„Syngman Rhee“: Munur á milli breytinga

1. forseti Suður-Kóreu (1875-1965)
Efni eytt Efni bætt við
Ný síða: {{Forsætisráðherra | nafn = Syngman Rhee <br/> 리승만 | búseta = | mynd = Rhee Syng-Man in 1956.jpg | myndastærð = | myndatexti = | tit...
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 28. apríl 2018 kl. 03:19

Syngman Rhee (26. mars 1875 – 19. júlí 1965) var suður-kóreskur stjórnmálamaður. Hann var fyrsti forseti bráðabirgðarstjórnar Kóreu á meðan hann var í útlegð í Sjanghæ, og síðan fyrsti forseti Lýðveldisins Kóreu, eða Suður-Kóreu, frá 1948 til 1960.

Syngman Rhee
리승만
Forseti Suður-Kóreu
Í embætti
24. júlí 1948 – 26. apríl 1960
Persónulegar upplýsingar
Fæddur26. mars 1875
Haeju, Hwanghae, Kóreu (nú Norður-Kóreu)
Látinn19. júlí 1965 Honolulu, Havaí
StjórnmálaflokkurFrjálslyndi flokkurinn
MakiSeungseon Park (1890–1910), Francesca Donner (1934–1965)
HáskóliGeorge Washington-háskóli, Harvard-háskóli og Princeton-háskóli
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Stuttu áður en bandamenn bundu enda á hernám sitt í Japan með San Francisco-sáttmálanum árið 1951, lýsti Rhee yfir útþenslu á landhelgi Kóreu út að endumörkum sem urðu kölluð „Syngman Rhee-línan“. Rhee var við stjórn Suður-Kóreu í þrjú kjörtímabil sem einkenndust mjög af spennu kalda stríðsins. Bandaríkjamenn studdu stjórn Rhee þar sem hann var andkommúnisti. Rhee fór fyrir stjórn Suður-Kóreumanna í Kóreustríðinu. Stjórn Rhee varð æ gerræðislegri með árunum og vinsældir hans liðu fyrir það. Stjórnartíð hans lauk í fjöldamótmælum eftir umdeildar kosningar. Rhee flúði úr landi og lést í útlegð í Honolulu á Havaí. Á valdaárum sínum lét Rhee taka fjölda grunaðra kommúnista af lífi án dóms og laga.

Æviágrip

Rhee fæddist í bænum Haeju í héraðinu Hwanghae, sem nú er hluti af Norður-Kóreu. Hann var afkomandi Li-konungsættarinnar.[1] Fjölskylda Rhee var rík og hafði því ráð á að senda hann í nám til Bandaríkjanna, þar sem hann gekk í George Washington-háskóla, Harvard-háskóla og Princeton-háskóla, þaðan sem hann útskrifaðist með doktorsgráðu í heimspeki.

Rhee gerðist meðlimur í þjóðernishreyfingum og fékk að dúsa í fangelsi frá 1897 til 1904. Árið 1919, þegar heimaland Rhee var komið undir járnhæl japanska keisaraveldisins, gerðist Rhee leiðtogi útlagastjórnar Kóreu í Sjanghæ. Sem slíkur reyndi hann að vinna sér alþjóðlegan stuðning fyrir sjálfstæði Kóreu. Árið 1945, eftir ósigur Japans í seinni heimsstyrjöldinni, sneri Rhee heim til Kóreu í einkaflugvél MacArthurs hershöfðingja.[2] Með stuðningi Bandaríkjamanna var Rhee kjörinn forseti Lýðveldisins Kóreu árið 1948. Hann setti á fót alræðisstjórn með blessun Bandaríkjamanna.

Árið 1948 þurfti stjórn Syngman Rhee að kveða niður bændauppreisn á eyjunni Jeju. Um 30.000 til 60.000 eyjarskeggja voru drepin af stjórnarhernum í átökunum.[3] Í byrjum sjötta áratugsins lét Rhee handtaka um 30.000 kommúnista. Um 300.000 manns til viðbótar voru teknir höndum og settir í „endurhæfingarhóp“ sem kallaðist Bodo-samtökin. Næsta júní, þegar kommúnistar úr norðri gerðu innrás í Suður-Kóreu og Kóreustríðið hófst, lét Rhee taka meðlimi Bodo-samtakanna af lífi þegar suður-kóreskir hermenn neyddust til að hörfa af svæðinu.[3]

Kóreustríðið, sem stóð frá 1950 til 1953, endaði með skiptingu Kóreuskaga. Syngman Rhee var endurkjörinn forseti árin 1952, 1956 og 1960. Á stjórnartíð sinni kom hann í gegn nokkrum umbótum, sérstaklega í menntamálum og á eignarrétti. Stjórnarfar Rhee var hins vegar mjög gerræðislegt og eftir að grunur á kosningasvindli varð sterkari árið 1960 brutust út fjöldamótmæli sem neyddu hann til að yfirgefa landið. Hann flúði til Havaí og bjó þar til dauðadags.

Tilvísanir

  1. Encyclopaedia Universalis, t. 20, París, Encyclopaedia Universalis France, 1975, bls. 1861.
  2. Bruce Cumings, The Korean War: a History, Modern Library Edition, 2010, bls. 106.
  3. 3,0 3,1 „South Korea owns up to brutal past - World - smh.com.au“. 15. nóvember 2008.