Andrea Rita Dworkin (26. september 1946 - 9. apríl 2005) var róttækur bandarískur femínisti og rithöfundur. Hún barðist fyrir réttindum samkynhneigðra kvenna en var einna þekktust fyrir greiningu sína á klámi og baráttu gegn klámiðnaðinum. Á 40 ára ferli sínum skrifaði hún alls 14 bækur, flestar um femínisma, þar á meðal þrjú rit um klám sem hún samdi ásamt Catharine MacKinnon. Þekktasta rit hennar er Pornography: Men Possessing Women sem kom út 1981.[1]

Andrea Rita Dworkin
Fædd26 september, 1946
Dáin9 apríl, 2005
ÞjóðerniBandarísk
StörfHöfundur
Þekkt fyrirKvennréttindabaráttu

Ævi, menntun og ritstörf breyta

Dowrkin fæddist í Camden, New Jersey. Foreldrar hennar voru gyðingar, afkomendur flóttafólks frá Austur Evrópu. Faðir hennar, Harry Dworkin, sem var kennari og sósíalisti, átti ættir að rekja til Rússland, en móðir hennar, Sylvia Spiegel var afkomandi ungverskra gyðinga. Pólítískar skoðanir foreldra hennar höfðu mikil áhrif á Dawrkin sem sagði að sósíalískar hugmyndir föður síns hefðu vakið ástríðu sína fyrir félagslegu réttlæti, meðan femínískar hugmyndir móður hennar, hefðu hvatt hana til baráttu fyrir kvenréttindum.[2]

Dworkin útskrifaðist með BA gráðu í bókmenntum frá Bennington College í Vermont árið 1968. Eftir útskrift fluttist hún til Hollands þar sem hún giftist Cornelius Dirk de Bruin sem beitti hana andlegu og líkamlegu ofbeldi. Hjónaband þeirra varði stutt, en þau skildu árið 1971. Dworkin flutti þá aftur til Bandaríkjanna og bjó í New York til dánardags. Árið 1998 giftist hún bandaríska skáldinu John Stoltenberg sem hún kynntist árið 1974. Hún eignaðist engin börn, og lést árið 2005.

Dworkin skrifaði fjöldi bóka, svo sem Woman Hating: A Radical Look on Sexuality (1974) og Our Blood: Prophecies and Discourses on Sexual Politics (1976), þar sem hún greindi klám og klámiðnaðinn. Dworkin hélt því fram að klám væri eitt af helstu vopnunum sem feðraveldisins til að stjórna og kúga konur. Í samvinnu við femíníska lögfræðinginn Catharine A. MacKinnon skrifaði Dworkin Pornography and Civil Rights: A New Day for Women’s Equality (1988). Dworkin skrifaði fjölda greina sem birtust í tímaritum, þar á meðal Gay Community News. Auk samfélagsrýni og fræðirita samdi Dworkin einnig smásögur og sendi frá sér tvær skáldsögur og sjálfsævisöguna Heartbreak: The Political Memoir of a Feminist Militant, sem kom út árið 2002.[2]

Friðarbarátta og barátta gegn kynferðislegu ofbeldi breyta

Dworkin hóf snemma þátttöku í kvenréttindabaráttu. Meðan hún var í námi við Bennington College tók hún þátt í mótmælum gegn Víetnamstríðinu við höfuðstöðvar Sameinuðu Þjóðanna í New York. Dworkin var handtekin í mótmælunum og vistuð í kvennafangelsi New York. Að eigin sögn opnaði vistin þar opnaði augun hennar fyrir kúgun feðraveldisins á konum. Læknisskoðun sem hún var látin undirgangast þegar hún kom í fangelsið var meðal annars svo harkaleg að henni blæddi í marga daga. Þrátt fyrir vitnisburð Dworkin ákváðu stjórnvöld ekki að aðhafast neitt, en fjölmiðlaumfjöllun bæði innanlands og utan varð til þess að vekja almenna reiði yfir aðbúnaði í fangelsinu og meðferð á föngum og var fangelsinu lokað sjö árum síðar.[3]

Á áttunda og níunda áratugnum bjó Dworkin í New York þar sem hún skipulagði baráttu gegn stríðsrekstri Bandaríkjanna og aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku auk þess að taka þátt í mótmælum fyrir réttindi samkynhneigðra kvenna. Hún tók sér stöðu með öðrum róttækum femínistum í baráttu gegn klámi, heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi gegn konum.[4] Dworkin vakti athygli fyrir ástríðufullan og málflutning sinn og ræðusnilld.[5]

Ólíkt öðrum áhrifamiklum bandarískum femínistum, á borð við Betty Friedan og Gloriu Steinum, tók Dworkin afdráttarlausa afstöðu gegn Bill Clinton í umræðum um kynferðislega áreitni forsetans gagnvart Monicu Lewinsky.[6] Hún tók einnig eindregna afstöðu með Paulu Jones og Juanitu Broaddrick sem höfðu sömu leiðis sakað forsetann um kynferðislega áreitni.[7]

Barátta gegn klámi breyta

Haustið 1976 stofnaði Dworkin ásamt öðrum róttækum femínistum, þar á meðal Adrienne Rich, Karla Jay, Letty Cottin Pogrebin, og Gloriu Steinem aðgerðarsamtök til að berjast gegn klámi. Árið 1979 stofnuðu þær samtökin Konu gegn klámi (e. Women Against Pornography). Dworkin var hins vegar farin að fjarlægjast hópinn vegna ágreinings um baráttuaðferðir. Árið 1981 skrifaði Dworkin bókina Pornography: Men Possessing Women, þar sem hún greinir klám og sögu kláms, og sýnir fram á að klámiðnaðurinn og klám byggist á kvenhatri og kúgun. Bæði framleiðsla kláms og neysla þess fælu í sér kynbundið ofbeldi.[8]

Leikkonan Linda Boreman, sem lék "Linda Lovelace" í klámmyndinni Deep Throat (1972), lýsti því yfir árið 1980 á blaðamannafundi sem var skipulagður af Dworkin og Women Against Pornography að fyrrverandi eiginmaður hennar, klámmyndaframleiðandinn Chuck Traynor, hefði beitt sig líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi, og þvingað sig til að leika í klámmyndum, þar á meðal Deep Throat. Dworkin og Catharine MacKinnon, femínískur lögfræðingur, stóðu við hlið Boreman á blaðamannafundinum. Í kjölfarið leituðu þær leiða til að krefja Traynor og framleiðendur Deep Throat um skaðabætur, og hvernig hægt væri að beita mannréttindalöggjöf Bandaríkjanna til að koma böndum á klámneyslu og framleiðslu.

Borgarstjórn Minneapolis fól Dworkin og MacKinnon til að semja drög að breytingum á lögum um ofbeldi sem tengdust klámi og klámneyslu. Drögin sem þær sömdu voru umdeild. Þau skilgreindu klám sem mannréttindabrot gegn konum og gerðu fórnarlömbum kynferðisofbeldis kleift að höfða mál gegn framleiðendum og dreifingaraðilum kláms í þeim tilvikum þar sem hægt væri að sanna að tiltekið klám væri bein orsök ofbeldis. Nokkrar borgarstjórnir samþykktu lögin á níunda áratug síðustu aldar en þau voru síðar felld úr gildi af dómstólum á þeirri forsendu að þau stönguðust á við málfrelsisákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna.[9]

Þann 22. janúar 1986 bar Dworkin vitnnisburð fyrir nefnd sem Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna um klám. Í vitnisburði sínum og svörum við spurningum fordæmdi Dworkin refsiaðgerðir gegn klámriturum og sagði: "Við erum á móti lögum um banna klámi. Við viljum þau ekki.“ Hún hélt því fram að lög sem bönnuðu klám væru að mestu gagnslaus. Í flestum tilfellum myndu þau aðeins fela klám fyrir almenningi en leyfa því að blómstra í leynd. Það væri líka hætta á að þau bönnuðu rangt efni eða rétt efni en af röngum ástæðum. Dworkins bætti einnig við að "bann við klámi er í sjálfu sér líka niðurlægjandi fyrir konur. Það gefur í skyn að líkamar kvenna séu skammarlegir og ættu þar að leiðandi ekki að sjást."[10]

Aðrir valkostir sem Dworkins mælti frekar með voru að (1) „dómsmálaráðuneytið gæfi löggæslustofnunum fyrirmæli um að skrásetja notkun kláms í ofbeldismálum“, (2) bann við vörslu og dreifingu kláms í fangelsum, (3) að saksóknarar „framfylgi lögum gegn melludólgum“, (4) að ríkisstjórnin „geri það að forgangmáli dómsmálaráðuneytisins að framfylgja RICO (lög um spillt samtök) gegn klámiðnaðinum “, og (5) að þingið samþykki alríkisréttarlöggjöf gegn klámi sem kveði á um skaðabætur vegna tjóns sem konum verða fyrir. Hún ráðlagði að nefndin íhugaði að gera það glæpsamlegt samkvæmt hegningarlögum að ýta undir dreifingu kláms því það jafngilti að svifta konur borgaralegum réttindum.[10]

Arfleið breyta

Á síðustu árum sínum var Dworkin heilsutæp og þjáðist af yfirþyngd og alvarlegri slitgigt í hnjám. Þegar blaðamaður The Guardian spurði hana hvernig hún vildi að hennar yrði minnst, sagði hún: "Á safni, þegar yfirráðum karla er lokið. Ég vona að verk mín verði mannfræðilegur gripur úr útdauðu, frumstæðu samfélagi." Hún andaðist í svefni að morgni 9. apríl 2005, á heimili sínu í Washington, DC. Dánarorsökin var hjartavöðvabólga. Hún var 58 ára þegar hú dó.[1]

Meginmarkmið verka Dworkins var að endurskoða vestrænt samfélag, menningu og stjórnmál. Hún gerði það með því að skoða kynferðisofbeldi karla gagnvart konum í samhengi við feðraveldið. Hún opnaði hliðið fyrir nýjum rótækum sjónarhornum með því að endurskoða viðfangsefni sem höfðu lengi verið skrifuð eða lýst frá sjónarhóli karla, þar með talin saga, kynhneigð, meydómur, andsemítismi, Ísraelsríki, helförin, líffræðilegir yfirburðir og kynþáttafordómar. Hún skoðaði forsendur hugtaka eins og prentfrelsi og borgaralegt frelsi. Hún kenndi fólki að horfa á stjórnmál frá kynferðislegu sjónarhorni. Hún sagði að stjórnmálahugmyndafræði væri byggð á eitraðir karlmennsku yfirráðamanna og birtist í nauðgun, vændi og klámi.[11]

Dworkin er enn umdeild persóna í bandarískri menningarumræðu en hugmyndir hennar hjálpuðu við að móta nútíma femíníska heimspeki og sýn á klámi og skaðlegu áhrifin sem það getur haft.[1]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 Fox, Margalit (12. apríl 2005). „Andrea Dworkin, Writer and Crusading Feminist, Dies at 58 (Published 2005)“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Sótt 4. desember 2020.
  2. 2,0 2,1 „Andrea Dworkin“. Jewish Women's Archive (enska). Sótt 4. desember 2020.
  3. Andrea Dworkin. Heartbreak. bls. 80.
  4. Andrea Dworkin. Heartbreak. bls. 123.
  5. „Why Andrea Dworkin is the radical, visionary feminist we need in our terrible times“. the Guardian (enska). 16. apríl 2019. Sótt 4. desember 2020.
  6. „How Bill Clinton neutered the feminist movement“. The Independent (enska). 23. október 2011. Sótt 31. desember 2020.
  7. Candice E. Jackson (2005). Their Lives: The Women Targeted by the Clinton Machine. World Ahead Publishing. bls. 240.
  8. Susan Brownmiller (1975). Against Our Will: Men, Women and Rape. bls. 303, 316.
  9. Downs, Donald Alexander (30. nóvember 1989). The New Politics of Pornography (enska). University of Chicago Press. ISBN 978-0-226-16162-4.
  10. 10,0 10,1 „Pornography Is a Civil Rights Issue“. www.nostatusquo.com. Sótt 4. desember 2020.
  11. „ifeminists.com > editorial > A Post-Mortem Analysis of Andrea Dworkin“. www.ifeminists.net. Sótt 4. desember 2020.