„Arreboe Clausen“: Munur á milli breytinga

Efni eytt Efni bætt við
Ný síða: '''Arreboe Clausen''' (5. nóvember 1892- 8. desember 1956) var reykvískur verslunarmaður, bílstjóri, íþróttamaður og listamaður. Hann var einn af...
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 10. apríl 2010 kl. 10:45

Arreboe Clausen (5. nóvember 1892- 8. desember 1956) var reykvískur verslunarmaður, bílstjóri, íþróttamaður og listamaður. Hann var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Fram og formaður þess um tíma.

Ævi og störf

Arreboe fæddist í Stykkishólmi. Foreldrar hans voru Holger Peter Clausen kaupmaður og alþingismaður og Guðrún Þorkelsdóttir. Guðrún var systir dr. Jóns Þorkelssonar Þjóðskjalavarðar sem hafði viðurnefnið Forni. Árið 1925 kvæntist Arreboe Sesselju Þorsteinsdóttur Clausen. Þau eignuðust tvo syni, tvíburana Hauk og Örn, sem báðir urðu einhverjir mestu afreksmenn Íslands í frjálsum íþróttum. Arreboe starfaði á yngri árum sem verslunarmaður í Reykjavík. Síðari hluta starfsævinnar var hann bílstjóri hjá forsætisráðuneytinu.

Íþróttir

Knattspyrnufélagið Fram var stofnað vorið 1908 af nokkrum piltum úr miðbæ Reykjavíkur. Arreboe var í hópi stofnfélaganna og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, var t.d. formaður félagsins um skamma hríð á árinu 1910 og svo aftur 1911-13 og 1917-19. Hann var gerður að heiðursfélaga Fram á fjörutíu ára afmæli félagsins. Arreboe var fastamaður í keppnisliði Fram um árabil. Hann tók t.d. þátt í fyrsta opinbera leik félagsins, sem var stuttur sýningarleikur við vígslu Melavallarins 17. júní 1911 og keppti á fyrsta Íslandsmótinu í knattspyrnu árið eftir. Hann varð margoft Íslands- og Reykjavíkurmeistari með hinu sigursæla Framliði á öðrum áratugnum. Á þessum árum var vinsælasta leikkerfi knattspyrnumanna 2-3-5, þar sem tveir varnarmenn áttu í höggi við fimm sóknarleikmenn andstæðinganna. Arreboe lék alla tíð sem varnarmaður. Einkennismerki hans var að hreinsa knöttinn frá með ógnarföstum spyrnum sem urðu víðfrægar. Reykvískir knattspyrnuáhugamenn töluðu um „Clausen-spörkin“. Var þeim einatt vel fagnað á Melavellinum og því meira sem spyrnurnar voru fastari og lengri. Arreboe var einnig meðal félaga í hinu skammlífa íþróttafélagi Skandinavisk Boldklub, sem var að öllu leyti skipað Norðurlandabúum eða fólki af skandinavískum uppruna sem búsett var í Reykjavík.

Listir

Arreboe Clausen var listfengur maður. Hann þótti ágætur málari og gerði t.d. tillögur að merki Knattspyrnufélagsins Fram sem allar hafa glatast. Jafnframt var hann góður píanóleikari og fékkst við tónsmíðar. Árið 1915 sendi hann frá sér Knattspyrnumars, sem mun vera fyrsta íslenska tónverkið sem helgað er fótboltaíþróttinni. Á 25 ára afmæli Fram árið 1933 samdi Arreboe svo séstakan vals, Framvalsinn, ásamt Sesselju konu sinni. Framvalsinn hefur upp frá því verið leikinn á hátíðlegum stundum í sögu félagsins. Veigamesta framlag Arreboes til íslenskrar hámenningar er þó tvímælalaust útgáfa hans á bókinni Söngvasafn árið 1948. Þar var safnað saman helstu perlum vinar hans, tónskáldsins Inga T. Lárussonar, sem lést þremur árum fyrr. Ingi var hlédrægur maður þegar kom að tónlistarsköpun sinni og sinnti lítið um útgáfu á verkum sínum. Með Söngvasafninu tókst að tryggja að mörg laga hans varðveittust og urðu þjóðkunn.