Dire Straits var bresk rokkhljómsveit stofnuð árið 1977 af bræðrunum Mark Knopfler (sólógítar og söngur) og David Knopfler (ritmagítar) auk John Illsley (bassi) og Pick Withers (trommur). Lög sveitarinnar einkenndust af einföldum útsetningum og grípandi gítarstefum sem Mark Knopfler lék. Margir af textum sveitarinnar fjölluðu um eftirsjá. Fyrsta breiðskífa sveitarinnar, Dire Straits, kom út 1978 og innihélt smellina „Down to the Waterline“ og „Sultans of Swing“. Næstu ár komu út breiðskífurnar Communiqué, Making Movies og Love Over Gold með smellum á borð við „Romeo and Juliet“ og „Tunnel of Love“. Vinsældir sveitarinnar náðu hámarki með plötunni Brothers in Arms sem kom út 1985. Platan innihélt smellina „Money for Nothing“, „Brothers in Arms“ og „Walk of Life“. Hún fór beint í 1. sæti breska hljómplötulistans og var 228 vikur á listum. Þetta var ein af fyrstu plötunum sem var bæði unnin og gefin út á stafrænu formi. Geisladiskurinn með plötunni var sá fyrsti í heimi sem seldist í meira en milljón eintökum. Eftir þessar vinsældir og vel heppnað tónleikaferðalag hætti Mark Knopfler í hljómsveitinni og 1988 lýsti hann því yfir að hún væri hætt. Hljómsveitin kom þó saman nokkrum sinnum næstu ár og árið 1991 kom út ný stúdíóplata, On Every Street. Platan hlaut dræmar viðtökur. Í kjölfarið fór hljómsveitin í tveggja ára tónleikaferðalag sem reyndist meðlimum mjög erfitt og varð til þess að Mark Knopfler hætti endanlega.

Dire Straits á tónleikum í Noregi 1985.


Breiðskífur breyta

  • Dire Straits (1978)
  • Communiqué (1979)
  • Making Movies (1980)
  • Love over Gold (1982)
  • Brothers in Arms (1985)
  • On Every Street (1991)
   Þessi tónlistargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.