Blanda er jökulá í Austur-Húnavatnssýslu. Hún á uppruna sinn í Hofsjökli en einnig renna í hana fjölmargar bergvatnsár af húnvetnsku heiðunum. Áin er um 125 km að lengd og vatnasviðið um 2300 ferkílómetrar.

Blanda séð frá Þjóðvegi 1 á Blönduósi.

Blanda rennur ofan af Eyvindarstaða- og Auðkúluheiði um 18 kílómetra langt gljúfur, Blöndugil, ofan í Blöndudal og síðan um Langadal og til sjávar í Húnafirði sem liggur inn af Húnaflóa. Við ós hennar er bærinn Blönduós.

Blanda var virkjuð á níunda áratug 20. aldar og var Blönduvirkjun tekin í notkun 1991. Eftir það er áin orðin ein af mestu laxveiðiám landsins. Raunar var alltaf mikill lax í henni en áður en hún var virkjuð var hún mjög gruggug svo að laxinn sá sjaldnast beituna og var húkk helsta veiðiaðferðin, en það er úr sögunni eftir að jökulaurinn hvarf.