Óperetta er „létt ópera“, það er verk sem er styttra en hefðbundin ópera, fæst við léttúðugt viðfangsefni og hefur þann tilgang fyrst og fremst að skemmta áhorfendum. Óperettan þróaðist um miðja 19. öld út frá frönsku gamanóperunni þar sem vinsæl alþýðutónlist og talað mál voru notuð í sýningunni. Upphafsmenn óperettunnar voru frönsku tónskáldin Hervé og Jacques Offenbach. Austurríkismaðurinn Johann Strauss yngri varð síðar einn þekktasti óperettuhöfundur heims. Þekktustu óperettuhöfundar á ensku voru Gilbert og Sullivan sem sömdu 14 vinsælar óperettur á Viktoríutímanum.

Veggspjald fyrir óperettu Offenbachs, Orfeus í undirheimum, frá 1874.

Snemma á 20. öld tóku söngleikir smám saman við af óperettunum. Munurinn á óperettu og söngleik er að sá síðarnefndi er leikrit með söng- og dansatriðum meðan óperettan er ópera með töluðu máli. Í óperettum koma yfirleitt fram atvinnusöngvarar í aðalhlutverkum en í söngleiknum eru oftast leikarar sem syngja og dansa aðalhlutverkin. Mörkin þarna á milli eru þó oft óskýr.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.