Alexander Dubček

Ritari Kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu (1921-1992)

Alexander Dubček (27. nóvember 1921 – 7. nóvember 1992) var slóvakískur stjórnmálamaður sem var leiðtogi Kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu frá janúar 1968 þar til í apríl 1969. Dubček reyndi að koma á umbótum í kommúnistastjórn Tékkóslóvakíu á stuttu tímabili sem kallað er vorið í Prag en neyddist til að segja af sér þegar þjóðir Varsjárbandalagsins gerðu innrás í Tékkóslóvakíu árið 1968. Stefna Dubčeks hafði verið að koma á „sósíalisma með mannlegri ásjónu“ en umbætur hans í þá átt fóru mjög fyrir brjóstið á stalínistum í Tékkóslóvakíu og í Sovétríkjunum.

Alexander Dubček
Alexander Dubček árið 1990.
Fyrsti ritari Kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu
Í embætti
5. janúar 1968 – 17. apríl 1969
ForveriAntonín Novotný
EftirmaðurGustáv Husák
Persónulegar upplýsingar
Fæddur27. nóvember 1921
Uhrovec, Tékkóslóvakíu (nú Slóvakíu)
Látinn7. nóvember 1992 (70 ára) Prag, Tékkóslóvakíu (nú Tékklandi)
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Tékkóslóvakíu (1948–1970)
Jafnaðarmannaflokkur Slóvakíu (1992)
VerðlaunSakharov-verðlaunin (1989)
Undirskrift

Æviágrip breyta

Alexander Dubček fæddist árið 1921 í þorpinu Uhrovec í Tékkóslóvakíu. Faðir hans var smiður og meðlimur í Kommúnistaflokki landsins. Dubček-fjölskyldan fluttist til Sovétríkjanna árið 1925 og Alexander útskrifaðist með stúdentspróf úr sovéskum skóla árið 1938. Sama ár sneri fjölskyldan aftur til Tékkóslóvakíu til að flýja hreinsanir Stalíns.[1]

Stuttu eftir að Dubček-fjölskyldan sneri heim til Tékkóslóvakíu innlimuðu nasistar hluta af landinu og stofnuðu fasískt leppríki í Slóvakíu undir stjórn prestsins Jozefs Tiso. Alexander neyddist til að hætta námi sínu og gerast vélvirki í Trenčín. Í seinni heimsstyrjöldinni tók Alexander ásamt föður sínum og bróður þátt í andspyrnu gegn stjórn Tisos. Bróðir hans, Júlíus, var drepinn vegna þáttöku sinnar í andspyrnuhreyfingunni og Alexander særðist í ágúst árið 1944.[1]

Kommúnistar tóku völdin í Tékkóslóvakíu eftir styrjöldina árið 1948. Næsta ár varð Dubček ritari í héraðsráði kommúnista í Trencia og árið 1951 var hann kjörinn á tékkóslóvakíska þingið. Samhliða stjórnmálaferli sínum stundaði hann nám í Háskólanum í Bratislava og Ríkisháskólanum í Moskvu og útskrifaðist þaðan með doktorsgráðu í lögfræði árið 1958. Árið 1960 varð hann ritari miðstjórnar slóvakíska kommúnistaflokksins og í janúar árið 1968 tók hann við af Antonín Novotný sem leiðtogi Kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu.[1]

Sem flokksleiðtogi boðaði Dubček róttækar breytingar á kommúnísku stjórnarkerfi landsins. Hagkerfinu var breytt til að taka meira tillit til einkaframtaks og dregið var úr miðstýringu efnahagsins.[2] Prentfrelsi, trúfrelsi og ferðafrelsi var komið á og bann var lagt gegn því að fólk væri handtekið án fyrirvara og gildrar handtökuskipunar. Auk þess var dómskerfið aðskilið öðrum öngum ríkisvaldsins. Dubček varð mjög vinsæll vegna umbótanna, sem hann sagði að ættu að leggja grunninn að „sósíalisma með mannlegri ásjónu“.[3]

Umbótaherferð Dubčeks, sem kennd er við vorið í Prag, geðjaðist hins vegar ekki ráðamönnum í Sovétríkjunum. Þann 20.–21. ágúst gerðu ríki Varsjárbandalagsins innrás í Tékkóslóvakíu til að koma Dubček frá völdum og binda enda á umbætur hans. Dubček var fluttur fanginn til Moskvu, sviptur völdum og rekinn úr Kommúnistaflokknum árið 1970. Eftir að Dubček var sleppt settist hann að í Bratislava og starfaði þar við skógarvörslu þar til hann komst á eftirlaun. Hann var undir ströngu eftirliti þar til Míkhaíl Gorbatsjov komst til valda í Sovétríkjunum, en eftir heimsókn Gorbatsjovs til Tékkóslóvakíu árið 1987 var varðgæslu yfir Dubček aflétt.[4]

Dubček studdi flauelsbyltingina sem braust út gegn kommúnistastjórn Tékkóslóvakíu árið 1989. Hann birtist ásamt Václav Havel til að fagna falli kommúnistastjórnarinnar og naut um hríð stuðnings margra Tékkóslóvaka til að gerast nýr forseti landsins.[5] Eftir fall kommúnistastjórnarinnar var Havel að endingu kjörinn forseti Tékkóslóvakíu en Dubček var kjörinn forseti þingsins og gegndi hann því embætti til ársins 1992. Dubček lést eftir meiðsli í bílslysi í nóvember sama ár.[6]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 Walter Pöppel (20. september 1968). „Alexander Dubcek“. Alþýðublaðið. bls. 2; 10.
  2. „„Sá sem sáir vindi uppsker storm". Tíminn. 20. ágúst 1978. bls. 10-11; 29.
  3. Magnús Sigurðsson (27. október 1968). „Aðdragandinn“. Morgunblaðið. bls. 8-10; 13.
  4. „Alexander Dubcek: Leiðtogi á ný?“. Þjóðviljinn. 25. nóvember 1989. bls. 2.
  5. „Falli kommúnisma ákaft fagnað á götum Prag“. Morgunblaðið. 25. nóvember 1989. bls. 1.
  6. „Lítið fjallað um andlát Dubceks í Tékkóslóvakíu“. Morgunblaðið. bls. 30.


Fyrirrennari:
Antonín Novotný
Fyrsti ritari Kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu
(5. janúar 196817. apríl 1969)
Eftirmaður:
Gustáv Husák