„Elísabet Austurríkiskeisaraynja“: Munur á milli breytinga

Efni eytt Efni bætt við
Ný síða: {{konungur | titill = Keisaraynja Austurríkis | ætt = Wittelsbach-ætt | skjaldarmerki = Armoiries d Elisabeth de Baviere Imperatrice d'Autriche-...
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 18. maí 2020 kl. 22:23

Elísabet (24. desember 1837 – 10. september 1898), kölluð Sísí, var keisaraynja Austurríkis og drottning Ungverjalands sem eiginkona Frans Jósefs keisara frá 1854 til dauðadags. Elísabet var af Wittelsbach-ættinni og fæddist sem hertogaynja í Konungsríkinu Bæjaralandi.

Skjaldarmerki Wittelsbach-ætt Keisaraynja Austurríkis
Wittelsbach-ætt
Elísabet Austurríkiskeisaraynja
Elísabet
Ríkisár 24. apríl 1854 – 10. september 1898
SkírnarnafnElisabeth Amalie Eugenie
Fædd24. desember 1837
 München, Bæjaralandi
Dáin10. september 1898 (60 ára)
 Genf, Sviss
GröfKeisaragrafhýsinu í Vín
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Maximilian Jósef hertogi í Bæjaralandi
Móðir Lúðvíka af Bæjaralandi
EiginmaðurFrans Jósef 1.
BörnSoffía, Gisela, Rúdolf, María Valería

Fjölskylda og hjónaband

Elísabet var dóttir hertogans Maximilians í Bæjaralandi og prinsessunnar Lúðvíku af Bæjaralandi. Í móðurætt var hún systkinabarn Jósefínu Svíadrottningar.

Þegar Elísabet var sextán ára gömul, þann 24. apríl árið 1854, giftist hún náfrænda sínum, Frans Jósef Austurríkiskeisara. Með hjónabandinu varð Elísabet keisaraynja Austurríkis og árið 1867 var hún jafnframt krýnd drottning Ungverjalands.

Keisarynja

Elísabet var feimin og ófélagslynd stúlka sem hafði hlotið frjálslegt uppeldi. Hún átti því erfitt með að aðlagast ströngum hirðsiðunum við keisarahirðina í Vín, sem tengdamóðir hennar og frænka, erkihertogaynjan Soffía af Bæjaralandi, stýrði með harðri hendi.

Árin 1855 og 1856 eignaðist Elísabet fyrstu tvö börn sín, dæturnar Soffíu og Giselu. Dæturnar voru umsvifalaust teknar frá henni við fæðingu og settar í umsjá Soffíu, en Elísabet fékk síðar meiri umráð yfir börnum sínum. Árið 1857 heimsótti hún Ungverjaland ásamt eiginmanni sínum og börnum og varð afar náin ungversku þjóðinni. Í ferðinni veiktust báðar dætur þeirra, líklega af taugaveiki. Gisela náði sér en Soffía lést og Elísabet tók dauða hennar mjög nærri sér.

Árið 1858 eignaðist Elísabet son, Rúdolf, sem varð erfingi að keisarakrúnu föður sína. Fæðing Rúdolfs jók við áhrif Elísabetar innan hirðarinnar. Síðasta barn þeirra Frans Jósefs, dóttirin María Valería, fæddist árið 1868 í Búdapest.

Árið 1889 reið harmleikur yfir keisarafjölskylduna með Mayerling-atvikinu svokallaða, þegar Rúdolf fannst látinn ásamt ástkonu sinni, barónessunni Mary Vetsera. Almennt hefur verið talið að þau hafi framið sjálfsmorð saman, en einnig hefur verið stungið upp á að Rúdolf hafi myrt Mary og síðan fyrirfarið sér. Atvikið varð að alþjóðlegu hneykslismáli og vóg þungt á Elísabetu það sem hún átti eftir ólifað.

Elísabet ferðaðist mikið og var sjaldan í Vín með eiginmanni sínum. Þau áttu þó í góðu sambandi og skrifuðust mikið á á efri árum. Keisaraynjan heimsótti gjarnan Cap Martin í frönsku rivíerunni, Sanremo í ítölsku rivíerunni, Genfarvatn í Sviss, Korfú í Grikklandi og Bad Ischl í Austurríki, þar sem keisarahjónin dvöldu gjarnan á sumrin. Hún ferðaðist einnig til staða sem evrópskt kóngafólk fór sjaldan til, til dæmis Marokkó, Alsír, Möltu, Tyrkjaveldis og Egyptalands. Ári eftir dauða Rúdolfs lét Elísabet reisa höllina Akilleion á Korfú, til heiðurs grísku hetjunnar Akkillesar.

Elísabet hafði orð á sér sem ein fegursta kona síns tíma og hlúði mjög að útliti sínu. Hún var með langt hár sem náði niður að fótum hennar og varði mörgum klukkustundum á hverjum morgni við að greiða því. Hárgreiðslukona hennar, Franziska Feifalik, var alltaf með henni í för á ferðalögum hennar. Elísabet notaði gjarnan tíma sinn á ferðalagi til þess að læra ný tungumál eins og frönsku, ensku, ungversku og grísku.

 
Fréttateikning af morðinu á Elísabetu keisaraynju.

Árið 1898 ákvað Elísabet að ferðast undir dulnefni til Genfar í Sviss þrátt fyrir viðvaranir um að lífi hennað kynni að vera ógnað þar.[1] Eftir að komið var til borgarinnar fór Elísabet þann 10. september á göngu um götur Genfar í för með greifynjunni Irmu Sztáray de Sztára et Nagymihály. Á göngunni réðst ítalski stjórnleysinginn Luigi Lucheni á keisaraynjuna og stakk hana til bana með hníf.[2] Lucheni hafði í upphafi ætlað sér að myrða Lúðvík Filippus Róbert, hertogann af Orléans. Þegar hann frétti að hertoginn væri farinn frá borginni en að keisaraynjan vær þar stödd ákvað hann að myrða hana til þess að senda pólitísk skilaboð.[3]

Heimildir

  • Palmer, Alan. Twilight of the Habsburgs: The Life and Times of Emperor Francis Joseph. New York: Weidenfeld & Nicolson, 1995.
  • Van der Kiste, John. Emperor Francis Joseph: Life, Death and the Fall of the Habsburg Empire. Stroud, England: Sutton, 2005.
  • Schad, Martha,Kaiserin Elisabeth und ihre Töchter. München, Langen Müller, 1998

Tilvísanir

  1. Bowers Bahney, Jennifer, Stealing Sisi's Star: How a Master Thief Nearly Got Away with Austria's Most Famous Jewel, McFarland & Co., 2015.
  2. Newton, Michael. „Elisabeth of Austria (1837-1898)“. Famous Assassinations in World History: An Encyclopedia [2 volumes]. ABC-CLIO. bls. 132. ISBN 978-1610692854.
  3. De Burgh, Edward Morgan Alborough (1899). Elizabeth, empress of Austria: a memoir. J.B. Lippencott Co. bls. 326–327.