Drína er fljót á Balkanskaga. Það er dragá, 346 km langt og fellur í fljótið Sövu, hægra megin og sunnan megin frá, en Sava fellur aftur í Dóná. Drína markar hefðbundin landamæri Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu. Nafnið er afbökun á fornu latnesku nafni fljótsins, Drinus.

Drína á korti sem sýnir vatnasvæði Sövu
Svipmynd frá Drínu þar sem hún rennur nærri Bajina Bašta í Serbíu

Upptök Drínu eru talin þar sem árnar Tara og Píva, sem báðar renna úr Svartfjallalandi, sameinast Bosníumegin við landamærin, við þorp sem heitir Šćepan Polje. Fljótið rennur svo í norður og fellur í Sövu við þorpið Crna Bara.

Drína er ekki fær skipum, en flúðasiglingar á kajökum eru stundaðar á henni. Fallhæð árinnar er mikil, eða um 360 metrar, og í henni eru þrjár vatnsaflsvirkjanir, en talið er að hún geti knúið nokkrar slíkar til viðbótar.

Drina er einnig heitið á tveim sígarettutegundum. Önnur er ein vinsælasta tegund í Serbíu, hin er ein vinsælasta tegundin í Bosníu, en báðar draga nafn sitt af ánni.

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.