Munur á milli breytinga „Kransæðasjúkdómar“

ekkert breytingarágrip
(Ný síða: Kransæðasjúkdómar eru algengastir hjartasjúkdóma og leiðandi orsök dauðsfalla um heim allan (1,2,3). Þegar talað er um kransæðasjúkdóma er átt við þrengingar eða stíf...)
 
Kransæðasjúkdómar eru algengastir hjartasjúkdóma og leiðandi orsök dauðsfalla um heim allan (1,2,3). Þegar talað er um kransæðasjúkdóma er átt við þrengingar eða stíflur í kransæðum hjartans vegna æðakölkunar (enska: [[atherosclerosis]]) eða [[blóðtappa]] sem myndast í kjölfar hennar. [[Æðakölkun]] er ekki einskorðuð við [[kransæðar]] hjartans, heldur er um kerfisbundin og mögulega útbreiddan sjúkdóm að ræða. Æðakölkun getur birst sem sjúkdómur í slagæðum heilans og þá valdið [[blóðþurrð]] eða [[heilablóðfalli]], eða sem sjúkdómur í útlægum slagæðum og valdið [[heltiköstum]] eða alvarlegri blóðþurrð í útlimum. Sjúkdómar af völdum æðakölkunar geta allir verið til staðar hjá einum og sama sjúklingnum og er meinafræði þeirra sú sama (3).
 
Æðakölkun er [[bólgusjúkdómur]] í veggjum slagæða en upphaf hennar má rekja til þess þegar fita safnast fyrir staðbundið undir [[innsta lag æðar]] vegna spennu eða álags (til dæmis [[hár blóðþrýstingur]]). Við það raskast virkni innsta lagsins og [[ónæmiskerfið]] ræsist í kjölfarið með íferð [[stórkirninga]] á svæðið. Stórkirningarnir taka upp fituna og sérhæfast við það í [[gleypifrumu]]. Þegar gleypifrumurnar virkjast losa þær frá sér frumuboðefni sem örva frumur í [[miðlagi æðarinnar]] til að hylja fituskelluna með myndun [[trefjahimnu]]. Með þessum viðbrögðum hefur ónæmiskerfið unnið tímabundið úr vandamálinu og getur einstaklingur verið einkennalaus á meðan að skellan raskar ekki eðlilegu [[blóðflæði]]. Hins vegar ef bólguviðbrögð ónæmiskerfisins ágerast getur það orðið til þess að gleypifrumur nái að rjúfa sér leið gegnum [[trefjahimnuna]] og innsta lag æðarinnar. Við rofið nær innihald skellunnar að komast í snertingu við [[blóðrásina]] en við það fer af stað [[storkuferli]] og blóðtappi myndast sem nær bæði inn fyrir brostna veggi skellunnar og út fyrir hana. Blóðtappinn hleður utan á sig og getur annað hvort valdið stíflu í æðinni staðbundið eða losnað frá skellunni og valdið stíflu annars staðar í [[æðakerfinu]] (3).
 
Þegar æðakölkun birtist sem kransæðasjúkdómur valda þrengsli eða stíflur í kransæðum takmörkuðu blóðflæði til hjartavöðvans sem leiðir til klínískra einkenna kransæðasjúkdóms (2). Helstu [[einkenni]] kransæðasjúkdóms eru [[mæði]] og [[hjartaöng]] en aukning á þessum einkennum er ein aðal ástæða þess að sjúklingar leita sér læknisaðstoðar (1). Þekktir [[áhættuþættir]] kransæðasjúkdóma eru [[aldur]], hár blóðþrýstingur, [[sykursýki]], hækkaðar [[blóðfitur]], [[reykingar]] og ættarsaga um kransæðasjúkdóma (2). Það er engin þekkt lækning á kransæðasjúkdómum (1) en fyrsta [[meðferð]] er gjarnan gjöf lyfja sem minnka [[súrefnisþörf]] hjartans. Eftir því sem sjúkdómurinn ágerist getur hins vegar reynst óhjákvæmilegt að sjúklingur fari í aðgerð til að koma á betra blóðflæði til hjartavöðvans. Aðgerðir sem framkvæmdar eru eru [[kransæðavíkkun]], stent ísetning og [[kransæðahjáveituaðgerð]] (2).
40

breytingar