn drumbur var í brúðkaupinu á Flugumýri 1253, en þegar hann reið heim úr veislunni mætti hann brennumönnum á Öxnadalsheiði og í hópi þeirra var bróðir hans, Kolbeinn grön. Björn drumbur vildi ekki fara með þeim að Gissuri. Hann er talinn hafa verið friðsamastur þeirra bræðra; bjó í Hjarðarholti og lifði fram yfir 1284 en var dáinn 1289.

Kolbeinn var við brennuna og sótti Ingibjörgu Sturludóttur frænku sína inn í eldinn og bjargaði henni. Gissur jarl lét drepa hann á Espihóli í Eyjafirði 1254.

Svarthöfði kvæntist 1240 Herdísi, dóttur Odds Álasonar, og bjuggu þau á Eyri í Arnarfirði. Synir þeirra voru Áli, faðir Steinunnar konu Hauks Erlendssonar lögmanns, og Björn, sem giftist Ingibjörgu Gunnarsdóttur, frillu Gissurar Þorvaldssonar, eftir lát hans. Svarthöfði var í liði Hrafns Oddssonar á Þverárfundi 1255 og særðist þar; eftir bardagann kom Þorgils skarði að honum við bænhúsvegg á Þverá þar sem hann var „særðr meiðsla sárum, höggvinn um þvert andlitið, bað hann griða heldr ákafliga, Þórgils gaf honum grið“. Svarthöfði gæti hafa skrifað Þórðar sögu kakala (þátt af Sturlunga sögu).[1]

Dufgus er gelískt nafn og merkir svarthöfði eða hinn dökkhærði (dubh = svartur, dökkur / gaoisid = hár, hrosshár). Nafnið Svarthöfði Dufgusson bendir til að menn hafi vitað hver var merking orðsins Dufgus.


Tilvísanir breyta

  1. Björn M. Ólsen. Um Sturlungu.