„Slysavarnafélag Íslands“: Munur á milli breytinga

Efni eytt Efni bætt við
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
Lína 13:
Í kjölfar strands Jóns forseta við Stafnes aðfaranótt 27. febrúar 1928, þar sem 15 manns fórust en 10 var bjargað við erfiðar aðstæður, hófst stofnun slysavarnadeilda víðsvegar um landið. Fyrsta slysavarnadeildin var Sigurvon í Sandgerði.
 
Ásamt stofnun slysavarnadeilda beitti Slysavarnafélagið sér fyrir útbreiðslu svokallaðra fluglínutækja til slysavarnadeildanna um landið, en fluglínutæki eru sérhæfður búnaður til bjargar mönnum úr strönduðum skipum.

Fyrsta björgun með fluglínutækjum var þegar Slysavarnadeildinni Þorbirni í Grindavík auðnaðist sú mikla gæfa að bjarga 38 manna áhöfn franska síðutogarans Cap Fagnet frá Fécamp, sem strandaði í slæmu veðri við bæinn Hraun, austan Grindavíkur, aðfaranótt 24. mars 1931. Slysavarnadeildin Þorbjörn hafði verið stofnuð röskum 5 mánuðum áður eða þann 2. nóvember 1930. Síðan þá hefur þessari einu slysavarnadeild og björgunarsveit hennar tekist að bjarga 205 sjómönnum með fluglínutækjum úr strönduðum skipum, en samtals eiga 232 sjómenn þessari einu slysavarnadeild líf sitt að launa.
 
Alls eiga vel á þriðja þúsund íslenski og erlendir sjómenn fluglínutækjum og íslenskum slysavarnadeildum og björgunarsveitum líf sitt að launa.
 
Slysavarnafélag Íslands beitti sér einnig fyrir kaupum á björgunarbátum og -skipum. Fyrsti björgunarbátur félagsins kom til landsins í apríl 1929 og var nefndur Þorsteinn, eftir Þorsteini Þorsteinssyni skipstjóra sem gaf félaginu andvirði bátsins. Þorsteinn, sem var keyptur notaður af hinu konunglega breska björgunarbátafélagi Royal National Lifeboat Institution var fyrst um sinn staðsettur í Reykjavík en var síðar komið fyrir í Sandgerði, þar sem hann er enn varðveittur.
Árið 1937 kom til landsins björgunarskútan Sæbjörg sem sérsmíðuð var fyrir félagið. Sæbjörgu var síðar breytt og hún stækkuð og leigði íslenska ríkið og Landhelgisgæslan hana sem björgunar- og varðskip til ársins 1965.
Þá stóð Slysavarnafélagið einnig fyrir smíði björgunar- og varðskipanna Maríu Júlíu og Alberts, en þau voru einnig gerð út af íslenska ríkinu og Landhelgisgæslunni.
Í dag eru gerð út 14 björgunarskip allt í kringum landið auk fjölmargra minni björgunarbáta.
 
Árið 1947 stóð Slysavarnafélagið fyrir innflutningi á þyrlu til kynningar. Röskum tveimur áratugum síðar keyptu Slysavarnafélagið og íslenska ríkið saman fyrstu þyrluna, TF-EIR.
 
Árið 1968 stóð Slysavarnafélagið fyrir stofnun Tilkynningaskyldu íslenskra skipa og rak þá þjónustu til ársins 2004. Stofnun Tilkynningaskyldunnar kom til í kjölfar þess að síldarbáturinn Stígandi fórst djúpt norðaustur í höfum í ágúst árið áður. Þá voru engar upplýsingar um ferðir skipa en þó var vitað að skipið væri á landleið. Farið var að óttast um skipið og hófst mikil leit. Rétt tæpum fimm sólarhringum eftir slysið fannst áhöfn skipsins á reki í björgunarbátum. Er þetta lengsti tími sem íslenskir sjómenn hafa þurft að dvelja í björgunarbátum svo vitað sé.
 
Árið 1985 stofnaði Slysavarnafélagið Slysavarnaskóla sjómanna sem heldur úti kennslu í öryggismálum sjómanna.
 
Eins og sjá má á þessari lesningu var Slysavarnafélag Íslands frumkvöðull að ýmsum stórum þáttum í björgunar- og öryggismálum og hefur ætíð látið til sín taka á þeim vettvangi. Oftast þurfti félagið að bera kostnað af þessum verkefnum fyrstu árin en síðar fór íslenska ríkið að taka þátt í rekstrarkostnaði þeirra.
 
2. október 1999 sameinuðust Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg - landssamband björgunarsveita í ein slysavarna- og björgunarsamtök; Slysavarnafélagið Landsbjörg.