Þangdoppa (fræðiheiti: Littorina obtusata) er sæsnigill af fjörudoppuætt.

Þangdoppa
Littorina obtusata
Littorina obtusata
Vísindaleg flokkun
Ríki: Animalia
Fylking: Lindýr (Molluska)
Flokkur: Snigill (Gastropoda)
Yfirætt: Littorinoidea
Ætt: Fjörudoppuætt (Littorinidae)
Ættkvísl: Littorina
Tegund:
L. obtusata

Tvínefni
Littorina obtusata
(Linnaeus, 1758)

Útbreiðsla breyta

Þangdoppu má finna víðast þar sem þang vex við strendur Norður-Atlantshafs. Útbreidd í Evrópu, frá Noregi, Eystrasalti og Norðursjó, til suðurstrandar Spánar. Á austurströnd Norður-Ameríku lifir hún við strendur Nýfundnalands og allt suður til New Jersey í Bandaríkjunum. Við Ísland er Þangdoppa mjög algengur sæsnigill við suður-og vesturstöndina, eins hér og þar við norðvestur-og norðurland en sjaldgæfari við austurland.

Þangdoppa lifir á 0 til 6 metra dýpi, þó hefur stöku dýr fundist allt niður á 110 metra dýpi. Þangdoppa heldur sig að mestu leiti í miðri fjörunni eða neðst í henni. Í hnullunga og þangfjörum og þar sem þang er mikið og er aðallega á klóþangi, bóluþangi og sagþangi.

Skelin (kuðungurinn) breyta

 
Þangdoppa finnst í mörgum litbrigðum. Þessir kuðungar voru tíndir í Fossvoginum en þar í fjörunni má finna mikið af þeim.

Þangdoppa verður stærst um 14,8 mm á breidd og 12,5 mm á hæð. Kuðungurinn er mjög traustur, einlitur, en litaafbrigði mörg, ólífugrænn, skærgulur, rauður, appelsínugulur, grágrænn, jafnvel röndóttur, þótt oftast sé hann dökkgrár eða brúnn. Algengast er að í sólríkum fjörum sé kuðungurinn ljósari á lit en dekkri í þeim skuggsælli.

Hyrnan á kuðungnum er afar stutt og ekki strýtumynduð. Vindingar 5 til 6, kúptir og er grunnvindingurinn mjög stór eða oftast um 90% af hæð kuðungsins og munnurinn dropalaga og mjög víður og er skelin greinilega þykkari við munnopið en annars staðar. Lokan er hringlaga og brún á lit. Efri vindingar kuðungsins ná lítið eða ekkert upp fyrir neðsta vindinginn. Yfirborðið slétt með nær engum snigilrákum en kuðungurinn getur þó verið með dálitlum afbrigðum í lögun.

Almennt breyta

Þangdoppa lifir á örsmáum þörungum sem eru á þangi, sem hún skrapar af með skráptungu sem er alsett hörðum tönnum. Sjaldnast nær hún þó að éta þangið sjálft nema mjög ungar plöntur.

Hún verpir eggjum sem hún kemur fyrir í litlum gagnsæjum slímpúðum sem hún festir við þangið. Eggin klekjast út á fjórum til fimm vikum og þegar ungarnir skríða úr eggjunum eru þeir eins í útliti og foreldrarnir, aðeins minni.

Klettadoppa sem einnig lifir í fjörum, getur líkst þangdoppu fljótt á litið og þeim því stundum ruglað saman. Hún þekkist þó frá þangdoppunni á því að vindingarnir enda í trjónu. Klettadoppan lifir ofar í fjörunni en þangdoppan, oftast ofan við þangið.[1]

Þangdoppa, sem og klettadoppa, eru mikilvæg fæða margra strandfugla eins og Stelks, Tildru og Sendlings.[2]

Tilvísanir breyta

  1. „Fjaran og hafið“. Hafransóknarstofnun og Námsgagnastofnun. Sótt 3. janúar 2012.
  2. „Vaðfuglar“. Náttúrufræðistofa Kópavogs. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2016. Sótt 3. janúar 2012.

Heimildir breyta

  • Ingimar Óskarsson (1962). Skeldýrafána Íslands II, sæsniglar með skel.
 
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu