„Al Thani-málið“: Munur á milli breytinga

Efni eytt Efni bætt við
Ný síða: '''Al Thani-málið''' var umfangsmikið efnahagsbrotamál sem rekið var fyrir íslenskum dómstólum í kjölfar bankahrunsins 2008. Málið höfða...
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 19. febrúar 2015 kl. 17:13

Al Thani-málið var umfangsmikið efnahagsbrotamál sem rekið var fyrir íslenskum dómstólum í kjölfar bankahrunsins 2008. Málið höfðaði Sérstakur saksóknari með ákæru gegn fjórum fyrrum stjórnendum og hluthöfum Kaupþings banka hf., þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings, Sigurði Einarssyni stjórnarformanni Kaupþings, Ólafi Ólafssyni, einum aðaleiganda Kaupþings, og Magnúsi Guðmundssyni, forstjóra Kaupþings í Lúxemborg. Málið snerist um kaup félags í eigu sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani frá Katar á 5,01% hlut í Kaupþingi banka sem fram fóru 22. september 2008 og voru kynnt í fjölmiðlum sama dag. Eftir að bankinn féll og skilanefnd var sett yfir hann 8. október 2008 vaknaði grunur um að viðskiptin hefðu verið annars eðlis en gefið hafði verið í skyn í yfirlýsingum bankans og stjórnenda hans. Al-Thani hafði ekki lagt bankanum til nýtt fé með kaupunum heldur voru þau alfarið fjármögnuð með lánum frá bankanum sjálfum sem veitt voru í gegnum aflandsfélög. Hreiðar og Sigurður voru ákærðir fyrir umboðssvik og Ólafur og Magnús fyrir hlutdeild í umboðssvikum vegna lána bankans til aflandsfélaga sem veitt voru án trygginga og án samþykkis lánanefnda bankans. Allir voru þeir ákærðir vegna markaðsmisnotkunar með því að hafa staðið að viðskiptafléttunni og með því að hafa gefið opinberlega rangar og villandi yfirlýsingar um eðli viðskiptanna í því skyni að hafa áhrif á eftirspurn eftir hlutabréfum bankans á verðbréfamarkaði.

Málinu lauk með dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2015 þar sem allir ákærðu voru sakfelldir. Hreiðar Már var sakfelldur í öllum ákæruliðum og dæmdur til 5 og hálfs árs fangelsis, Sigurður var sakfelldur samkvæmt ákæru hvað varðar markaðsmisnotkun en fyrir hlutdeild í umboðssvikum og dæmdur til 4 ára fangelsis. Ólafur var sakfelldur vegna markaðsmisnotkunar en sýknaður í ákæruliðum varðandi umboðssvik og dæmdur ti 4 og hálfs árs fangelsis og Magnús var sakfelldur í öllum ákæruliðum og dæmdur til 4 og hálfs árs fangelsis. Málið var á meðal umfangsmestu sakamála sem rekin hafa verið á Íslandi og dómarnir þeir þyngstu sem fallið hafa um efnahagsbrot.