„Bíldudalur“: Munur á milli breytinga

Efni eytt Efni bætt við
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
Lína 1:
'''Bíldudalur''' er þorp við sunnanverðan [[Arnarfjörður|Arnarfjörð]] og er í raun eina þéttbýlið við Arnarfjörð. Þar búa 218 manns.
 
Bíldudalur er í góðu skjóli fyrir veðri og vindum og er þar oft á sumrin slík veðursæld að með ólíkindum þykir.
Þorpið Bíldudalur stendur við Bíldudalsvog sem er einn Suðurfjarða Arnarfjarðar. Bíldudalur er eini þéttbýliskjarninn í Arnarfirði.
 
Bíldudalur er sjávarþorp þar sem fiskveiðar og fiskvinnsla er aðalatvinnuvegur. Bolfiskvinnsla og rækjuvinnsla er undirstaða atvinnulífsins á staðnum.
Verslun hófst snemma á Bíldudal og settu margir merkir athafnamenn og konur mark sitt á staðinn og má sjá þar mörg hús frá 19. öld sem tengdust verslun, útgerð og fiskvinnslu.
 
Á Bíldudal er ágæt aðstaða fyrir ferðafólk, gisting, veitingarekstur og tjaldstæði. Ýmis afþreying stendur til boða. Áhugamenn um golf geta tekið kylfurnar með því góður níu holu golfvöllur er í miðjum dalnum og einnig er þar frjálsíþróttavöllur.
 
Einn besti flugvöllur Vestfjarða er í næsta firði um 5 km frá bænum. Sveitasundlaug er í Reykjafirði þar sem er náttúrulegur jarðhiti og einkar notalegt er að baða sig í henni.
Einnig er leiðin út í Ketildali stórskemmtileg og margt að sjá, opnar sandstrendur, þverhnípt fjöll, bergtröll og önnur listaverk náttúrunnar.
 
'''Saga Bíldudals'''
 
Bíldudalur er dalur sem gengur í suð-vestur úr mynni Suðurfjarða Arnarfjarðar og upp af Bíldudalsvogi. Dalurinn liggur milli hárra fjalla. Fjallið norðanmegin kallast Bíldudalsfjall en sunnanmegin er Otradalsfjall. Fyrir botni dalsins er Hnúkur, Hálfdán og Tunguheiði. Til Tálknafjarðar var áður fyrr farið yfir fjallveginn Hálfdán eða Tunguheiði sem er nokkru styttri leið. Dalurinn nær frá Jaðri norðan megin að Haganesi suður. Bíldudalur er því í góðu skjóli fyrir veðri og vindum og er þar oft á sumrin slík veðursæld að með ólíkindum þykir.
 
'''Heitið'''
 
Ekki hefur fengist viðhlítandi skýring á því hvað heitið Bíldudalur merkir en skemmtileg er kenningin um að Bíldudalur hafi áður heitið Blíðudalur, með skírskotun til veðurblíðunnar þar, en stafabrengl orðið til þess með einhverjum hætti að Blidudalur varð að Bildudalur. Er þá skemmst að minnast hinnar makalausu deilu um það að Dynjandi heiti Fjallfoss.
 
Önnur kenning sem sett hefur verið fram er svona: Bylta er nafn á bökkunum á móti þorpinu, hinum megin við voginn. Hugsanlega er nafnið Bíldudalur afbökun úr Byltudalur, eða öfugt, Bylta afbökun úr Bíldudalur.
 
'''Landnám og Eyrin'''
 
Bíldudalur er í landnámi Ketils Þorbjarnarsonar ilbreiðs sem sagður er hafa numið Arnarfjarðardali frá Kópanesi til Dufansdals. Ketill ílengdist þó ekki í Arnarfjarðardölum heldur fór að Berufirði hjá Reykjanesi en skildi eftir sig nafnið Ketildalir.
 
Fátt er því vitað um upphaf byggðar í Bíldudal en í gömlum heimildum er talað um tvær eyrar í Arnarfirði: Eyri í Arnarfirði sem kennd er við Hrafn Sveinbjarnarson (1160/70 -1213) - Hrafnseyri og Eyri í Bíldudal - Bíldudalseyri.
 
Ekki er lengur talað um Eyri í Bíldudal. Eyrin er nú helsta athafnasvæði þorpsins Bíldudals sem byggst hefur upp af Eyrinni og þegar Bíldudalur er nefndur er jafnan átt við byggðina og þá sagt á Bíldudal.
 
'''Bænhús og kirkja'''
 
Kirkja virðist ekki hafa verið í Bíldudal heldur bænhús í kaþólskri tíð. Hálfkirkja er þar á 14. öld en hún er lögð niður um 1670. Alkirkja Bílddælinga var í Otradal allt fram á tuttugustu öld að kirkjan í Otradal var lögð niður og ný reist á Bíldudal.
 
'''Jarðir'''
 
Í heimildum frá fyrri hluta 18. aldar er talið að Hóll í Bíldudal hafi í upphafi verið ein jarða í Bíldudal og Auðihrísdalur er þá sagður í Hólslandi. Hóll í Bíldudal hefur þá líklega verið höfuðból í upphafi og tekið yfir Bíldudal og Auðahrísdal. Jörðin Litlaeyri er í þessum heimildum talin eiga upphaf sitt sem hjáleiga úr Hólslandi en er þá þegar orðin lögbýli.
 
Samkvæmt máldaga kirkjunnar frá 1387 er nokkur byggð og útgerð á Eyrinni. Hvort Bíldudalseyri er úr landi Hóls eða Litlueyrar verður tæplega sagt til um en Eyrin er í byrjun 18. aldar sjálfstæð smájörð og mun líklega hafa náð frá Jaðri og þar til sem síðar varð Lækjarmót og Bræðraminni. Í jarðabókinni 1710 segir: „Nýlendu hafa danskir uppbygt á Bíldudalseyri hjá sínum búðum í Litlueyrar landareign“. Ekki er ljóst hvort nýlenda á við um jörðina sem virðist hafa fylgt Eyrinni frá upphafi eða er viðbót við hana.
 
Fyrir utan aðaljarðirnar Hól, Litlueyri og Bíldudalseyri (Bíldudal) eru afjarðir sem hafa verið í dalum um tíma Fremrihús (Hús), Hjallhólar (Hólar), Hólshús, Hólakot, Litlueyrarhús og Ketilshús.
 
'''Fyrsta íbúahúsið'''
 
Í Jarðabókinni 1710 er sagt frá Búðeyri sem var „tómt hús niður á Bíldudalseyri hjá kaupmannsbúðinni“. Búðeyri er því fyrsta eiginlega íbúahúsið á Bíldudal sem vitað er um. Í bókinni er litið svo á að húsið tilheyri ekki verslunarhúsunum því sá sem bjó þar átti að gæta eigna verslunarinnar og hefur haft fasta búsetu þar. Í bókinni er Búðeyri sögð reist sjö til átta árum fyrr eða 1702-1703.
 
'''Ein hafna landsins'''
 
Bíldudalsvogur hefur verið kjörið skipalægi eftir að íslenskum skipum fækkaði og kaupskip stækkuðu en einnig hafa eyrin og ósinn fyrir botni vogsins hentað vel til að setja stór kaupskip upp til geymslu á vetrum. Eyri í Bíldudal hefur auk þess verið miðsvæðis á fjölbýlu svæði Arnarfjarðar, Tálknafjarðar og Barðastrandar. Eru þetta eflaust megin ástæður þess að Bíldudalur varð ein af höfnum landsins.
 
'''Einokunarverslun 1602-1787'''
 
Frá einokunartímanum er saga Bíldudalseyrar nátengd verslunarsögu Íslands þar sem Bíldudalur er ein þeirra hafna og kauptúna sem sigla skildi á og stunda verslun. Tímabilið einkennist af því að ólík félög fara tímabundið með verslunina við Ísland eftir mismunandi fyrirkomulagi. Frá þessu tímabili eru mestu hörmugasögur íslenskrar verslunarsögu.
 
Verslunarsvæðum var þá þannig skipt að til Bíldudals áttu menn að sækja verslun frá Þorskafjarðarbotni að Haga á Barðaströnd og að Langanesi í Arnarfirði að norðan og úr Suðurfjörðum og Ketildölum. Geta þeir sem þekkja þetta svæði markað af því hve auðveldar slíkar kaupstaðaferðir hafa verið mörgum bændum og búandlýð en Bíldudalur var ein af 20 - 30 höfum landsins. Aðrar hafnir á Vestfjörðum voru í Patreksfirði, Dýrafirði og Ísafirði.
Fyrstu þekktu heimildir um Bíldudalsverslun eru frá árinu 1614 og sama ár kom fram kæra á Bíldudalsverslun á Hverstuþingi í Ketildalahreppi.
 
'''Fríhöndlun 1788-1855'''
 
Á fríhöndlunartímabilinu máttu Íslendingar versla við alla kaupmenn í ríki Danakonugs sem þá réð yfir Íslandi, Danmörku, Noregi, Slésvík og Holtsetalandi. Þetta hafði það í för með sér að Íslendingar gátu nú sjálfir farið að stunda verslun og íslensk verslunarstétt verður til.
Einn þekktasti og umsvifamesti athafnamaður fríhöndlunartímans í verslun, útgerð og fiskvinnslu var Ólafur Þórðarson Thorlacius (1762-1815) á Bíldudal. Hann hóf þilskipaútgerð og sigldi með saltfisk beint til Spánar á flutningaskipi sínu „Bildahl“. Þá átti hann og skip er stunduðu fiskveiðar á sumrum en voru geymd í Litlueyrarós á vetrum. Einnig átti hann Ísafjarðar- og Stykkilshólmsverslun ásamt útibúum. Þau urðu ævilok þessa merka bílddælska brautryðjanda að hann féll af strætisvagni í Kaupmannhöfn og beið bana.
 
'''Verslun frjáls 1855'''
 
Frá 1. apríl 1855 hefur Íslendingum verið frjálst að stunda verslun að hentugleikum. Á þessu tímabili kemur enn á ný fram mikilvirkur athafnamaður á landsvísu á Bíldudal. Það var Pétur Jens Thorsteinsson (1854-1929) sem kaupir eignir Bíldudalsverslunar árið 1879. Húsakostur verslunarinnar var fremur fátæklegur en með eignunum fylgdi „Pilot“ sem var gamalt eikarskip.
 
'''Útgerð'''
 
Vegna slæms árferðis gekk verslun og útgerð Péturs J. Thorsteinssonar illa í byrjun en í félagi við danska kaupmenn og þá ekki síður arnfirska bændur keypti Thorsteinsson fiskiskip og skonnortur. Á níunda áratugnum fór síld að ganga í Arnarfjörð og árið 1885 er stofnað „Hið arnfirska síldveiðifélag“ en tilgangurinn var að veiða síld til beitu. Þegar síld veiddist var hún samstundis send í verstöðvarnar og fékk hver bátur sinn skammt.
 
'''Uppbygging'''
 
Um 1890 fara hjólin að snúast hratt á Bíldudal og árið 1894 eru þilskipin orðin tíu. Hvert íbúðar- og atvinnuhúsnæðið af öðru rís af grunni. Stórskipabryggja er reist, brautartreinar lagðir um athafnasvæðið niður á bryggju, vatni veitt í leiðslur, landsetningarsliskjum komið fyrir á hafnarkambi, mikill grjótskans reistur út eftir reitunum þar sem fiskurinn var þurkaður og vegur lagður út úr þorpinu.
 
Þegar Thorsteinsson kom til Bíldudals voru fá hús á Eyrinni. En 1899 voru risin 22 íbúðarhús auk 13 annarra húsa og mannvirkja. Um aldamótin gengu 20 skip til fiskveiða frá Bíldudal og auk þess leiguskip til millilandaferða. Atvinna var geysimikil og menn komu hvaðanæfa af landinu í atvinnu og sumir ílengdust. Verkaður saltfiskur frá Bíldudal naut þá mikls álits meðal neytenda í fjarlægum löndum.
 
'''Atvinnutækin'''
 
Ingivaldur Nikulásson (1877-1951) fræðimaður segir: Meðan þilskipafloti P. J. Thorsteinssons var í bezta blóma, voru um 20 fiskiskip, er sett voru upp í Bíldudal og stóðu þar að vetrinum, nær því hlið við hlið. Var það tilsýndar að sjá sem skógur af siglutrjám, og net af köðlum og strengjum. Bar og mikið á ýmsum litum, er skipin ofanþilja og „fleygar“ þeirra voru skreyttir með. Var það alltilkomumikil sjón.
 
'''Fólksfjölgun'''
 
Þessi auknu umsvif kölluðu á mikinn mannafla. Árið 1891 eru íbúar taldir 73 en ellefu árum síðar eru þeir orðnir 285.
 
'''Verslun útgerðarinnar'''
 
Umsvif verslunarinnar jukust umtalsvert. Innlend og erlend fiskiskip lögðu leið sína til Bíldudals því þar var hægt að fá allar þær vörur er þörf var á auk þess að þar voru skipasmiðir og járnsmiðir er framkvæmt gátu viðgerðir á skipunum.
 
'''Menning'''
 
Leiklist var fljótt í hávegum höfð á Bíldudal. Leikrit voru fyrst flutt veturinn 1894-1895 í svonefndu bryggjuhúsi en um aldamótin var komið sérstakt samkomuhús. Bókasafni var komið á legg og árið 1901 keypti Thorsteinsson prentsmiðju til Bíldudals og fékk hann Þorstein Erlingsson (1858-1914) skáld til að ritsýra blaðinu „Arnfirðingi“ sem út kom einn árgangur af. Góðtemplarar störfuðu og þá ekki síður málfundafélagið Bíldur sem stóð að mörgum framfaramálum, læknisembætti var stofnsett og bakarí hóf starfsemi. Þá var einnig starfandi stúkan Iðunn og ekki má gleyma Kútafélaginu en meðlimir þess sættu sig ekki við bindindissinnaða tilburði verslunarinnar á staðnum um tíma.
 
Í ársbyrjun 1902 var tekið í notkun sérstakt barnaskólahús á Bíldudal en það var í notkun allt til ársins 1966 er nýr barnaskóli hóf starfsemi. Barnaskólahúsið er eitt þeirra húsa sem enn standa frá þessum tíma og nefnist nú Gamli skólinn.
 
Bíldudalskirkja er vígð 2. desember 1906 en hún var í smíðum í tæp tvö ár og árið 1926 er nýr grafreitur byggður í landi Litlueyrar í stað grafreitsins í Otradal. Arkitekt kirkjunnar er Rögnvaldur Ólafsson.
 
'''Áframhaldið'''
 
Árið 1903 flytur Thorsteinsson frá Bíldudal til Danmerkur og árið 1905 selur hann Hannesi Bjarnasyni Stephensen, verslunarstjóra sínum, hlut í versluninni. Árið 1907 stofnaði Pétur ásamt fleirum svokallað „Milljónafélag“ og lagði hann til þess hlut sinn í Bíldudalseignum. Milljónafélagið hafði nokkur umsvif á Bíldudal, gerði þar m.a. út tvo togara og reisti stórt fiskþvottahús en í það var dælt sjó með vélarafli. Fljótt bar þó á samdrætti á Bíldudal og um áramótin 1913-1914 hætti Milljónafélagið starfsemi sinni þar. Þá keyptu þeir Reykhólabræður Hannes B. Stephensen og Þórður Bjarnason Bíldudalseignir og ráku verslun og útgerð með töluverðum blóma til ársins 1925.
 
'''Afturkippur'''
 
Árin 1915-1935 einkenndust af versnandi lífsafkomu. Afturkippur og stöðnun voru í atvinnulífi, mannvirki gengu úr sér, íshúsið var ekki starfrækt árum saman og aðalhús gömlu verslunarinnar brunnu 16. desember 1929. Bann þar verslunarhúsið, hið stóra íbúðarhús er Thorsteinsson lét byggja ásamt svokallaðri Gömlu búð - um 800 fm svæði.
 
Bjargráðafélag Arnfirðinga tók við eftir 1925 en verslunarstjóri þess var Ágúst Sigurðsson. Ágúst kaupir síðan Bíldudalseigir árið 1930 og rak verslun til 1938.
 
Þrátt fyrir erfiðleika og versnandi efnahag var ráðist í það stórvirki að virkja Hnúksá í Bíldudal. Árið 1918 er gangsett 50 kw rafstöð sem þótti stór á sínum tíma. Rafstöðin í Bíldudal er þriðja elsta almenningsveitan á Íslandi. Hnúksá rennur í Bíldudalsá sem fjarar út í Litlueyrarós. Í ánni hefur verið silungsveiði en í Jarðabókinni 1710 er hún sögð lítil og ekki finnst þar fiskur í dag.
 
Árið 1936 ræðst sveitarfélagið í að reisa og reka hraðfrystihús og tveim árum síðar var kaupfélag stofnað.
 
'''Endurreisn'''
 
Árið 1938 kaupir Gísli Jónsson (1889-1970) alþingismaður Bíldudalseignir og átti staðinn þar til 1953 er hann með gjafabréfi afhenti Suðurfjarðahreppi lóðir þær og lendur er þá voru enn óseldar. Gísli rak verslun og útgerð á Bíldudal fram á miðjan fimmta áratuginn. Á þeim tíma reisti hann og rak m.a. rækjuvinnslu og fiskimjölsverksmiðju en hann var upphafsmaður Matvælaiðjunnar á Bíldudal sem framleiddi m.a. hinar frægu Bíldudals grænar baunir og Bíldudals handsteiktar kjötbollur.
 
Um 1940 hófust byggingar á túni Bíldudalseyrar, var því skipt niður í byggingalóðir og má segja að þá hafi lokið tilveru Bíldudalseyrar sem sjálfstæðrar jarðar.
 
Þessi ár voru tími endurreisnar og uppbyggingar í sögu Bíldudals en sú endurreisn fékk skjótan og hörmulegan endi með Þormóðsslysinu 18. febrúar 1943. Með vélskipinu Þormóði fórst nær tíundi hver íbúi Bíldudals - blómi staðarins.
 
'''Lýðveldiskauptún'''
Á tímabilinu 1950-1970 fór íbúum Bíldudals fækkandi og var það fyrst eftir þann tíma að ástandið fór batnandi með tilkomu nýrra báta og tækja.
Fiskvinnslan á Bíldudal starfaði af krafti á sjöunda og áttunda áratugnum og í nokkur ár var skuttogarinn Sölvi Bjarnason gerður út til veiða frá Bíldudal. Nú hin síðari ár hefur landvinnsla á fiski aðallega snúist um söltun og þurrkun og útgerð smábáta er stunduð.
Rækjuver hefur starfað með hléum og verslun hefur að mestu snúist um matvöru og helstu nauðsynjar. Nokkur smáfyrirtæki eru starfandi sem leggja upp úr þjónustu og smáiðnaði.
 
Bíldudalur má í mörgu muna sinn fífil fegri. Þar efldist verslun í krafti náttúrulegra aðstæðna og einokunar sem smám saman fjaraði út eftir því sem frelsi í verslun óx og góðar hafskipahafnir risu vítt um landið. Þá tók við tímabil fiskveiða og fiskverkunar, þéttbýli myndaðist á undraskömmum tíma, lýðurinn var frelsaður úr ánauð bænda, iðnaður komst á laggirnar og skáld sóttu jafnvel til hirðar, tímabil sem byggðist á útgerð og stóð alla 20. öldina en virðist hafa lokið í raun þegar stjórnsýsla landsins batt nýtingu þessarar fornu auðlindar Arnfirðinga og þjóðarinnar að mestu við einstaklinga á nýjan hátt.
 
En Bíldudalur er þrátt fyrir það alveg jafn fagur og hlýr og heillandi í dag eins og hann var þegar fyrstu ábúendurnir settust þar að til að njóta lífs síns. Og það þarf vart meir en stundarfrið til að verða vitni að lífsbaráttu genginna kynslóða í dalnum ef hugur er á.
 
 
Heimildir fengnar af www.arnfirdingur.is
 
 
{{Íslenskur landafræðistubbur}}