„Johannes Scolvus“: Munur á milli breytinga

Efni eytt Efni bætt við
Navaro (spjall | framlög)
Ný síða: thumb|right|Pólverjar vilja eigna sér Scolvus og hafa reist honum styttu í Stettin. '''Johannes Scolvus''' eða '''Jón Skolp''' var sæ...
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 23. mars 2012 kl. 00:54

Johannes Scolvus eða Jón Skolp var sæfari og landkönnuður á síðari hluta 15. aldar. Óvíst er hverrar þjóðar hann var; líklegast er talið að hann hafi verið danskur eða norskur en hann hefur einnig verið katalónskur, velskur eða pólskur og því hefur líka verið haldið fram að hann hafi verið Íslendingur og heitið Jón Skúlason. Annars er eftirnafnið ýmist skrifað Scolnus, Scoluus, Scolus, Szkolny, Kolno eða Skolvsson.

Pólverjar vilja eigna sér Scolvus og hafa reist honum styttu í Stettin.

Hans er getið í ýmsum heimildum en þær eru allar ritaðar löngu eftir að hann á að hafa verið uppi og það hefur jafnvel verið dregið í efa að hann hafi verið til. Þeim heimildum sem nefna hann ber hins vegar saman um að hann hafi siglt til einhverra landa við norðvestanvert Atlantshaf, Grænlands eða jafnvel meginlands Norður-Ameríku, og ef svo er hefur hann komið þangað fyrir daga Kólumbusar.

Heimildir og tilgátur um Scolvus

Norski fræðimaðurinn Sofus Larsen taldi að Scolvus hefði verið leiðsögumaður eða stýrimaður leiðangurs sem sagt er að Kristján 1. Danakonungur hafi sent um 1473 til að kanna Grænland og önnur lönd í norðri. Leiðangurinn var þýsk-danskur en kostaður af Portúgölum að einhverju leyti og portúgölsku landkönnuðirnir João Vaz Corte-Real og Álvaro Martins voru með í för. Foringjar leiðangursins voru hins vegar þeir Diðrik Píning, síðar hirðstjóri á Íslandi, og félagi hans Hans Pothorst.[1] Larsen taldi að leiðangurinn hefði siglt af stað frá Björgvin, farið til Íslands og Grænlands og að lokum fundið Terra do Bacalhau, Þorskaland, sem liklega hefði verið Nýfundnaland eða Labrador.

Á hnattlíkani sem kortagerðamaðurinn Gemma Frisius gerði 1536 er letrað á svæðið milli Grænlands og Labrador að þangað hafi Daninn Joes Scoluss komið 1476 og hitt þar fyrir þjóð sem nefnd er Quij. Í spænskri bók sem út kom 1553 segir um Labrador að þangað hafi menn komið frá Noregi undir leiðsögn Joan Scoluo. Í enskri heimild frá 1575 er talað um að John Scolus, stýrimaður frá Danmörku, hafi siglt á þessar slóðir 1476. Á ensku korti frá 1582 er teiknað land norðvestan við Grænland og á það skrifað Jac. Scolvus Croetland. Í hollenskri heimild frá 1597 er sagt að Johannes Scoluus Polonus (Pólverji) hafi komið til Labrador og Estotilands. Meðal annars á þeim grundvelli vilja Pólverjar eigna sér Scolvus, sem þeir segja hafa heitið Jan z Kolna. Þess hefur þó verið getið til að Polonus sé mislestur á piloto (stýrimaður) í eldri heimild. Fleiri heimildir nefna Scolvus en engar samtímaheimildir hafa fundist sem geta hans.

Tilvísanir

  1. [1] Morgunblaðið, 21. október 1995.

Heimildir

  • „„Nokkur orð um bók Tryggve J. Oleson, Early Voyages and Northern Approaches." Sjómannablaðið Víkingur, 1. tbl. 1966“.
  • „„Kólumbus landneminn síðari." Morgunblaðið, 15. október 1967“.
  • Dictionary of Canadian Biography Online. Skoðað 23. mars 2012“.