Bjarni Thorsteinsson

Bjarni Thorsteinsson (f. 31. mars 1781, d. 3. nóvember 1876) var amtmaður í Vesturamti á árunum 1821-1849.

Bjarni Thorsteinsson
Bjarni Thorsteinsson
Bjarni Thorsteinsson
Fæddur31. mars 1781
Sauðhúsnesi í Álftaveri
Dáinn3. nóvember 1876 (95 ára)
ÞjóðerniÍslendingur
MenntunHafnarháskóli
StörfAmtmaður í Vesturamti ( 1821-1849).
MakiÞórunn Hannesdóttir biskups Finnssonar og seinni konu Hannesar, Valgerðar Jónsdóttur.
BörnFinnur,
Árni Thorsteinsson landfógeti
og Steingrímur Thorsteinsson skáld og rektor.
ForeldrarÞorsteinn Steingrímsson bóndi og fyrri kona hans Guðríður Bjarnadótti.

Bjarni var fæddur á Sauðhúsnesi í Álftaveri, sonur Þorsteins Steingrímssonar bónda, síðast í Kerlingardal, og fyrri konu hans Guðríðar Bjarnadóttur. Hann lauk stúdentsprófi úr Hólavallarskóla árið 1800 og sigldi síðan til Kaupmannahafnar og lauk lögfræðiprófi við Hafnarháskóla árið 1807. Hann starfaði svo í ýmsum stjórnarskrifstofum í Kaupmannahöfn en árið 1821 var hann skipaður amtmaður í vesturamtinu og settist að á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Þar sat hann til 1849, þegar hann fékk lausn frá störfum og flutti til Reykjavíkur. Hann var jafnframt settur stiftamtmaður og amtmaður í Suðuramti 1823-1824 og 1825-1826.

Hann hafnaði þeirri hugmynd að Ísland skyldi fá innlent stéttaþing þegar sú hugmynd kom fyrst fram um 1831. Hann varð síðar í embættismannanefnd sem undirbjó endurreisn Alþingis og var fyrsti forseti þingsins þegar það var endurreist 1844. Hann var konungkjörinn alþingismaður 1845-1846. Bjarni stofnaði einnig Hið íslenska bókmenntafélag ásamt öðrum og var forseti Kaupmannahafnardeildar þess 1816-1819 og 1820-1821. Hann stundaði ýmis ritstörf og skrifaði meðal annars ævisögu sína, sem birtist í Tímariti Bókmenntafélagsins 1903.

Kona Bjarna (g. 22. júlí 1821) var Þórunn Hannesdóttir, dóttir Hannesar Finnssonar biskups og seinni konu hans, Valgerðar Jónsdóttur. Synir þeirra voru Finnur, Árni Thorsteinsson landfógeti og Steingrímur Thorsteinsson skáld og rektor.

Tenglar breyta