Þrymskviða er forníslenskt eddukvæði sem segir frá misheppnaðri tilraun Þryms þursakonungs til að fá Freyju sem konu. Þór neyðist til að dulbúa sig í gervi Freyju til að fá stolna hamarinn sinn aftur frá Jötunheimum. Kvæðið er flokkað sem goðakvæði en fjallar um brúðkaupsför Þórs í gervi Freyju á gamansaman hátt.

Þór sem brúður og Loki sem brúðarmeyja á myndskreytingu eftir Carl Larsson frá 1894.

Þrymskviða er einungis varðveitt í Konungsbók Eddukvæða (GKS 2365 4to). Ekkert er vikið að efni hennar í Snorra-Eddu sem bendir til þess að Snorri Sturluson hafi ekki þekkt kvæðið. Kvæðið er 32 erindi, ort undir fornyrðislagi, en hins vegar eru fjórar vísur 10 vísuorð en ein 12.

Efni breyta

Í Þrymskviðu segir frá því að Þór vaknar reiður vegna þess að hamri hans, Mjölni, hefur verið stolið. Hann segir Loka að hvorki sé hamarinn á jörðu niðri né upphimni, því hljóti honum að hafa verið stolið frá honum.

Loki fer til Jötunheima þar sem hann hittir Þrym, konung þursa, sem kveðst hafa hamarinn og hefur komið honum fyrir neðanjarðar. Þór getur fengið hamarinn aftur gegn því að Þrymur fái Freyju dóttur Njarðar sem eiginkonu. Loki flýgur aftur til Ásgarðs og hittir Þór. Þeir fara til Freyju og segja henni að klæða sig upp sem brúður og fara með þeim til Jötunheima. Freyja bregst reið við og neitar að fara. Æsir og ásynjur hittast á þingi og voldug goð ákveða hvað gera skuli til að endurheimta hamar Þórs. Heimdallur leggur til að Þór klæðist í brúðarföt og setji á sig hálsmen Freyju. Einnig skuli hann hafa lykla sem tákn um völd húsfreyju. Þór líst illa á þessa hugmynd en Loki bendir á að án hamarsins muni Jötnar drottna yfir Ásgarði.

Þór er klæddur í brúðarkjól með hálsmen Freyju, lykla, skartgripi og höfuðskraut. Loki fer með Þór til Jötunheima dulbúinn sem ambátt. Þrymur undirbýr brúðkaup því hann vill fljótt kvænast Freyju dóttur Njarðar frá Nóatúnum. Í veislunni étur Þór einn uxa, átta laxa og allar krásir og drekkur þrjú ker af miði. Þrymur kveðst aldrei hafa séð konu borða jafn mikið og Loki svarar því að Freyja hafi ekki borðað í átta nætur af spenningi yfir brúðkaupinu. Þrymur ætlar að kyssa Freyju en bregður í brún yfir því hve illileg hún er á svipinn og aftur svarar ambáttin að Freyja hafi ekki sofið í átta nætur vegna spennings fyrir brúðkaupinu. Brúðurin biður um það sem ættingjar hennar áttu að fá út úr brúðkaupinu og lætur Þrymur ná í hamarinn. Þór tekur þá hamarinn og drepur Þrym og alla ættingja hans og lýkur þar Þrymskviðu.

Aðrar útgáfur breyta

Rímnaflokkur frá 15. öld segir frá efni Þrymskviðu í þrennum rímum sem hafa verið nefndar Þrymlur. Fyrsta ríman er ferskeytt, önnur braghent og sú þriðja stafhent. Rímurnar hafa aðeins varðveist í Staðarhólsbók og eru óheilar.

Leifar af Þrymskviðu varðveittust í sagnakvæðum á Norðurlöndunum, eins og í Tord af Hafsgaard og Tosse Grefve frá Danmörku, Tore Kals Vise frá Noregi og Hammar-Hemtningen frá Svíþjóð. Þar nefnist Loki til dæmis „Lokke Leyemand“ í dönsku útgáfunni og „Lokke Lagenson“ í þeirri norsku, en „Locke Lewe“ í þeirri sænsku.[1]

Ópera og teiknimynd breyta

Árið 1974 var frumsýnd óperan Þrymskviða eftir Jón Ásgeirsson. Þetta var fyrsta óperan sem samin var á íslensku. Sviðsmyndin var hönnuð af Haraldi Guðbergssyni myndlistarmanni, en hann gaf síðar út myndasögu byggða á kvæðinu.

Árið 1980 var teiknimyndin Þrymskviða eftir Sigurð Örn Brynjólfsson frumsýnd í Regnboganum. Myndin var aðeins 15 mínútur. Þetta var fyrsta íslenska teiknimyndin í lit.[2]

Annað breyta

Myndasagan Goðheimar 2: Hamarsheimt byggist á Þrymskviðu.

Tilvísanir breyta

  1. Adolf Iwar Arwidsson (1834-1842). Svenska fornsånger. Stokkhólmi. bls. 2-4.
  2. „Þrymskviða“. Kvikmyndavefurinn. Sótt 15.5.2023.