Kóngsstaðir er bær í Skíðadal um 20 km frá Dalvík. Bærinn stendur undir Kóngsstaðafjalli, þar ber Rauðuhnjúka hæst. Utan bæjar er Kóngsstaðaháls, skógi vaxinn og berjaland gott. Til vesturs skerst Kóngsstaðadalur/Þverárdalur inn á milli hárra fjallanna. Um hann rennur Þverá til Skíðadalsár á landamerkjum jarðarinnar. Næsti bær þar utan við er Þverá í Skíðadal. Á Kóngsstaðadal er Gloppuhnjúkur þekkt kennileiti. Þar er einnig Gloppudalur og Gloppuvatn. Innst á Kóngsastaðadal er Þverárjökull, einn af stærri jöklum á Tröllaskaga. Dalurinn tilheyrir Kóngsstöðum.

Kóngsstaðir í Skíðadal. Fé úr Sveinsstaðaafrétt 2011. Kóngsstaðaháls í baksýn en yfir honum gnæfa Hamrahnjúkur t.v. og Stóllinn t.h.)

Kóngsstaðir er gömul bújörð og var vel fallin til sauðfjárbúskapar. Hennar er fyrst getið í máldaga Vallakirkju frá 1318 og eru þar nefndir Konungsstaðir. Þá var jörðin eign Vallakirkju og var það lengi síðan.[1] Á seinni hluta 19. aldar var hún ásamt Hverhóli í eigu kirkjunnar á Kvíabekk í Ólafsfirði. Seinna varð hún bændaeign. Síðustu ábúendur á Kóngsstöðum voru Óskar Júlíusson og Snjólaug Aðalsteinsdóttir. Jörðin er nú í eigu afkomenda þeirra.

Tilvísanir breyta

  1. Stefán Aðalsteinsson (1976). Svarfdælingar. Iðunn, Reykjavík. bls. 160.