John Steinbeck

bandarískur rithöfundur (1902-1968)

John Ernst Steinbeck yngri[1][2] (27. febrúar 190220. desember 1968) var bandarískur rithöfundur. Hann er einna þekktastur fyrir skáldsöguna Þrúgur reiðinnar (1939) sem fékk Pulitzer verðlaunin ári seinna, 1940. Önnur þekkt verk eftir hann eru Mýs og menn (1937) og Austan Eden (1952). Skáldsögur hans voru raunsæjar og gagnrýnar og fjölluðu oft um fátækt verkafólk. Hann var höfundur samtals 27 bóka, þar af skrifaði hann 16 skáldsögur og 5 smásagnasöfn. John Steinbeck hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1962.

John Steinbeck
John Steinbeck
John Steinbeck í Svíþjóð 1962 þegar hann tók á móti Nóbelsverðlaununum.
Fæddur: 27. febrúar 1902
Salinas, Kaliforníu
Látinn:20. desember 1968
New York
Starf/staða:Rithöfundur
Þjóðerni:Fáni Bandaríkjana Bandarískur
Frumraun:Cup of Gold
Undirskrift:

Æviágrip

breyta

Uppeldisár

breyta
 
Æskuheimili John Steinbeck. 132 Central Avenue, Salinas, Kaliforníu

John Ernst Steinbeck yngri fæddist 27. febrúar 1902 í Salinas, Kaliforníu. Hann var af þýskum og írskum ættum. Afi John Steinbeck, Johann Adolf Großsteinbeck stytti ættarnafnið í Steinbeck þegar hann fluttist búferlum til Bandaríkjanna. Bóndabær fjölskyldunnar í Heiligenhaus, Mettmann, Norðurrín-Vestfalíu, Þýskalandi heitir enn í dag Großsteinbeck.

Faðir John, John Ernst Steinbeck eldri vann sem fjársýslumaður í Monterey sýslu. Móðir hans hét Olive Hamilton og var kennari. Foreldrar hans voru trúuð og kirkjurækin. Móðir John deildi ástríðu hans á lestri og skrift og las oft og tíðum upp úr Biblíunni fyrir hann frá unga aldri. Áhrif trúarlegs bakgrunns má sjá víða í ritum hans. Í inngangi einu verka hans sagði John Steinbeck: „Some literature was in the air around me. The Bible I absorbed through my skin. My uncles exuded Shakespeare, and Pilgrim's Progress was mixed with my mother's milk.”[3] Hann bjó í litlu dreifbýlu bæjarfélagi í gróðursælu umhverfi sem var upphaflega við útmörk landnámsbyggðar. Á sumrin vann hann á nálægum bóndabæjum og síðar með flökkufólki á Spreckels búgarðinum. Þar kynntist hann harðari ásýndum flökkulífsins og myrkari hliðum mannlegs eðlis sem komu fram í mörgum bóka hans, þ.á.m. Mýs og menn. Steinbeck var iðinn við að kanna nánasta umhverfi sitt[4] en hann notaði heimaslóðirnir oft sem sögusvið.

Fyrsta hjónaband og börn

breyta

Árið 1919 útskrifaðist Steinbeck frá framhaldsskólanum í Salinas og sótti Stanford-háskóla með hálfum hug þar til hann hætti án þess að útskrifast 1925. Hann ferðaðist til New York til að eltast við draum sinn að gerast rithöfundur og framfleytti sér með ýmsum óhefðbundnum störfum. Honum mistókst að fá verk sitt útgefið og snéri við til Kaliforníu þremur árum seinna og vann um tíma í fiskeldi og sem leiðsögumaður í Tahoe City í Kaliforníu. Á því tímabili kynntist hann fyrri konu sinni, Carol Henning.[5][6][7] Þau giftust í janúar 1930.

Mestan hluta kreppunnar miklu bjuggu Carol og Steinbeck í litlu húsi sem faðir hans átti í Pacific Grove, Kaliforníu. Eldri fjölskyldumeðlimir útveguðu honum frían eldivið, pappír fyrir handritin hans og nauðsynleg peningalán seinni hluta 1928 sem gaf Steinbeck svigrúm til að hætta íþyngjandi lagervinnu í San Francisco og einbeita sér að sinni iðn.[7]

Árið 1935 kom út Tortilla Flat, fyrsta heppnaða skáldsagan hans sem kom honum úr tiltölulegri fátækt og gaf honum færi á að byggja sumarhús í Los Gatos. Árið 1940 fylgdi Steinbeck vini sínum og áhrifavaldi Ed Ricketts sjávarlíffræðingi í sjóleiðangur um Kaliforníuflóa til að safna lífrænum sýnum. Bókin The Log from the Sea of Cortez er byggð á þessum leiðangri. Carol slóst með í för en þau áttu í erfiðleikum í hjónabandinu á þessum tíma og sóttu um skilnað undir lok ársins 1941 en á þeim tíma var Steinbeck að vinna við handritið að bókinni.[7]

Annað hjónaband

breyta

Í mars árið 1943 gekk skilnaður Steinbeck og Carol endanlega í gegn og seinna í sama mánuði giftist hann Gwyndolyn „Gwyn“ Conger.[8] Þau eignuðust tvö börn sem eru einu afkomendur Steinbeck – Thomas Myles Steinbeck (fæddur 1944) og John Steinbeck IV (1946-1991). Árið 1943 vann Steinbeck sem stríðsfréttamaður í seinni heimsstyrjöldinni en ári síðar særðist hann af völdum sprengjubrota og hætti í kjölfarið störfum og snéri heim.

Árið 1947 ferðaðist Steinbeck til Sovétríkjanna í fyrsta skiptið ásamt þekktum ljósmyndara, Robert Capa. Þeir heimsóttu Moskvu, Kíev, Tíblisi, Batumi og Stalíngrad og voru með fyrstu vestrænu íbúunum til að heimsækja marga hluta Sovétríkjanna eftir kommúnistabyltinguna. Steinbeck skrifaði um reynslu þeirra í bókinni A Russian Journal sem var myndskreytt með ljósmyndum Robert Capa. Bókin var gefin út 1948, sama ár og Steinbeck var kosinn inn í bandarísku listaakademíuna.

Í maí 1948 snéri Steinbeck við til Kaliforníu eftir að náin vinur hans, Ed Ricketts, lenti í alvarlegu slysi þar sem lest keyrði á bílinn hans. Ricketts dó nokkrum klukkutímum fyrir komu Steinbeck. Í þessari sömu ferð bað Gwyn, konan hans, um skilnað. Steinbeck reyndi að telja henni hughvarf en skilnaðurinn gekk endanlega í gegn í ágúst sama ár. Samkvæmt eigin frásögn gekk Steinbeck í gegnum slæmt þunglyndi það sem eftir lifði árs.

Síðustu ár og dauði

breyta

Í júní 1949 hitti Steinbeck Elaine Scott, leikhússtjóra, á veitingastað í Carmel, Kaliforníu. Steinbeck og Scott giftust í desember 1950 innan við viku eftir að Elaine Scott hafði gengið frá skilnaði við leikarann Zachary Scott. Þetta var þriðja hjónaband Steinbeck sem hélst allt þar til hann lést 1968.[9] Árið 1966 ferðaðist Steinbeck til Tel Aviv til að heimsækja samyrkjubú stofnað í Ísrael af afa hans. John Steinbeck lést úr hjartaáfalli í New York 20. Desember 1968. Hann var 66 ára gamall og hafði reykt stóran hluta ævinnar. Krufning staðfesti að dánarorsökin væri kransæðastífla. Líkið var brennt samkvæmt hans eigin ósk og ker sem innihélt ösku hans var á endanum jarðsett þann 4. Mars 1969 í fjölskyldugrafreitnum í kirkjugarðinum í Salinas þar sem foreldrar hans voru grafnir. Þriðja konan hans, Elaine, var jarðsett á sama stað árið 2004.[10] Stuttu fyrir dauða sinn hafði Steinbeck skrifað til síns læknis að hann fyndi sterkt fyrir því að ekkert tæki við af líkamlegum dauða og að það þýddi endirinn á tilvistinni.[10]

Ritferill

breyta

Fyrsta skáldsaga John Steinbeck hét Cup of Gold og var gefin út 1929. Hún byggir lauslega á æviskeiði sjóræningjans Henry Morgan sem rommtegundin Captain Morgan heitir eftir. Bókin fjallar að mestu leyti um árás og rányrkju Henry Morgan á borgina Panama og leitin að konunni sem var fallegri en sólin en samkvæmt orðrómi átti hún heima þar.[9] Titill bókarinnar er skírskotun til Panamaborgar.

Eftir Cup of Gold skrifaði Steinbeck þrjú styttri verk á tímabilinu 1931 til 1933. The Pastures of Heaven, gefin út 1932, samanstóð af tólf samofnum sögum um dal nærri Monterey sem spænskur liðþjálfi uppgötvaði er hann var elta uppi indíánaþræla sem höfðu flúið úr ánauð. Árið 1933 gaf Steinbeck út The Red Pony, 100 blaðsíðna verk sem fjallaði um minningar hans af æskuslóðum.[9] Þriðja bókin To a God Unknown fylgir eftir lífi jarðareiganda og fjölskyldu hans í Kaliforníu. Bókin tekur á málefnum eins og hvernig trú hefur mismunandi áhrif á fólk og samband bóndans við jörðina sína.

Steinbeck hlaut fyrst almenna hylli fyrir Tortilla Flat (1935).[9] Bókin er um líf heimilis- og stéttarlausa ungra manna í Monterey eftir fyrri heimsstyrjöldina rétt fyrir áfengisbannið í Bandaríkjunum. Rótlaust líferni sögupersónanna sem snúa baki við hefðbundnu lífi bandarísks samfélags gengur út á vín og smáþjófnaði þar sem hópsamstaðan virðist eina dyggðin. Gerð var samnefnd mynd eftir bókinni 1942 þar sem Spencer Tracy, Hedy Lamarr og John Garfield, vinur Steinbeck, léku aðalhlutverkið.[11]

Nokkrar af næstu bókum Steinbeck fjölluðu um fólk sem hafði orðið illa út úr þurrkum með tilheyrandi uppskerubresti á svokölluðu Dust Bowl tímabili rétt eftir kreppuna miklu sem leiddi til mikilla fólksflutninga bænda og verkafólks til Kaliforníu í leit að betra lífi. In Dubious Battle, Mýs og menn og Þrúgur reiðinnar eru dæmi um Dust Bowl skáldsögur sem Steinbeck skrifaði. Mýs og menn og Þrúgur reiðinnar nutu mikilla vinsælda.[9]

Mýs og menn var sett á svið í New York og hlaut mikið lof þar sem Broderick Crawford lék Lennie, þroskaheftan en líkamlega kraftmikinn verkamann og Wallace Ford lék félaga hans, George. Steinbeck skrifaði handritið að verkinu en neitaði alla tíð á meðan á sýningum stóð að sjá flutning þess í New York og útskýrði fyrir leikstjóranum, George S. Kaufman, að í huga hans væri leikritið fullkomið og að horfa á flutning þess á leiksviði gæti aðeins valdið honum vonbrigðum. Steinbeck átti seinna eftir að skrifa tvö önnur leikverk, The Moon is Down og Burning Bright.

Bíómynd var gerð eftir Mýs og menn tveimur árum eftir útgáfu bókarinnar þar sem Lon Chaney lék Lennie og Burgess Meredith lék George.[12] Myndin fékk fjórar óskarstilnefningar. Steinbeck fylgdi vinsældunum eftir með Þrúgur reiðinnar árið 1939 en hún byggðist á fréttagreinum sem hann hafði skrifað í San Francisco. Skáldsagan fékk Pulitzer verðlaunin og hefur af mörgum verið talið hans best verk. Gerð var eftirtektarverð mynd eftir bókinni sem John Ford leikstýrði. Henry Fonda lék í henni og fékk hann óskarstilnefningu sem besti leikarinn í aðalhlutverki.[13]

Þrátt fyrir vinsældir bókarinnar var hún umdeild vegna pólitískra skoðanna Steinbeck, gagnrýnin sýn hans á kapítalisma og samúð hans á bágborinni stöðu verkafólks. Þetta leiddi til andstöðu gegn höfundinum, sérstaklega á heimaslóðum. Bókin var sögð óviðeigandi og lýsa kringumstæðum á heimahögum á villandi hátt sem leiddi til þess að hún var bönnuð í almenningsskólum og bókasöfnum á heimaslóðum í ágúst 1939. Banninu var aflétt í janúar 1941.[14]

Vegna þessara hörðu viðbragða skrifaði Steinbeck í kjölfarið: „The vilification of me out here from the large landowners and bankers is pretty bad. The latest is a rumor started by them that the Okies hate me and have threatened to kill me for lying about them. I'm frightened at the rolling might of this damned thing. It is completely out of hand; I mean a kind of hysteria about the book is growing that is not healthy.“

Íslenskar þýðingar og útgáfuár á Íslandi

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. French, Warren G. (1975). John Steinbeck. Twayne Publishers, bls 20.
  2. St. Pierre, Brian (1983). John Steinbeck, the California years. Chronicle Books, bls 11.
  3. Steinbeck, J. (1976). The Acts of King Arthur and His Noble Knights, bls 11.
  4. Timmerman, J. (1995). Introduction to John Steinbeck, The Long Valley, Penguin Publishing.
  5. Novels for Students (2012). Gale Cengage.
  6. DeMott, R. Introduction to The Grapes of Wrath (1992), Penguin Publishing.
  7. 7,0 7,1 7,2 Benson, Jackson J., The True Adventures of John Steinbeck, Writer (1984), The Viking Press.
  8. Fensch, Thomas (2002). Steinbeck and Covici Geymt 7 desember 2012 í Wayback Machine. The Story of a Friendship, New Century Books, bls 33.
  9. 9,0 9,1 9,2 9,3 9,4 Parini, J. John Steinbeck: A Biography (1996), Holt Publishing.
  10. 10,0 10,1 Shillinglaw, S., A Journey into Steinbeck's California (2006). Roaring Forties Press
  11. Internet Movie Database. IMDB - Tortilla Flat (1942)
  12. Internet Movie Database. IMDB - Of Mice and Men (1939)
  13. Internet Movie Database. IMDB - Grapes of Wrath (1940)
  14. Steinbecks works banned [1]
   Þetta æviágrip sem tengist Bandaríkjunum og bókmenntum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.