Dagskrárgerð felst í því að skipuleggja og undirbúa upptöku, úrvinnslu og/eða útsendingu útvarps- eða sjónvarpsefnis. Efnið getur verið ætlað til útsendingar í eitt skipti eða verið hluti af þáttaröð. Efnið getur verið tekið upp og unnið löngu fyrir útsendingu eða verið í beinni útsendingu.

Dagskrárgerðarfólk vinnur einstaka þætti eða þáttaraðir í samstarfi við dagskrárstjórn sem skipuleggur dagskrána til lengri tíma í senn. Dagskrárgerðin tekur mið af hefðum sem skapast hafa í dagskrárgerð (t.d. að hafa fréttir nálægt kvöldmatartíma), áhorfendum eða áheyrendum (t.d. dagsjónvarp í sumum löndum sem einkum á að höfða til heimavinnandi kvenna) og dagskrárgerð samkeppnisaðila.

Dæmi um dagskrárgerðartækni eru lóðrétt dagskrárgerð, þar sem sams konar þættir eru sendir út hver á eftir öðrum til að halda áhorfendum/áheyrendum; að brúa bilið, þar sem reynt er að koma í veg fyrir að áhorfendur/áheyrendur skipti um stöð milli þátta til dæmis með því að auglýsa næsta þátt um leið og þeim fyrri lýkur; gagnstæð dagskrárgerð þar sem reynt er að draga áhorfendur/áheyrendur frá samkeppnisaðila með því að sýna þætti sem höfða til annars hóps en þættir sem eru á sama tíma á stöð samkeppnisaðilans, til dæmis þætti sem höfða til kvenna á sama tíma og hin stöðin sýnir frá knattspyrnuleik karla. Dagskrárgerð sem tekur mið af samkeppni getur líka verið samsíða, þannig að þættir sem höfða til sama hóps eru sýndir á sama tíma og áhorfendur/áheyrendur neyðast til að velja á milli, eða sitt á hvað. Stundum er vísað til heiðursmannasamkomulags varðandi dagskrárskipulag ákveðins efnis milli samkeppnisaðila eins og til dæmis íslensks leikins sjónvarpsefnis.