Bótólfur (biskup)

Bótólfur var biskup á Hólum frá 1238 til dauðadags, 1247.

Ekkert er vitað um ætt Bótólfs, föðurnafn hans, né hvenær hann var fæddur.

Eftir Örlygsstaðabardaga 1238 ákvað Hákon gamli Noregskonungur að reyna að efla áhrif sín á Íslandi. Vildi þá svo til að Íslendingar höfðu kosið sem biskupsefni menn sem strangt til tekið voru ekki embættisgengir skv. kirkjulögum. Beitti konungur sér fyrir því að erkibiskup skipaði sem biskupa norræna eða norska menn, án þess að leitað væri atkvæða Íslendinga um það, eins og lög gerðu ráð fyrir. Bótólfur var þá skipaður biskup á Hólum, og átti hann að styðja fyrirætlanir konungs.

Bótólfur var áður kanoki eða kanúki í Ágústínusarklaustrinu á Helgisetri í Niðarósi. Hann var vígður biskup 1238 og kom til landsins árið eftir, 1239. Ekki þótti Íslendingum mikið til hans koma. Var hann sagður "góður maður og einfaldur og eigi mikill klerkur". Sögðu Norðlendingar að ekki mætti "sjá á höfði hans né hendi að hann væri biskup". Hafði Bótólfur litla stjórn á undirmönnum sínum og kristnihaldi í Hólabiskupsdæmi. Fékk hann brátt nóg af dvölinni hér, og eftir fjögurra ára veru á Íslandi hvarf hann til Noregs (1243) og andaðist í Noregi árið 1247.

Heimildir breyta

  • Jón Helgason biskup: Kristnisaga Íslands I, 131-133.
  • Sigurður Líndal (ritstj.): Saga Íslands II, bls. 139.



Fyrirrennari:
Guðmundur góði Arason
Hólabiskup
(12381247)
Eftirmaður:
Heinrekur Kársson