Robert Leroy Parker (13. apríl, 1866 – 7. nóvember, 1908), betur þekktur sem Butch Cassidy,[1] var frægur bandarískur lesta- og bankaræningi. Hann var leiðtogi glæpagengis sem nefnt var „the Wild Bunch“ á tímum Villta vestursins.

Butch Cassidy á hópmynd glæpagengis síns í Fort Worth, Texas, árið 1901.

Efir að hafa stundað bankarán í meira en áratug undir lok 19. aldar var svo mjög farið að þrengja að honum og lífstíl hans að hann ákvað að flýja til Suður-Ameríku ásamt félaga sínum Harry Alonzo Longabaugh, betur þekktum sem „Sundance Kid,“ og unnustu Longabaugh, Ettu Place. Þríeykið ferðaðist fyrst til Argentínu og síðan til Bólivíu, þar sem talið er að Parker og Longabaugh hafi verið drepnir í skotbardaga við bólivíska lögreglumenn í nóvember árið 1908. Kringumstæður dauða þeirra hafa þó aldrei verið staðfestar og er enn deilt um þær.

Ævi og örlög Parkers hafa verið sett á svið í ýmsum kvikmyndum, sjónvarpsefni og bókum og hann er enn einn þekktasti glæpamaður Villta vestursins.

Æviágrip breyta

Parker fæddist þann 13. apríl árið 1866 í Beaver í Utah. Hann var elstur þrettán barna bresku innflytjendanna Maximillian Parkers og Ann Campbell Gillies.[2][3][4] Fjölskylda Maximillians hafði tekið upp Mormónatrú þegar þau komu til Salt Lake City árið 1856.[5] Anne Gillies var fædd og uppalin í Tyneside í norðaustur-Englandi þar til fjölskylda hennar flutti til Ameríku árið 1859 er hún var fjórtán ára.[6][7][8] Þau giftust í júlí árið 1865.[9]

Robert ólst upp á búgarði foreldra sinna í grennd við Circleville í Utah. Hann flutti að heiman á táningsárum sínum og fékk starf á mjólkurbúi þar sem hann myndaði náinn vinskap við kúreka og kúaþjóf sem kallaði sig Mike Cassidy (en hét í raun John Tolliver „J. T.“ McClammy). Parker vann á næstu árum á ýmsum búgörðum og auk þess í stuttan tíma sem slátrari í Wyoming, þar sem honum áskotnaðist gælunafnið „Butch“. Hann bætti seinna við eftirnafninu Cassidy til heiðurs vinar síns af mjólkurbúinu.

Byrjun glæpaferilsins breyta

Sem táningur komst Cassidy nokkrum sinnum í kast við lögin fyrir smáglæpi en vann annars fyrir sér sem kúreki og aðstoðarmaður á búgörðum til ársins 1889. Það ár, þann 24. júní, framdi Cassidy sitt fyrsta bankarán ásamt vin sínum Matt Warner og tveimur vitorðsmönnum. Þeir rændu um 21,000 Bandaríkjadollurum úr San Miguel Valley-banka í Tellyride og flúðu síðan til afskekkts felustaðar í suðaustur-Utah.

Árið 1890 keypti Cassidy búgarð á jaðri Dubois í Wyoming. Landið sem hann keypti var nálægt alræmdri gjá sem nefndist Hole-in-the-Wall þar sem útlagar og glæpagengi földu sig oft, þar á meðal gengi Cassidy sjálfs. Því er hugsanlegt að búskapur Cassidy, sem skilaði aldrei verulegum gróða, hafi verið yfirvarp fyrir glæpastarfsemi, líklega í samstarfi við útlaga í Hole-in-the-Wall.[10]

Árið 1894 var Cassidy handtekinn við Lander í Wyoming fyrir hrossaþjófnað. Hann sat í fangelsi í 18 mánuði af tveggja ára fangelsisdómi þar til hann var náðaður og honum sleppt í janúar 1896.[11]

Villiteymið breyta

 
Fangamynd af Cassidy í fangelsi í Wyoming árið 1894

Cassidy átti í samskiptum við fjölmarga glæpamenn, sérstaklega nánasta vin sinn William Ellsworth „Elzy“ Lay, Harvery „Kid Curry“ Logan, Ben Kiloatrick, Harry Tracy, Will „News“ Carver, Lauru Bullion og George „Flat Nose“ Curry, sem nefndust saman „Villiteymið“ eða the Wild Bunch. Gengið safnaðist saman stuttu eftir lausn Cassidy úr fangelsi árið 1896 og tók nafn sitt frá Doolin-Dalton glæpagenginu sem einnig var nefnt Villiteymið.[12]

Gengið framdi sitt fyrsta bankarán í sameiningu þann 13. ágúst 1896 í Montpellier, Idaho, og slapp undan með um 7,000 Bandaríkjadollara.[13] Stuttu síðar hleypti Cassidy Harry Alonzo Longabaugh, eða Sundance Kid, frá Pennsylvaníu inn í hópinn.

Á næstu árum framdi Villiteymið undir stjórn Cassidy ýmis stórbrotin rán: Þann 22. apríl 1897 réðust Cassidy og Lay á hóp manna fyrir utan námubæinn Castle Gate og rændu gullgreiðslu á leið til námumannanna upp á um 7,000 dollara. Næsta ár rændi Villiteymið farþegalest nálægt Wilcox í Wyoming. Þetta rán gerði Villiteymið alræmt um öll Bandaríkin og leiddi til einnar áköfustu eftirfarar og lögregluleitar síns tíma.[14][15] Fjölmargir virtir löggæslumenn tóku þátt í leitinni að ræningjunum en tókst ekki að hafa upp á þeim.

Þann 11. júlí 1899 rændu Lay og vitorðsmenn hans járnbrautarlest við Folsom í Nýju Mexíkó og er hugsanlegt að Cassidy hafi lagt á ráðin um ránið og stýrt því. Í skotbardaga sem fylgdi í kjölfarið drap Lay Edward Farr sýslumann og Henry Love. Lay var ákærður fyrir morð og dæmdur til ævilangrar fangavistar.

Meðlimir Villiteymisins skiptu yfirleitt liði eftir rán, flúðu hver í sína áttina og hittust síðan á ný á fyrirfram ákveðnum fundarstað, t.d. gjáinni Hole-in-the-Wall eða vændishúsi Fannie Porter í San Antonio, Texas.

Villiteymið var smám saman brotið upp á árinum 1900–01 með handtöku eða dauða flestra meðlimanna.

Flóttinn til Suður-Ameríku breyta

Þann 20. febrúar 1901[16][17][18][19] sigldu Cassidy og Longabaugh, ásamt kærustu hins síðarnefnda, Ettu Place, frá New York til Buenos Aires. Þau settust að á búgarði sem þau höfðu keypt nærri austurbakka Rio Blanco nálægt bænum Cholila, austan við Andesfjöllin í héraðinu Chubut.

Þann fyrsta maí 1905 seldi þríeykið búgarðinn af ótta við að lögreglan hefði haft upp á þeim. Lögreglan hafði þá lengi vitað hvar þau voru stödd en ekki lagt til atlögu gegn þeim enn vegna harkalegs veðurfarsins í Patagóníu. Julio Lezana ríkisstjóri skipaði handtöku útlaganna tveggja en Cassidy og Longabaugh fengu ábendingu um hvað var í vændum og höfðu sig á brott í norðurátt til Chile áður en hægt var að klófesta þá. Félagarnir voru nú aftur farnir að ræna banka og tókst þann 19. desember sama ár að stela um 12,000 argentínskum pesóum úr bankanum Banco de la Nación við Villa Mercedes, 640 km vestan við Buenos Aires. Í júní næsta ár ákvað Etta Place að hún hefði fengið nóg af því að lifa á flótta og sneri því aftur til San Francisco. Cassidy og Longabaugh fengu atvinnnu sem öryggisverðir í tinnámu í bólivísku Andesfjöllunum.

Óvíst er hvernig Butch Cassidy lést en talið er að þeir Longabaugh hafi haldið glæpaverkum sínum áfram. Tveir bandarískir ræningjar sem talið er að hafi verið Cassidy og Longabaugh stálu um 15,000 bólivískum pesóum frá bólivískri silfurnámu þann 3. nóvember 1908. Þeir leigðu sér síðan herbergi á litlu gistihúsi í námubænum San Vicente með ránsfenginn. Þann 6. nóvember var gistihúsið umkringt af bólivískum hermönnum, lögreglustjóranum, bæjarstjóranum og fleiri embættismönnum. Ræningjarnir hófu skotbardaga gegn hermönnunum og virðast að lokum hafa skotið hvern annan til bana til að binda enda á þjáningar sínar eftir að byssukúlur hermannanna hæfðu þá. Bólivíska lögreglan bar aftur kennsl á ræningjana úr silfurnámunni en þekkti ekki nöfn þeirra. Þeir voru grafnir í ómerktum gröfum og því er ómögulegt að segja með fullri vissu hvort þetta hafi verið Cassidy og Longabaugh.

Ýmsir þrálátir og mistrúverðugir orðrómar voru lengi á kreiki um að Cassidy hefði lifað af.[20][21][22]

Tengill breyta

Tilvísanir breyta

  1. What's Up With All These Names? Geymt 31 desember 2016 í Wayback Machine Bureau of Land Management. 18. janúar, 2008. Sótt 14. júlí 2017.
  2. „Butch Cassidy“. Biography.com. Sótt 14. júlí 2017.
  3. „Butch Cassidy: Facts Summary“. History.net. Sótt 14. júlí 2017.
  4. „History of Butch Cassidy - Leroy Parker“. Utah.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. maí 2007. Sótt 14. júlí 2017.
  5. „Daniel D. McArthur Company“. Pioneer Overland Travel. LDS Church. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. apríl 2015.
  6. „Ann Campbell Gillies“. Mormon Pioneer Overland Travel. LDS Church. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. apríl 2015. Sótt 14. júlí 2017.
  7. Armstrong, Jeremy (10. desember 2008). „Outlaw's mum born & bred on Tyneside“. Daily Mirror. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. nóvember 2018. Sótt 14. júlí 2017. „Geordie lass Ann Sinclair Gillies who was born and bred on Tyneside...“
  8. Knapton, Sarah (9. desember 2008). „Outlaw Butch Cassidy had Geordie roots“. Telegraph.co.uk. Sótt 14. júlí 2017. „American outlaw Butch Cassidy may be a US hero but newly discovered records show he had Geordie heritage.“
  9. Hatch, Thom (2013). The Last Outlaws: The Lives and Legends of Butch Cassidy and the Sundance Kid. New American Library (Penguin).
  10. The Outlaw Trail. Geymt 11 október 2008 í Wayback Machine Bureau of Land Management. 18 January 2008. Accessed 14. júlí 2017.
  11. „On This Day in Wyoming History... Butch Cassidy is Pardoned, 1896“. Wyoming Postscripts. Sótt 14. júlí 2017.
  12. Betenson, Lula and Flack, Dora, Butch Cassidy, My Brother, Brigham Young University Press, Provo, Utah, 1975.
  13. Idaho State Historical Society: Public Archives and Research Library, inmate files: Henry "Bob" Meeks, #574
  14. „Alleged Train Robber Taken“ (PDF). The New York Times. 23. október 1899. Sótt 14. júlí 2017.
  15. „Butch Cassidy and Sundance Kid: The Monpelier, Castle Gate, Wilcox and Winnemucca Robberies“. Wyoming Tales and Trails. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. júní 2009. Sótt 14. júlí 2014.
  16. Richard M. Patterson, Butch Cassidy: A Biography (University of Nebraska Press, 1998) p316
  17. Beau Riffenburgh, Pinkerton's Great Detective: The Rough-and-Tumble Career of James McParland, America's Sherlock Holmes (Penguin, 2013) bls. 17
  18. Leon Claire Metz, "Longabaugh, Harry", in The Encyclopedia of Lawmen, Outlaws, and Gunfighters (Infobase Publishing, 2014) bls. 159
  19. W. C. Jameson, Butch Cassidy: Beyond the Grave (Taylor Trade Publications, 2012) bls. 88
  20. McPhee, John. Annals of the Former World. 1998. bls. 358.
  21. „Little left of Butch's life in Circleville“. Deseret News. 24. júlí 2006.
  22. Did Butch Cassidy Return? - WOLA Journal Archive Vol. VI, no. 3 by Daniel Buck & Anne Meadows (1998)