„Kransæðahjáveituaðgerð“: Munur á milli breytinga

Efni eytt Efni bætt við
Annato (spjall | framlög)
Ný síða: Kransæðahjáveituaðgerðir eru algengustu hjartaaðgerðirnar sem framkvæmdar eru á fullorðnum einstaklingum og eru jafnframt algengastu aðgerðirnar til meðferðar á [[kransæ...
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 3. nóvember 2008 kl. 23:13

Kransæðahjáveituaðgerðir eru algengustu hjartaaðgerðirnar sem framkvæmdar eru á fullorðnum einstaklingum og eru jafnframt algengastu aðgerðirnar til meðferðar á kransæðaþrengslum (4). Meirihluti kransæðahjáveituaðgerða, eða um 70%, eru gerðar á hjarta sem hefur verið stöðvað og sjúklingur tengdur hjarta- og lungnavél, en einnig er hægt að framkvæma aðgerðina á sláandi hjarta. Í flestum tilfellum er sjúklingur vægt ofkældur áður en klemmt er á ósæðina og hjartað stöðvað með svokallaðri cardioplegiu sem er gefin í gegnum ósæðarótina. Cardioplegian er svo gefin á 15-20 mínútna fresti út aðgerðina til að viðhalda virkninni (3). Æðarnar sem notaðar eru til hjáveitu geta bæði verið slagæðar og bláæðar, en það hefur sýnt sig að slagæðar hafa lengri líftíma og notkun þeirra því sífellt að færast í aukanna. Sú bláæð eða græðlingur sem oftast er notaður til hjáveitu er löng bláæð úr fæti sjúklings sem heitir vena saphanous. Snúa þarf græðlingnum á rönguna vegna loka sem í æðinni eru og er annar endi hans tengdur við kransæð og hinn tengdur ósæðinni. Innri brjóstveggsslagæðar eru algegustu slagæðarnar sem notaðar eru til hjáveitu og þar sem þær eru þegar tengdar stærri slagæðum þarf aðeins að flytja annan endann og græða hann við kransæð (4). Þegar búið er að tengja allar hjáveitur er blóði dælt aftur inn í hjartað og sjúklingur tekinn af hjarta- og lungnavélinni (3). Áður en skurðsári sjúklings er lokað eru tengdir gangráðsvírar í gáttir og slegla og drenum komið fyrir í miðmæti umhverfis hjarta til þess að taka á móti blóði og vessa frá aðgerðarsvæði fyrst um sinn (4).

Eins og með allar aðgerðir fylgir einhver áhætta því að gangast undir kransæðahjáveituaðgerð, bæði þegar litið er til aðgerðarinnar sjálfrar og fylgikvilla hennar. Hlutfall þeirra sem deyja í aðgerð er um 2-3% (3) en tíðni sýkinga í skurðsárum eftir aðgerð er allt að 20% innan 30 daga eftir aðgerð (2). Ýmis vandamál geta komið upp hjá sjúklingum fyrir, í og eftir hjartaaðgerð. Fyrir aðgerð er alltaf einhver hætta á að sjúklingur fái hjartadrep vegna álags og kvíða eða í kjölfar alvarlegrar blóðþurrðar til hjartavöðvans. Í aðgerðinni sjálfri getur reynst erfitt að venja sjúkling af hjarta- og lungnavél og getur það jafnvel orðið til þess að hjarta sjúklings nái sér ekki á strik að fullu. Í aðgerð er líka hætta á því að sjúklingur fái blóðtappa vegna blóðreks frá græðlingnum (3). Eftir aðgerð geta komið upp ýmsar fylgikvillar eins og miðmætisbólga og postpericadiotomy syndrome en lungnavandamál eru algengasti fylgikvillinn og má þar helst nefna samfall á lungnablöðrum, vökva í brjóstholi og lungnabólgu. Einnig eru hjartsláttartruflanir algengar efir hjartaaðgerðir (4). Rannsóknir á kransæðahjáveituaðgerðum sýna samt sem áður fram gangsemi þeirra fyrir fólk með kransæðasjúkdóma og mikilvægi þeirra í að draga úr einkennum tengdum sjúkdómnum og auka lífsgæði sjúklinga. (1).


(1) Ballan, A., Lee, G.. (2007). A Comparative Study of Patient perceived Quality of Life pre and post Coronary Artery Bypass Graft Surgery. Australian Journal of Advanced Nursing, 24(4), 24-8.

(2) Hassan, M., Smith, J. M., Engel, A. M. (2006). Predictors and Outcomes of Sternal Wound Complications in Patients after Coronary Artery Bypass Graft Surgery. The American Surgeon, 72(6), 515-20.

(3) Henry, M. M. & Thompson, J. N. (ritstj.) (2005). Clinical Surgery. Edinburgh: Elsevier Limited.

(4) Monahan, F. D., Sands, J. K., Neighbors, M. & Marek, J. F. (ritstj.) (2007). Phipps’ Medical-Surgical Nursing: Health and Illness Perspectives. Edinburgh: Mosby Inc./ Elsevier Limited.