Ögmundur Helgason var íslenskur höfðingi á 13. öld og staðarhaldari í Kirkjubæ á Síðu.

Hann var sonur Digur-Helga Þorsteinssonar (d. 1235), sem einnig var staðarhaldari í Kirkjubæ, og tók við af honum. Á meðal bræðra hans voru Arnór Helgason ábóti í Viðeyjarklaustri og Finnbjörn Helgason, hirðmaður og umboðsmaður Noregskonungs, sem dó af sárum sem hann fékk á Þverárfundi 1255, en hálfsystir þeirra var Helga Digur-Helgadóttir, móðir Þorvarðar og Odds Þórarinssona.

Kona Ögmundar var Steinunn systir Orms Jónssonar Svínfellings. Þegar Ormur andaðist 1241 var Sæmundur, elsti sonur hans, á unglingsaldri en Guðmundur bróðir hans sjö ára og bauð Ögmundur honum fóstur. Það kom hins vegar fljótt í ljós að Ögmundur notaði tómarúmið sem skapast hafði við fráfall Orms til að auka völd sín á kostnað hins unga höfðingja Svínfellinga og kom fljótlega til fjandskapar milli þeirra. Sæmundur sótti Guðmund bróður sinn úr fóstrinu, fékk Ögmund dæmdan sekan á þingi og háði féránsdóm í Kirkjubæ. Brandur ábóti í Þykkvabæjarklaustri, föðurbróðir Sæmundar og mágur Ögmundar, sætti þá.

Steinunn kona Ögmundar hafði hvatt mjög til sátta og gengið í kirkju og beðið þess að ekki kæmi til vandræða með manni hennar og frænda á meðan hún lifði. Hún dó 31. mars 1252 og tæpum tveimur vikum síðar, þegar Ögmundur frétti að Sæmundur og Guðmundur væru fámennir á ferð skammt frá Kirkjubæ, tók hann þá höndum og lét fyrst höggva Sæmund. Þá „mælti Guðmundur til Ögmundar: Gott væri enn að lifa og vildi ég grið, fóstri. Ögmundur svaraði: Ekki þorum vér það nú, fóstri, og var hann þá rauður sem blóð.“ Síðan var fóstursonur hans höggvinn.

Ögmundur var gerður héraðsrækur eftir vígin og flutti hann að Dal undir Eyjafjöllum.