„Hrappseyjarprentsmiðja“: Munur á milli breytinga

Efni eytt Efni bætt við
Navaro (spjall | framlög)
Ný síða: '''Hrappseyjarprentsmiðja''' var prentsmiðja og bókaútgáfa sem starfrækt var í Hrappsey á Breiðafirði 1773-1794 og var fyrsta íslenska...
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 25. nóvember 2009 kl. 11:07

Hrappseyjarprentsmiðja var prentsmiðja og bókaútgáfa sem starfrækt var í Hrappsey á Breiðafirði 1773-1794 og var fyrsta íslenska prentsmiðjan sem prentaði eingöngu veraldleg rit en ekki guðsorðabækur.

Ólafur Ólafsson Olavius fékk konungsleyfi til að stofna prentsmiðju í Skálholtsbiskupsdæmi með því skilyrði að þar yrði ekki prentað guðsorð, á því átti Hólaprentsmiðja einkarétt. Ólafur fékk lán til tækjakaupa hjá Boga Benediktssyni í Hrappsey, sem jafnframt átti hlut í verksmiðjunni og var hún reist í eynni. Ári síðar keypti Bogi hlut Ólafs og átti prentsmiðjuna lengst af einn en Magnús Ketilsson, sýslumaður Dalamanna, stýrði hins vegar útgáfunni að mestu.

Frá Hrappseyjarprentsmiðju komu bækur af ýmsu tagi, svo sem Alþingisbækur Íslands, fræðslurit ýmiss konar, sum skrifuð af Magnúsi, sem var einn helsti frumkvöðull upplýsingarstefnunnar á Íslandi, Atli eftir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, Búnaðarbálkur Eggerts Ólafssonar, kvæðabækur og fleira. Jón Þorláksson, síðar prestur á Bægisá, vann um tíma við prentsmiðjuna og gaf út bækur sínar þar. Fyrsta íslenska tímaritið, Islandske Maanedstidender, var líka gefið út í Hrappsey á árunum 1773-1776.

Hrappseyjarprentsmiðja var seld Landsuppfræðingarfélaginu árið 1794 og flutt suður í Leirárgarða í Borgarfirði.

Heimildir

  • Jón Helgason (prófessor) (1928). Hrappseyjarprentsmiðja 1773-1794. Hið íslenzka fræðafélag.