Charles Michel

Forsætisráðherra Belgíu og forseti Evrópska ráðsins

Charles Yves Jean Ghislaine Michel (f. 21. desember 1975) er belgískur stjórnmálamaður, núverandi forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins og fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu.

Charles Michel
Forseti evrópska ráðsins
Núverandi
Tók við embætti
1. desember 2019
ForveriDonald Tusk
Forsætisráðherra Belgíu
Í embætti
11. október 2014 – 27. október 2019
ÞjóðhöfðingiFilippus
ForveriElio Di Rupo
EftirmaðurSophie Wilmès
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. desember 1975 (1975-12-21) (48 ára)
Namur, Belgíu
ÞjóðerniBelgískur
StjórnmálaflokkurUmbótahreyfingin
Evrópski þjóðarflokkurinn
MakiAmélie Derbaudrenghien
Börn3
HáskóliFríháskólinn í Brussel
Háskólinn í Amsterdam

Michel er sonur Louis Michel, sem einnig er þekktur belgískur stjórnmálamaður. Charles varð þróunarsamstarfsráðherra Belgíu árið 2007 og gegndi því embætti þar til hann var kjörinn formaður Umbótahreyfingarinnar (franska: Mouvement Réformateur) árið 2011. Eftir þingkosningar árið 2014 varð Umbótahreyfingin þriðji stærsti flokkurinn á belgíska þinginu. Eftir stjórnarmyndunarviðræður varð Michel forsætisráðherra í stjórnarsamstarfi Umbótahreyfingarinnar, Nýja flæmska bandalagsins, Opinna flæmskra frjálsyndismanna og demókrata og Kristilega demókratíska og flæmska flokksins. Hann tók við embætti þann 11. október 2014 og var þá yngsti forsætisráðherra Belgíu frá árinu 1845.

Í desember árið 2018 hrundi ríkisstjórn Michels vegna ósættis um alþjóðasamþykkt Sameinuðu þjóðanna um málefni flóttamanna sem leiddi til þess að Nýja flæmska bandalagið sleit stjórnarsamstarfinu. Michel sagði í kjölfarið af sér en sat þó áfram í embætti fram að nýjum kosningum.[1] Í kosningunum tapaði Umbótahreyfingin þingsætum en Michel sat áfram í embætti á meðan unnið var að stofnun nýrrar stjórnar. Nokkrum vikum eftir kosningarnar var Michel útnefndur í embætti forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Hann tók við embættinu þann 1. desember sama ár.[2]

Æska og menntun breyta

Charles Michel fæddist í Namur í Vallóníu þann 21. desember 1975. Faðir hans, Louis Michel, er stjórnmálamaður úr Umbótahreyfingunni (MR) sem var borgarstjóri Jodoigne og síðar meðlimur í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og þingmaður á Evrópuþinginu. Móðir hans er Martine Pierre.

Charles Michel hóf stjórnmálaferil sinn þegar hann var sextán ára með því að ganga til liðs við ungliðahreyfingu Umbótahreyfingarinnar í Jodoigne. Árið 1994 var hann kjörinn á héraðsþing Vallónska Brabant. Hann útskrifaðist með lögfræðigráðu frá Fríháskólanum í Brussel og Háskólanum í Amsterdam árið 1998 og vann síðan sem lögfræðingur í Brussel. Auk frönsku talar Michel hollensku og ensku reiprennandi.

Stjórnmálaferill breyta

Michel var kjörinn á neðri deild belgíska þingsins árið 1999 fyrir Umbótahreyfinguna í Vallónska Brabant. Árið 2000 var hann innanríkisráðherra í héraðsstjórn Vallóníu. Hann var þá 25 ára og því yngsti héraðsráðherra í sögu Belgíu.[3] Hann var kjörinn borgarfulltrúi í Wavre árið 2000 og varð borgarstjóri borgarinnar árið 2006.

Í desember árið 2007 varð Michel þróunarsamstarfsráðherra í ríkisstjórn Guy Verhofstadt og síðan í stjórnum Yves Leterme og Hermans Van Rompuy.[4]

Eftir að Umbótahreyfingin hlaut lítið fylgi í héraðskosningum árið 2009 fór Michel ásamt öðrum flokksmeðlimum fram á að formaðurinn Didier Reynders segði af sér. Eftir að flokkurinn glataði meira fylgi í þingkosningum árið 2010 sagði Reynders af sér og Michel bauð sig fram til að taka við formannsembættinu. Í janúar árið 2011 var hann kjörinn formaður Umbótahreyfingarinnar og sagði af sér sem ráðherra.[5]

Forsætisráðherra Belgíu breyta

 
Michel ásamt Vladímír Pútín Rússlandsforseta þann 31. janúar 2018.

Eftir þingkosningar árið 2014 varð Umbótahreyfingin þriðji stærsti flokkurinn á belgíska þinginu og Michel tók þátt í stjórnarmyndunarviðræðum við aðra flokka. Í byrjun var búist við því að Kris Peeters, formaður Kristilega demókratíska og flæmska flokksins (CDV), yrði forsætisráðherra. Flokksmenn CDV fóru hins vegar einnig fram á að Marianne Thyssen yrði fulltrúi Belga í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en Umbótahreyfingin var ekki reiðubúin til að leyfa sama flokknum að eiga bæði þessi mikilvægu embætti.

Að lokum féllust flokkarnir á að útnefna Thyssen í framkvæmdastjórnina með því skilyrði að forsætisráðherra nýju stjórnarinnar yrði valinn úr Umbótahreyfingunni eða úr flokki Opinna flæmskra frjálsyndismanna. Michel vann sér fljótt stuðning hinna flokkanna til að leiða næstu ríkisstjórn. Þann 7. október 2014 skrifuðu flokkarnir fjórir undir nýjan stjórnarsáttmála með Michel sem forsætisráðherra og Peeters sem einn fjögurra varaforsætisráðherra. Michel varð yngsti forsætisráðherra í sögu Belgíu og annar frönskumælandi frjálslyndismaðurinn til að gegna embættinu.[6][7]

Í desember árið 2018 braust út stjórnarkreppa vegna deilna um það hvort Belgía ætti að undirrita alþjóðasamþykkt Sameinuðu þjóðanna um örugga, skipulagða og reglubundna fólksflutninga. Í upphafi studdu allir stjórnarflokkarnir samninginn, en Nýja flæmska bandalagið breytti stefnu sinni á síðustu stundu og tók afstöðu gegn honum. Í kjölfarið lýsti Michel yfir stofnun minnihlutastjórnar flokkanna sem studdu samninginn.[8][9][10] Þann 18. desember afhenti Michel Filippusi konungi uppsagnarbréf sitt. Konungurinn samþykkti afsögn Michels þann 21. desember eftir að hafa ráðfært sig við aðra flokksleiðtoga.[11] Michel sat þó áfram í embætti forsætisráðherra til bráðabirgða fram að kosningum sem haldnar voru árið 2019 og á meðan unnið var að myndun nýrrar stjórnar eftir hnífjafnar niðurstöður kosninganna.

Forseti leiðtogaráðs ESB breyta

Þann 2. júlí árið 2019 var Michel útnefndur í embætti forseta evrópska ráðsins, eins af mikilvægustu embættum Evrópusambandsins.[12] Hann tók við af Donald Tusk í embættinu þann 1. desember 2019. Michel sagði af sér sem forsætisráðherra Belgíu þann 27. október til þess að undirbúa sig fyrir embættistöku í forsetaembættið og Sophie Wilmès tók við af honum.[13]

Tilvísanir breyta

  1. https://www.politico.eu/article/michel-takes-belgium-lead-of-belgian-caretaker-government/
  2. European Council appoints new EU leaders
  3. „Charles Michel officiellement candidat à la présidence du MR“. Le Vif. 13. desember 2010.
  4. „20 March 2008 – Royal Orders. Government – Dismissals – Appointments“ (PDF) (hollenska og franska). The Belgian Official Journal. 21. mars 2008. bls. 3–4. Sótt 30. mars 2008.
  5. „Michel vs. Reynders: waarom de MR elke keer wat anders zegt“. De Morgen. 27. júní 2014.
  6. "Dit waren de jongste en de oudste eerste ministers van ons land". Het Belang van Limburg. 8. október 2014
  7. "BIOGRAFIE. Charles Michel wordt jongste premier uit Belgische geschiedenis". De Standaard. 7. október 2014
  8. „Charles Michel confirme qu'il ira à Marrakech: "Je prends acte que la N-VA quitte la majorité suédoise". Le Soir (franska). Sótt 8. desember 2018.
  9. „Michel zet minderheidsregering zonder N-VA in de steigers“. De Tijd (hollenska). 8. desember 2018. Sótt 8. desember 2018.
  10. News, Flanders (8. desember 2018). "Road to minority government being paved". vrtnws.be (enska). Sótt 8. desember 2018.
  11. „Koning zet consultaties ook morgen nog verder: geen gesprek met Vlaams Belang“. Het Laatste Nieuws (hollenska). 20. desember 2018. Sótt 23. desember 2018.
  12. Europese knoop ontward: Charles Michel wordt voorzitter van de Europese Raad
  13. Róbert Jóhannsson (27. október 2019). „Wilmes forsætisráðherra fyrst kvenna í Belgíu“. RÚV. Sótt 28. október 2019.


Fyrirrennari:
Elio Di Rupo
Forsætisráðherra Belgíu
(11. október 201427. október 2019)
Eftirmaður:
Sophie Wilmès
Fyrirrennari:
Donald Tusk
Forseti evrópska ráðsins
(1. desember 2019 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti