Ítalski gamanleikurinn

Ítalski gamanleikurinn eða commedia dell'arte er leikhús sem einkennist af stöðluðum persónum (sem upphaflega báru grímur af tilteknum gerðum), stuttum sketsum og vandræðalegum eða hlægilegum aðstæðum. Leikurinn byggðist bæði á stöðluðum uppfærslum og spuna, gjarnan með hljóðfæraleik og söng, en fylgdi upphaflega ekki skrifuðu leikriti. Þetta leikhús var atvinnuleikhús sett upp af farandleikurum í þorpum og bæjum á leiksviði sem hróflað var upp tímabundið og notaðist því við leikmuni fremur en íburðamikla sviðsetningu. Það er upprunnið á Ítalíu á 16. öld og kann að tengjast kjötkveðjuhátíðinni í Feneyjum.

Commedia dell'arte-leiksýning á Ítalíu á 17. öld. Málverk eftir Peeter van Bredael.

Þekktustu persónur ítalska gamanleiksins eru feneyski kaupmaðurinn og nískupúkinn Pantalone, smásmugulegi kennarinn dottor Gratiano frá Bologna og lævísi þjónninn og loddarinn Arlecchino frá Bergamó, ásamt mörgum fleirum. Þegar þessi tegund gamanleiks varð vinsæl í Frakklandi á 17. öld bættust við persónurnar Colombina, ástkona Arlecchinos, og kokkálaður eiginmaður hennar Pierrot.

Ítalski gamanleikurinn er talinn vera fyrsta dæmið um atvinnuleikhús í Evrópu. Arte vísar til þess að leikararnir voru handverksmenn (þ.e. atvinnumenn) af alþýðustétt andstætt commedia erudita eða „menntuðum gamanleik“ sem var áhugaleikhús tengt aðlinum og fylgdi handriti.

Ítalski gamanleikurinn hafði mikil áhrif á þróun leikhússins á Vesturlöndum. Þessi áhrif sjást í leikritum Moliéres og Shakespeares, óperum og óperettum 18. og 19. aldar, försum og gamanmyndum 20. aldar, og hans sér enn merki í nútímatrúðaleik og brúðuleikhúsi.