Katrín Halldóra Sigurðardóttir

Katrín Halldóra Sigurðardóttir (f. 4. júlí 1989) er íslensk leikkona. Hún vakti mikla athygli er hún lék söngkonuna Ellý Vilhjálms í söngleiknum Ellý sem sýndur var í Borgarleikhúsinu frá 2017-2019.

Katrín ólst upp í Mosfellsbæ til tíu ára aldurs en þá flutti hún ásamt fjölskyldu sinni til Neskaupsstaðar. Foreldrar hennar eru Sigurður Rúnar Ragnarsson sóknarprestur í Neskaupsstað og Ragnheiður Kristín Hall sem starfar á skrifstofu Síldarvinnslunnar. Katrín á tvö eldri systkini sem bæði eru lögfræðingar. Hún er gift Hallgrími Jóni Hallgrímssyni skógarhöggsmanni hjá Reykjavíkurborg og trommuleikara í hljómsveitinni Sólstafir. Þau eiga einn son fæddan árið 2020 og einnig á Katrín stjúpson.

Katrín Halldóra stundaði söngnám í Danmörku og var söngnemandi á djass- og rokkbraut í Tónlistarskóla FÍH. Hún útskrifaðist sem leikkona frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2015. Að lokinni útskrift lék hún um tíma í Þjóðleikhúsinu, m.a. í Hróa Hetti en varð síðar fastráðin leikkona í Borgarleikhúsinu til ársins 2021[1] er hún gekk aftur til liðs við Þjóðleikhúsið.[2]

Hún hefur m.a. leikið í Ófærð (2015), kvikmyndinni Lof mér að falla (2018) og í Áramótaskaupum 2016 og 2018.[3]

Ellý breyta

Þekktasta hlutverk Katrínar er án efa hlutverk söngkonunnar Ellýjar Vilhjálms í söngleiknum Ellý sem frumsýndur var 18. mars 2017. Sýningin sló aðsóknarmet í Borgarleikhúsinu frá 2017-2019 og var sýnd alls 220 sinnum fyrir 105.000 áhorfendur.[4] Katrín fékk mikið lof fyrir hlutverk sitt og þótti jafnframt sláandi lík Ellý Vilhjálms. Silja Björk Huldudóttir leikhúsgagnrýnandi Morgunblaðsins sagðist ekki eiga „nógu sterkt orð til að lýsa magnaðri túlk­un Katrín­ar á Elly, annað en að hér er aug­ljóst að stjarna er fædd.“[5] Katrín hlaut Íslensku sviðslistaverðlaunin Grímuna sem söngkona ársins árið 2017 fyrir hlutverk sitt sem Ellý.[6]

Tilvísanir breyta

  1. Visir.is, „Verð alltaf sveitastelpa“ (skoðað 5. janúar 2021)
  2. Visir.is, „Katrín Halldóra til liðs við Þjóðleikhúsið“ (skoðað 8. júní 2021)
  3. imdb.is, „Katrín Halldóra Sigurðardóttir“ (skoðað 5. janúar 2021)
  4. Visir.is, „Áhorfendametið fallið og lokasýning í kvöld: „Ég held að Ellý verði alltaf nálægt manni““ (skoðað 5. janúar 2021)
  5. Silja Björk Huldudóttir, „Stjarna er fædd“, Mbl.is (skoðað 5. janúar 2021)
  6. Mbl.is, „11 sýningar verðlaunaðar“ (skoðað 5. janúar 2021)