Blackburn Olympic F.C.

Blackburn Olympic F.C. er enskt knattspyrnulið sem stofnað var í borginni Blackburn í Lancashire árið 1878. Þótt það starfaði ekki nema í um áratug markaði það djúp spor í sögu enskrar knattspyrnu þegar það varð árið 1883 fyrsta verkamannaliðið til að fara með sigur af hólmi í ensku bikarkeppninni. Fram að þessu höfðu lið skipuð efnamönnum frá sunnanverðu landinu verið ráðandi í keppninni og urðu þessi þáttaskil því til þess að ýta undir atvinnumennsku í greininni.

Saga breyta

Upphaf breyta

Nútímaknattspyrna varð til á sjöunda áratug nítjándu aldar í suðurhéruðum Englands þar sem gamlir nemendur yfirstéttaskólanna í landinu stöðluðu og festu á blað reglur hinna óskipulögðu boltaleikja sem löngum höfðu verið iðkaðir við skólana. Ekki leið á löngu uns leikurinn tók að berast til iðnaðarbæjanna í norðrinu. Þegar komið var fram á árið 1877 hafði t.a.m. tylft knattspyrnuliða verið stofnuð í bænum Blackburn, þar á meðal Blackburn Rovers árið 1875, sem talið var öflugasta félagið og starfar enn í dag.

Árið 1878 var Blackburn Olympic stofnsett með samruna tveggja minni liða, Black Star og James Street. Nafnið var valið af James Edmondson, fyrsta gjaldkera félagsins og talið innblásið af nýlegum fornleifauppgreftri í Ólympíu á Grikklandi. Fyrstu misserin lét félagið nýstofnaða nægja að keppa vináttuleiki og taka þátt í héraðsmótum í Blackburn.

Blackburn Olympic tók fyrst þátt í ensku bikarkeppninni árið 1880 og féll út leik í fyrstu umferð í tvö fyrstu skiptin. Heima í Blackburn fór vegur félagsins hins vegar vaxandi og það tók að keppa vináttuleiki við félög frá öðrum iðnaðarbæjum og jafnvel alla leið frá Skotlandi. Stöndugur eigandi járnbræðsluvers í bænum, Sydney Yates, var fjárhagslegur bakhjarl félagsins og gerði því kleift að vaxa.

Sigurárið breyta

Í bikarkeppninni leiktíðina 1882-83 lagði Blackburn Olympic að velli fjögur minni félög frá Lancashire til að komast í fimmtu umferðina. Þar voru andstæðingarnir lið frá Wales. Með sigri á þeim komust Blackburn Olympic í undanúrslitin þar sem liðið mætti í fyrsta sinn andstæðingum úr suðrinu, Old Carthusians. Leikið var á hlutlausum velli í Manchester þar sem Blackburn vann öllum að óvörum 4:0.

Úrslitaleikurinn 1883 var því á milli Blackburn Olympic og Old Etonians á Kennington Oval. Old Etonians voru ríkjandi bikarmeistarar og höfðu árið áður sigrað Blackburn Rovers í úrslitum og var það í fyrsta sinn sem lið úr norðrinu komst svo langt í keppninni.

Í aðdraganda úrslitaleiksins fóru leikmenn Blackburn Olympic í nokkurra daga æfingabúðir í Blackpool, en slíkt var talið fáheyrt.

Staðan eftir 90 mínútna leik var 1:1 og höfðu Old Etonians misst einn manna sinna meiddann af velli. Í samræmi við reglur þess tíma þurftu fyrirliðarnir að koma sér saman um að grípa til framlengingar, sem og þeir gerðu. Þar reyndist liðsmunurinn drjúgur og Blackburn-liðið skoraði sigurmarkið.

Fögnuður norðanmanna var mikill en í suðrinu vöknuðu spurningar. Reglum samkvæmt var atvinnumennska bönnuð en altalað var að í iðnaðarbæjunum í norðrinu fengju verkamenn í knattspyrnuliðum greitt undir borðið, enda hefðu þeir annars augljóslega ekki ráð á að taka sér frí frá vinnu til knattspyrnukeppni og æfinga. Einkum var í þessu sambandi horft til æfingarbúðanna í Blackpool. Ekki var Blackburn Olympic refsað þrátt fyrir þessar ásakanir en nokkur önnur félög voru ekki jafn heppin. Urðu aðgerðir knattspyrnusambandsins gegn brotum á áhugamannareglunum til að ýta undir hugmyndir um að kljúfa sambandið í tvennt.

Fallandi gengi breyta

Blackburn Olympic komst í undanúrslit bikarsins árið eftir en tapaði illa fyrir skoska liðinu Queens Park. Liðið átti aldrei eftir að ná jafn langt, þar sem Blackburn Rovers náði afgerandi að treysta sig í sessi sem stóra liðið í bænum. Þegar atvinnumennska var heimiluð áttu lið á borð við Blackburn Olympic, sem ekki drógu til sín marga áhorfendur, enga möguleika á að keppa við vinsælli félögin sem greiddu mun hærri laun.

Síðasti naglinn í kistu Olympic var rekinn við stofnun ensku deildarinnar, þar sem ákveðið var að bjóða á hámarki einu liði frá minni borgum og bæjum rétt til þátttöku. Blackburn Rovers varð fyrir valinu og síðla árs 1889 lék Blackburn Olympic sinn síðasta leik.

Titlar breyta

Bikarmeistarar

  • (1) 1882-83