Diana Rigg

Bresk leikkona (1938-2020)

Dame Enid Diana Elizabeth Rigg (20. júlí 1938 – 10. september 2020) var bresk leikkona. Rigg varð fræg á sjöunda áratugnum fyrir að leika njósnarann Emmu Peel í sjónvarpsþáttunum The Avengers (ísl. Skelegg skötuhjú), en þar birtist hún í fjórðu og fimmtu þáttaröðunum og lék annað aðalhlutverkið á móti Patrick Macnee. Hún varð einnig þekkt fyrir að leika Bond-stúlkuna Tracy di Vicenzo í James Bond-myndinni On Her Majesty's Secret Service árið 1969. Á eldri árum varð Rigg þekkt fyrir að leika persónuna Olennu Tyrell í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones. Allan feril sinn hafði Rigg verið virk sem sviðsleikkona og lék í fjölda sýninga Konunglega Shakespeare-félagsins.

Diana Rigg
Diana Rigg árið 1973.
Diana Rigg árið 1973.
Upplýsingar
FæddEnid Diana Elizabeth Rigg
20. júlí 1938
Doncaster, Englandi
Dáin10. september 2020 (82 ára)
London, Englandi
Ár virk1957–2020
MakiMenachem Gueffen (g. 1973; sk. 1976)
Archie Stirling (g. 1982; sk. 1990)
BörnRachael Stirling
Helstu hlutverk

Árið 1994 sæmdi Elísabet 2. Bretadrottning Rigg riddaranafnbót í Orðu breska heimsveldisins.

Æviágrip breyta

Æska, menntun og fyrstu hlutverk breyta

Diana Rigg fæddist þann 20. júlí árið 1938 og var dóttir hjónanna Beryl Helliwell og Louis Rigg. Diana bjó fyrstu sjö ár ævi sinar í borginni Bikaner í indverska fylkinu Rajastan, þar sem faðir hennar vann sem járnbrautaverkfræðingur fyrir maharajann Ganga Singh.[1] Hún sneri aftur til Bretlands ásamt eldri bróður sínum, Hugh, árið 1945. Systkinin bjuggu á heimavist þar til foreldrar þeirra sneri heim frá Indlandi. Móðir þeirra kom til Bretlands árið 1947 og faðir þeirra næsta ár.

Diana nam leiklist við listaskólann Royal Academy of Dramatic Art og útskrifaðist þaðan í júlí árið 1957. Sama ár tók Rigg þátt í uppsetningu á Kákasíska krítarhringnum eftir Bertolt Brecht ásamt öðrum nýútskrifuðum leikurum í Konunglega leikhúsinu í York á leiklistarhátíð borgarinnar frá 24. til 30. júní. Þetta var í fyrsta sinn sem þetta leikrit var sviðsett í Bretlandi og jafnframt fyrsta sviðshlutverk Diönu Rigg.[2] Rigg átti virkan leikferil það sem hún átti eftir ólifað, aðallega í leikhúsi en einnig í sjónvarpi, kvikmyndum og útvarpi.

Ferill breyta

Diana Rigg einbeitti sér aðallega að leikhúsferli sínum og birtist gjarnan í klassískum verkum á borð við Óþelló og Draumi á Jónsmessunótt.

Rigg varð fræg fyrir að leika hlutverk njósnarans Emmu Peel í fjórðu og fimmtu þáttaröð bresku hasarþáttanna The Avengers (ísl. Skelegg skötuhjú) á sjöunda áratugnum. Túlkun Rigg á persónunni var mjög vinsæl og aðdáendur The Avengers telja þáttaraðirnar þar sem hún birtist í aðalhlutverki gjarnan marka hápunkt þáttanna. Árið 1968 ákvað Rigg hins vegar að hætta í þáttunum þar sem hún óttaðist að persóna Emmu Peel myndi skyggja um of á feril sinn sem leikkonu. Hún ákvað að fylgja fordæmi forvera síns í aðalkvenhlutverki þáttanna, Honor Blackman, og leika aðalhlutverk í James Bond-kvikmynd.

Árið 1969 lék Rigg á móti George Lazenby í Bond-myndinni On Her Majesty's Secret Service. Hún fór með hlutverk Tracy di Vicenzo, sem var eina konan í James Bond-myndunum sem giftist Bond í lok myndarinnar sem hún birtist í.

Hlutverk Rigg í The Avengers og í On Her Majesty's Secret Service gerðu hana mjög fræga en síðar á ferli sínum neitaði hún þó að tala um þennan hluta af ferli sínum. Hún sagðist síðar sjá eftir því að hafa tekið að sér hlutverk Tracy[3] og að þeim George Lazenby hefði ekki komið vel saman við töku myndarinnar. Hún forðaðist hins vegar að tjá sig um hlutverk Emmu Peel þar sem erfitt var fyrir marga aðdáendur hennar að skilja hana frá persónunni: Í augum margra var Rigg einfaldlega Emma Peel og lengi óttaðist hún að þetta myndi hafa neikvæð áhrif á getu hennar til að fá önnur hlutverk.[3] Árið 2019 upplýsti Rigg jafnframt að hún hefði þénað „minna fé en myndatökumaðurinn“ á hlutverki sínu í þáttunum og að hún hefði þurft að berjast einsömul fyrir betri kjörum á meðan á upptökum stóð.[4] Hún lét sér auk þess illa lynda að vera fyrst og fremst álitin kyntákn sem léki hlutverk kynþokkafullra háskakvenda.[4]

Í lok ársins 1998 lék Rigg aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttunum The Mrs Bradley Mysteries, meðal annars á móti Peter Davidson. Árið 2013 birtist Rigg aftur í sjónvarpi í þáttunum Game of Thrones í hlutverki Olennu Tyrell. Hún birtist jafnframt í einum þætti þáttaraðanna Doctor Who ásamt dóttur sinni, Rachael Stirling. Sydney Newman, einn af höfundum þáttanna, hafði líka unnið við þættina The Avengers, sem skutu Rigg upp á stjörnuhimininn.

Dauði breyta

Diana Rigg lést á heimili sínu í London þann 10. september árið 2020, þá 82 ára, úr krabbameini sem hún hafði greinst með fyrr sama ár.[5][6][7]

Einkahagir breyta

Diana Rigg bjó í átta ár í óvígðri sambúð með breska leikstjóranum Philip Saville en þann 6. júlí 1973 giftist hún ísraelska lístmálaranum Menachem Gueffen. Þau skildu þann 6. september 1976. Árið 1975 kynntist hún Archibald Hugh Stirling og eignaðist með honum dótturina Rachael Stirling þann 30. maí árið 1977. Diana og Archibald giftust þann 25. mars árið 1982 í New York en skildu árið 1990.

Diana Rigg var lengi talin nokkuð fráhverf femínisma. Á sjöunda áratugnum lét hún þau orð falla að henni þætti öll femínísk orðræða hundleiðinleg.[8] Hún tjáði sig þó um óréttlátan kynbundinn launamun við tökur The Avengers á Cannes-kvikmyndahátíðinni árið 2019.[9]

Tilvísanir breyta

  1. « Diana Rigg » á l'Encyclopædia Britannica.
  2. York Theatre Royal.
  3. 3,0 3,1 « Diana Rigg » Geymt 11 ágúst 2016 í Wayback Machine sur mynameisbond.fr.
  4. 4,0 4,1 Claire Tervé (7. apríl 2019). „Diana Rigg gagnait "moins que le cameraman" en jouant Emma Peel“. Le Huffington Post.
  5. « Actress Dame Diana Rigg dies aged 82 », BBC, 10. september 2020.
  6. Hannah J Davies, « Diana Rigg, Avengers and Game of Thrones star, dies aged 82 », The Guardian, 10. september 2020.
  7. „Di­ana Rigg er lát­in 82 ára að aldri“. mbl.is. 10. september 2020. Sótt 13. september 2020.
  8. William Langley, « Dame Diana Rigg is still fanning the flames of feminist derision », telegraph.co.uk, 5 mai 2013.
  9. „Diana Rigg : "Dans Chapeau melon et bottes de cuir, je gagnais moins que le cameraman !". Le Parisien. 6. apríl 2019. Sótt 13. september 2020.

Tengill breyta