Amharar

Þjóðarbrot í Eþíópíu

Amharar (amharíska: አማራ, amara, ge'ez: አምሐራ) eru þjóðarbrot í Eþíópíu sem búa aðallega í Amhara-héraði landsins og tala amharísku. Amharar eru um 20 milljónir talsins og eru um 20 % Eþíópíumanna. Þeir voru taldir næststærsti þjóðflokkurinn innan landsins í manntali árið 2007 á eftir Orómóum.[1]

Lebna Dengel, nəgusä nägäst (Eþíópíukeisari), meðlimur Salómonsættar.

Söguágrip breyta

 
Menelik 2., konungur Shoa.

Amharaþjóðin hefur sögulega byggt norðurhluta, miðhluta og vesturhluta Eþíópíu. Flestir Amharar eru bændur og raunar eru Amharar taldir meðal fyrstu landbúnaðarþjóða ríkisins. Talið er að þeir hafi hafið landbúnaðarsögu sína með rækt á korni í heimahéruðum sínum, meðal annars á hvingresi og nígerurtarfræum.[2]

Sumar heimildir gefa í skyn að Amharar hafi flust til Eþíópíu frá Jemen (þar sem þá voru konungsríkin Saba og Himjar) og frá Konungsríkinu Aksúm og sest að í héraðinu Sayint, sem síðar fékk nafnið Wollo (eftir ættbálki Orómóa sem flutti þangað á 16. og 17. öld). Þessi héruð hafa sögulega verið talin hluti af heimalandi Amhara.[3]

Amharar (áður yfirleitt kallaðir „Abissiníumenn“ í vestrænum heimildum) eru í dag næststærsti þjóðflokkur í Eþíópíu á eftir Orómóum.[2][3]

Héraðið Amhar var sögulega staðsett í nútímahéraðinu Wollo (Bete Amhara). Á tíma lénskerfisins samanstóð svæðið sem í dag kallast Amhara úr nokkrum héröðum sem nutu sjálfstæðis í flestum málum, þar á meðal Gondar, Gojjam, Wollo, Lasta, Shoa, Semien, Angot og Fetegar.[4]

Fyrir rúmum 2.000 árum voru hefðbundnar heimaslóðir Amhara á hásléttunum í miðhluta Eþíópíu. Fyrstu konungsríki þeirra voru fremur einangruð frá umheiminum vegna fjöllótts landslagsins og brattra gljúfra. Rekja má trúarleg umsvif kristna Konungsríkisins Aksúm í Amhara-héraðinu aftur til 8. aldar, en þá var Istifanos-klaustrið byggt á bökkum Haikvatnsins.[5]

Önnur mannvirki og minnisvarðar benda til þess að Aksúmítar hafi sest að víðar í Amharahéraðinu, meðal annars steinstytta af ljóni sem finna má um tíu kílómetra sunnan við borgina Kombolcha, og talið er að hafi verið gerð á 3. öld eða jafnvel fyrir tíma Aksúmríkisins.[6] Árið 1998 fundust brot af leirvösum í kringum grafhýsi í Atatiya í suðurhluta Wollo, í Habru suðaustan við Haik og norðaustan við Ancharo (Chiqa Beret). Myndskreytingarnar á þeim sýna ótvírætt fram á að menning Aksúmíta náði til suðurhluta Amharahéraðsins og út fyrir Angot.[7] Eldri mannvirki voru lögð í rúst á valdatíð drottningarinnar Gudit á 10. öld og á 16. öld í innrásum múslima undir stjórn imamsins Ahmads ibn Ibrahim al-Ghazi, þar sem innrásarmenn létu greipar sópa um Amhara og Angot.

Fyrstu rituðu heimildirnar um Amharaþjóðina eru frá byrjun 12. aldar, frá valdatíð Zagwe-ættarinnar. Þá var ritað um að Amharar ættu í átökum við Werji-þjóðina árið 1129.[8] Werji-þjóðin bjó á sléttum í austurhluta Shoa og því hefur þegar verið litið á Amhara sem sérstakan þjóðflokk í byrjun 12. aldar.

Þegar Zagwe-ættarveldið leið undir lok tók Salómonsætt við stjórn eþíópíska keisaradæmisins með valdatöku Amharans Yekuno Amlak árið 1270. Valdamiðstöð hans var í Amharahéraði og Shoa. Amharar ríktu þaðan af yfir Eþíópíu allt til loka valdatíðar Haile Selassie árið 1974 (að undanskyldri keisaratíð Tígrans Jóhannesar 4.) og urðu helsta valdastétt landsins. Á þessum tíma þöndu amharískir stjórnendur verulega út landamæri ríkisins, juku við alþjóðlegan hróður Eþíópíu og létu reisa fjölda konunglegra minnisvarða og höfuðborga, meðal annars Tegulet, Debre Berhan, Barara (sem staðsett er í Entoto, þar sem höfuðborgin Addis Ababa er nú)[9], Gonder og Magdela. Þær þrjár fyrrnefndu voru staðsettar í Shoa.

Í byrjun 15. aldar reyndu keisarar Eþíópíu að koma á stjórnmálasambandi við konungsríki Evrópu í fyrsta sinn frá tíma Aksúmríkisins. Bréf frá Hinriki 4. Englandskonungi til Eþíópíukeisara hafa varðveist.[10] Árið 1428 sendi keisarinn Ísak 1. tvo sendiboða til Alfonsar 5. Aragóníukonungs. Alfons sendi sendiboða til Eþíópíu en þeir komu aldrei á áfangastað.[11]

Fyrsta varanlega samband Eþíópíu við Evrópuríki hófst árið 1508 við Portúgal á valdatíð Davíðs 2. Eþíópíukeisara, sem hafði þá nýlega tekið við krúnunni af föður sínum.[12] Ríkið átti þá í stríði gegn innrásarmönnum Soldánsdæmisins Adal undir stjórn imamsins Ahmads ibn Ibrahim al-Ghazi. Portúgalir sendu vopn og 400 hermenn til að hjálpa Eþíópíumönnum í stríðinu, sem gerði syni Davíðs, Gelawdewos, kleift að sigra innrásarmennina.[13] Þetta stríð Eþíópíu og Adal er eitt fyrsta dæmið um leppstríð í heimshlutanum þar sem Portúgal og Tyrkjaveldi studdu stríðsaðila hvort gegn öðrum.

Samfélag breyta

Í hefðbundinni samfélagsskipan Amhara og annarra afrísk-asískra þjóða úr heimshlutanum eru til fjórar grunnstéttir. Samkvæmt bandarískra Eþíópíufræðingnum Donald N. Levine eru þessar stéttir aðalsstéttin, undirstéttin, iðnstéttin og þrælar.[14][15]

Þrælar sátu neðst í samfélagsstiganum og komu aðallega úr heiðnum þjóðarbrotum Nílota. Á amharísku gengu þeir einnig undir nafninu barja (sem merkir „þræll“). Þeir voru gjarnan hnepptir í þrældóm eftir ránsferðir í jaðarhéruð í suðurhluta Eþíópíu. Stríðsfangar voru einnig gjarnan hnepptir í þrældóm en þó var staða þeirra og verkin sem þeir voru látnir vinna ekki um allt sambærileg við innlendu þrælastéttina.[16]

Þrælahald í Eþíópíu var formlega bannað með lögum á fjórða áratugi 20. aldar en gamlir þrælar og afkomendur þeirra héldu í reynd áfram að vinna svipuð störf og áttu áfram sambærilega stöðu í amharískri samfélagsskipan.[17]

Stéttskipting Amhara byggist á eftirfarandi meginreglum:[14][18]

  1. innbyrðis hjónaböndum;
  2. stöðu innan stigveldisins;
  3. takmörkunum á leyfilegum borðfélögum við máltíðir;
  4. hugmyndum um „óhreinkun“;
  5. hugmyndum um hefðbundin störf sérhverrar stéttar;
  6. arfgengum stéttaraðildum.

Flestir fræðimenn eru á sama máli um að veruleg samfélagshöft séu á milli Amhara og annarra eþíópískra þjóðflokka í atvinnu- og giftingarmálum. Sumir fræðimenn líta þó á þetta sem efnahagslega stéttskiptingu[19][20] en aðrir, þar á meðal sagnfræðingurinn David Todd, telja þetta greinilegt dæmi um menningarlegt stéttakerfi.[21][22][23]

Trúarbrögð breyta

Flestir Amharar eru kristnir og eþíópíska rétttrúnaðarkirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í menningu þeirra.

Samkvæmt manntali ársins 2007[24] eru 82,5% íbúa Amharahéraðsins meðlimir í eþíópísku rétttrúnaðarkirkjunni; 17,2% eru múslimar (aðallega í Wollo-héraðinu), 0,2% voru mótmælendur og 0,5 gyðingar.

Eþíópíska rétttrúnaðarkirkjan viðheldur nánu sambandi við koptísku rétttrúnaðarkirkjuna í Alexandríu. Páskar og þrettándinn eru mikilvægustu hátíðirnar og einkennast af hátíðarhöldum, helgiathöfnum og danssýningum. Jafnramt er fastað á mörgum helgidögum ársins þar sem aðeins má neyta grænmetis og fisks.

Hjónabönd eru gjarnan skipulögð af fjölskyldunni og karlar kvænast gjarnan undir lok táningsára sinna eða stuttu eftir að hafa náð þrítugsaldri.[25] Samkvæmt venju hafa stúlkur gjarnan gifst í kringum fjórtán ára aldur, en á 20. öld lét keisarastjórnin hækka lágmarksgiftingaraldur upp í átján ár. Þegar kirkjan hefur vígt hjón í hjónaband er skilnaður illa séður.[25] Fjölskylda hvors brúðhjónanna fyrir sig heldur yfirleitt sína brúðkaupsveislu eftir að giftingin hefur farið fram.

Þegar barn fæðist heimsækir prestur fjölskylduna til að blessa það. Móðirin og barnið dvelja heima í 40 daga eftir fæðinguna. Farið er með drengi í kirkju til skírnar eftir 40 daga, en með stúlkur eftir 80 daga.[26]

Tilvísanir breyta

  1. Summary and Statistical Report of the 2018 Population and Housing Census Results, bls. 16 [1] Geymt 4 júní 2012 í Wayback Machine
  2. 2,0 2,1 Amhara people, Encyclopædia Britannica (2015)
  3. 3,0 3,1 „Encyclopedia of Africa“. Oxford University Press. 2010. Sótt 4. október 2020.
  4. „A history of Ethiopia : Nubia and Abyssinia. Volume I“. Sótt 4. október 2020.
  5. Taddesse Tamrat, Church and State in Ethiopia (Oxford: Clarendon Press, 1972), p. 36.
  6. Briggs, P. and Wildman, K. (2014). Ethiopia. Chalfont St Peter: Bradt Travel Guides, bls.357.
  7. Aklilu Asfaw, Report to the Department of Archaeology and Anthropology, 1997.
  8. Taddesse Tamrat, Church and State in Ethiopia (Oxford: Clarendon Press, 1972), bls. 81
  9. Pankhurst, R. and Breternitz, H. (2009). Barbara, the Royal City of 15th and Early 16th Century (Ethiopia). Medieval and Other Early Settlements Between Wechecha Range and Mt Yerer: Results from a Recent Survey. Annales d'Ethiopie, 24(1), bls.210.
  10. Ian Mortimer, The Fears of Henry IV (2007), bls. 111 ISBN 1-84413-529-2.
  11. Beshah, bls. 13–4.
  12. Beshah, bls. 25.
  13. Beshah, bls. 45–52.
  14. 14,0 14,1 Donald N. Levine (2014). Greater Ethiopia: The Evolution of a Multiethnic Society. University of Chicago Press. bls. 56–57. ISBN 978-0-226-22967-6.
  15. Allan Hoben (1970). „Social Stratification in Traditional Amhara Society“. Í Arthur Tuden; Leonard Plotnicov (ritstjórar). Social stratification in Africa. New York: The Free Press. bls. 210–211, 187–221. ISBN 978-0029327807.
  16. Ethiopia: the era of the princes: the challenge of Islam and re-unification of the Christian Empire, 1769–1855. Praeger. 1968. bls. 57–60.
  17. Greater Ethiopia: The Evolution of a Multiethnic Society. University of Chicago Press. 2014. bls. 56, 175. ISBN 978-0-226-22967-6.
  18. Eike Haberland (1979), "Special Castes in Ethiopia", in Proceedings of the Fifth International Conference on Ethiopian Studies, Editor: Robert Hess, University of Illinois Press, bls. 129–132 (sjá einnig bls. 134–135, 145–147);
    Amnon Orent (1979), "From the Hoe to the Plow", in Proceedings of the Fifth International Conference on Ethiopian Studies, Editor: Robert Hess, University of Illinois Press, bls. 188, Quote: "the Mano, who are potters and leather craftsmen and considered 'unclean' in the usual northern or Amhara understanding of caste distinction; and the Manjo, the traditional hunters and eaters of 'unclean' foods – hippopotamus, monkey and crocodile."
  19. Teshale Tibebu (1995). The Making of Modern Ethiopia: 1896–1974. The Red Sea Press. bls. 67–70. ISBN 978-1-56902-001-2., Quote: "Interestingly enough, while slaves and ex-slaves could 'integrate' into the larger society with relative ease, this was virtually impossible for the occupational minorities ('castes') up until very recently, in a good many cases to this day."
  20. Christopher R. Hallpike (2012, Original: 1968), "The status of craftsmen among the Konso of south-west Ethiopia", Africa, Volume 38, Number 3, Cambridge University Press, pp. 258, 259–267, Quote: "Weavers tend to be the least and tanners the most frequently despised. In many cases such groups are said to have a different, more negroid appearance than their superiors. There are some instances where these groups have a religious basis, as with the Moslems and Falashas in Amhara areas. We frequently find that the despised classes are forbidden to own land, or have anything to do with agricultural activities, or with cattle. Commensality and marriage with their superiors seem also to be generally forbidden them."
  21. David M. Todd (1977). „Caste in Africa?“. Africa. Cambridge University Press. 47 (4): 398–412. doi:10.2307/1158345. JSTOR 1158345.
    Dave Todd (1978), "The origins of outcastes in Ethiopia: reflections on an evolutionary theory", Abbay, Volume 9, bls. 145–158
  22. Donald N. Levine (2014). Greater Ethiopia: The Evolution of a Multiethnic Society. University of Chicago Press. bls. 56. ISBN 978-0-226-22967-6., Tilvitnun: "As Herbert Lewis has observed, if the term caste can be used for any social formation outside of the Indian context, it can be applied as appropriately to those Ethiopian groups otherwise known as 'submerged classes', 'pariah groups' and 'outcastes' as to any Indian case.";
    Herbert S. Lewis (2006). „Historical problems in Ethiopia and the Horn of Africa“. Annals of the New York Academy of Sciences. Wiley-Blackwell. 96 (2): 504–511. doi:10.1111/j.1749-6632.1962.tb50145.x., Tilv. (bls. 509): "In virtually every Cushitic group there are endogamous castes based on occupational specialization (such caste groups are also found, to some extent, among the Ethiopian Semites)."
  23. Niall Finneran (2013). The Archaeology of Ethiopia. Routledge. bls. 14–15. ISBN 978-1-136-75552-1., Tilv.: "Ethiopia has, until fairly recently, been a rigid feudal society with finely grained perceptions of class and caste".
  24. „Ethiopian Parlament“ (bandarísk enska). Sótt 4. október 2020.
  25. 25,0 25,1 „African Marriage ritual“. Sótt 4. október 2020.
  26. The World and Its Peoples: Africa, North and East, Part 2, Volume 23. Greystone Press. 1967. bls. 300.