İsmet İnönü

2. forseti Tyrklands

İsmet İnönü (24. september 1884 – 25. desember 1973) var tyrkneskur herforingi og stjórnmálamaður sem var annar forseti lýðveldisins Tyrklands og þrisvar sinnum forsætisráðherra landsins.

İsmet İnönü
Forseti Tyrklands
Í embætti
11. nóvember 1938 – 27. maí 1950
ForsætisráðherraCelâl Bayar
Refik Saydam
Ahmet Fikri Tüzer
Şükrü Saracoğlu
Recep Peker
Hasan Saka
Şemsettin Günaltay
ForveriKemal Atatürk
EftirmaðurCelâl Bayar
Forsætisráðherra Tyrklands
Í embætti
30. október 1923 – 22. nóvember 1924
ForsetiKemal Atatürk
ForveriAli Fethi Okyar
EftirmaðurAli Fethi Okyar
Í embætti
4. mars 1925 – 25. október 1937
ForsetiKemal Atatürk
ForveriAli Fethi Okyar
EftirmaðurCelâl Bayar
Í embætti
20. nóvember 1961 – 20. febrúar 1965
ForsetiCemal Gürsel
ForveriEmin Fahrettin Özdilek
EftirmaðurSuat Hayri Ürgüplü
Persónulegar upplýsingar
Fæddur24. september 1884
İzmir, Tyrkjaveldi
Látinn25. desember 1973 (89 ára) Ankara, Tyrklandi
ÞjóðerniTyrkneskur
StjórnmálaflokkurLýðveldisflokkur alþýðunnar
MakiMevhibe İnönü (g. 1916)
Börn4
Undirskrift

Æviágrip breyta

İsmet İnönü fæddist undir nafninu Mústafa İsmet í borginni İzmir í Tyrkjaveldi. Eftir grunnskólanám útskrifaðist hann árið 1903 úr hernaðarverkfræðiskóla í Istanbúl og hóf þjónustu í tyrkneska hernum. Í Balkanstríðunum var İsmet gerður höfuðsmaður stórskotaliðs í hernum og þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út tók hann þátt í vörn Tyrkja gegn innrás Breta á Gallipoli-skaga. İsmet hlaut ofurstatign fyrir þjónustu sína í stríðinu.[1]

Tyrkir voru gersigraðir í styrjöldinni og soldáninn Mehmed 6. neyddist til að samþykkja afar auðmýkjandi friðarskilmála þar sem Tyrkir létu af hendi mikið landflæmi til bandamanna. Þegar yfirmaður İsmets úr styrjöldinni, Mústafa Kemal, blés til uppreisnar gegn soldáninum til að koma í veg fyrir að farið yrði eftir friðarskilmálunum var İsmet fljótur að ganga til liðs við hann og þjóðher hans í Ankara. Vinskapur tókst með Kemal og İsmet og sá fyrrnefndi fól İsmet yfirstjórn uppreisnarhersins.[1]

Þjóðher Kemals háði stríð bæði gegn soldáninum og gegn innrásarher Grikkja, sem vildu sjá til þess að Tyrkir létu af hendi það landsvæði sem kveðið hafði verið á um í friðarsamningnum. Her undir stjórn İsmets vann í stríðinu tvær orrustur við bæinn İnönü sem hægðu á framsókn Grikkja inn í Tyrkland.[1] Þegar nafnalögum í Tyrklandi var breytt árið 1934 tók İsmet upp ættarnafnið İnönü eftir bænum þar sem hann hafði unnið þessar orrustur.[2]

Árið 1923 tókst herjum Kemals að vinna bug á óvinum sínum og hrekja innrásarherina út úr Tyrklandi. Í kjölfarið var İnönü sendur til að semja við bandamenn um nýja, hagstæðari friðarskilmála á ráðstefnu í Lausanne í Sviss. İsmet varð frægur fyrir frammistöðu sína á ráðstefnunni, þar sem hann neitaði að hlusta á kröfur breska samningamannsins Curzons lávarðar og slökkti á heyrnartólum sínum á meðan Curzon ávítaði hann.[3]

Eftir að nýir friðarsamningar höfðu verið undirritaðir lýsti Kemal yfir stofnun lýðveldis í Tyrklandi og varð sjálfur fyrsti forseti þess. İsmet varð forsætisráðherra Tyrklands og gegndi því embætti (að undanskyldum nokkrum mánuðum árin 1924 og 1925) þar til Kemal lést árið 1938. İsmet İnönü var þá kjörinn til að taka við af honum og gerast nýr forseti.

Seinni heimsstyrjöldin hófst árið eftir að İnönü settist á forsetastól og bæði bandamenn og Öxulveldin reyndu að fá Tyrki í lið með sér. Þjóðverjar sendu fyrrum kanslarann Franz von Papen til að semja við İnönü en höfðu ekki erindi sem erfiði.[4] İnönü viðhélt hlutleysi Tyrklands mestallt stríðið en þann 25. febrúar 1945 tók hann loks beina afstöðu með bandamönnum og lýsti yfir stríði gegn Þýskalandi og Japan.[5]

Á forsetatíð İnönü hafði flokksræði verið við lýði í Tyrklandi og lítið sem ekkert eiginlegt lýðræði. Eftir seinni heimsstyrjöldina jukust kröfur um lýðræði og İnönü lét því undan þrýstingi um að halda frjálsar kosningar árið 1950. Í þeim kosningum bað flokkur İnönü, Lýðveldisflokkur alþýðunnar, ósigur gegn stjórnarandstöðunni. İnönü sætti sig við ósigurinn og veik því úr forsetaembætti fyrir keppinauti sínum, Celâl Bayar. Hann hætti þó ekki afskiptum af tyrkneskum stjórnmálum heldur var hann áfram formaður Lýðveldisflokksins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar næstu tíu árin. İnönü tókst að komast til valda á ný eftir kosningar árið 1961 og varð forsætisráðherra Tyrklands til ársins 1965.

İnönü lést úr hjartaáfalli árið 1973, þá 89 ára að aldri.

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 „Ismet İnönü: Eftirmaður Kemals Atatyrks“. Fálkinn. 4. apríl 1941. Sótt 8. maí 2019.
  2. Juliet Bridgman og Allan Roberts (24. febrúar 1944). „Það syrtir yfir Tyrklandi: Fyrri grein“. Morgunblaðið. Sótt 8. maí 2019.
  3. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning. bls. 114.
  4. Juliet Bridgman og Allan Roberts (25. febrúar 1944). „Það syrtir yfir Tyrklandi: Seinni grein“. Morgunblaðið. Sótt 8. maí 2019.
  5. Weinberg, Gerhard A World In Arms, Cambridge: Cambridge University Press, 2005 bls. 226.


Fyrirrennari:
Fethi Okyar
Forsætisráðherra Tyrklands
(30. október 192322. nóvember 1924)
Eftirmaður:
Fethi Okyar
Fyrirrennari:
Fethi Okyar
Forsætisráðherra Tyrklands
(4. mars 192525. október 1937)
Eftirmaður:
Celâl Bayar
Fyrirrennari:
Kemal Atatürk
Forseti Tyrklands
(11. nóvember 193827. maí 1950)
Eftirmaður:
Celâl Bayar
Fyrirrennari:
Fahrettin Özdilek
Forsætisráðherra Tyrklands
(20. nóvember 196120. febrúar 1965)
Eftirmaður:
Suat Hayri Ürgüplü