John Magufuli

5. forseti Tansaníu (1959–2021)

John Pombe Magufuli (29. október 1959 – 17. mars 2021) var tansanskur kennari og stjórnmálamaður sem var fimmti forseti Tansaníu frá árinu 2015 til dauðadags árið 2021.

John Magufuli
Forseti Tansaníu
Í embætti
5. nóvember 2015 – 17. mars 2021
ForsætisráðherraKassim Majaliwa
VaraforsetiSamia Suluhu
ForveriJakaya Kikwete
EftirmaðurSamia Suluhu
Persónulegar upplýsingar
Fæddur29. október 1959
Chato, Tanganjiku (nú Tansaníu)
Látinn17. mars 2021 (61 árs) Dar es Salaam, Tansaníu
ÞjóðerniTansanskur
StjórnmálaflokkurChama Cha Mapinduzi
MakiJaneth Magufuli
Börn3
HáskóliHáskólinn í Dar es Salaam (BS, MA, PhD)

Æviágrip breyta

Bakgrunnur breyta

Magufuli var kaþólskur.[1] Að loknu grunnskólanámi hóf Magufuli háskólamenntun í kennslufræði og tók lokapróf árið 1982 í raungreinakennslu með áherslu á efnafræði og stærðfræði.

Starfsferill breyta

Árin 1982 og 1983 var Magufuli efnafræði- og stærðfræðikennari við framhaldsskóla í Tansaníu. Hann gegndi herþjónustu frá 1983 til 1984. Frá 1985 til 1988 stundaði hann frekara framhaldnám í efnafræði- og stærðsfræðikennslu við Háskólann í Dar es Salaam. Magufuli vann sem iðnaðarefnafræðingur frá 1989 til 1995. Samhliða þeim störfum nam hann við háskólana í Dar Es Salaam og Salford og útskrifaðist með mastersgráðu í efnafræði.

Magufuli kvæntist grunnskólakennaranum Janeth Magufuli og eignaðist með henni þrjú börn.[2]

Á meðan Mugafali vann sem ráðherra í ríkisstjórn Tansaníu útskrifaðist hann síðar með doktorsgráðu í efnafræði frá Háskólanum í Dar es Salaam.

Stjórnmálaferill breyta

Magufuli var kjörinn á tansanska þingið í fyrsta sinn árið 1995 og gegndi upp frá því ýmsum ríkisembættum.[3] Á forsetatíð Benjamins Mkapa var Magufuli staðgengill vinnumálaráðherra frá 1995 til 2000 og tók síðan við sem vinnumálaráðherra árið 2005. Frá 6. janúar 2006 til 13. febrúar 2008 var Magufuli þróunar- og framkvæmdaráðherra og síðan landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra til 28. nóvember 2010. Síðan varð hann aftur vinnumálaráðherra til ársins 2015. Á þessum tíma hlaut hann viðurnefnið tingatinga eða „jarðýtan“.[4]

Magufuli var frambjóðandi stjórnarflokksins Chama Cha Mapinduzi (CCM) í forsetakosningum Tansaníu árið 2015 og vann sigur með 58 % atkvæða á móti frambjóðanda stjórnarandstöðunnar, fyrrum forsætisráðherranum Edward Lowassa. Hann sór embættiseið sem forseti Tansaníu þann 5. nóvember 2015.[5] Varaforseti Magufuli var Samia Suluhu.

Sem forseti gekk Magufuli hart fram gegn spillingu, frændhygli og bruðli með almannafé. Í desember 2015 lét hann til dæmis reka alla meðlimi í hafnarstjórn Tansaníu fyrir spillingu og vanhæfni. Eitt fyrsta embættisverk hans var að aflýsa hátíðarhöldum á þjóðhátíðardegi landsins til þess að hægt yrði að nýta fjármagnið til að berjast gegn kóleru. Skattsvikurum var veitt einnar viku friðhelgi til að upplýsa um skattaundanskot sín að eigin frumkvæði. Embættismenn í utanlandsförum fengu ekki lengur að fljúga á fyrsta farrými á kostnað ríkisins.[6]

Á almenningsfundi í september árið 2018 lét Magufuli þau orð falla að konur sem notuðu getnaðarvarnir væru „of latar“ til þess að sjá um fjölskyldu. Hann hvatti fólk til að sniðganga getnaðarvarnir og gaf í skyn að útbreiðsla þeirra væri verk útlendinga sem hefðu illt í huga gagnvart Tansönum.[7][8] Amnesty International og aðrir hópar gagnrýndu ummæli Magufuli.[9]

Stjórn Magufuli stóð fyrir ýmsum innviðaruppbyggingum, meðal annars byggingu nýrra járnbrauta, byggingu hafnar í Bagamoyo og nýs alþjóðaflugvallar í Dodoma.[10] Magufuli hélt áfram stefnu forvera síns, Jakaya Kikwete, um að nútímavæða lestakerfið með því að byggja lestarlínur í almennri sporbreidd um Austur- og Mið-Afríku.[11][12] Í janúar 2021 var kunngert að Magufuli hefði tryggt 1,32 milljarða Bandaríkjadala fjárstyrk frá Kína til að byggja brautarlínu milli Mwanza og Isaka.[13]

Viðbrögð stjórnar Magufuli við Covid-19-faraldrinum voru með óhefðbundnu móti. Magufuli dró í efa nytsemi lyfja og bólusetninga og breiddi út rangfærslur og samsæriskenningar um faraldurinn. Magufuli ráðlagði Tansönum að biðja til Guðs í stað þess að bera andlitsgrímur og hélt því síðar fram að bænir landsmanna hefðu bjargað Tansaníu undan faraldrinum.[14] Eftir 7. maí 2020 hætti Tansanía að birta Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni talningar á Covid-sýkingum og þann 8. júní staðhæfði Magufuli að Tansanía væri laus við veirusýkina.[15]

Dauði breyta

Magufuli lést í mars árið 2021 eftir að hafa gengist undir hjartameðferð stuttu áður.[16] Varaforsetinn Samia Suluhu tilkynnti að hann hefði látist úr hjartasjúkdómi[17] en stjórnarandstöðuleiðtoginn Tundu Lissu staðhæfði við keníska fjölmiðla að forsetinn hefði látist úr COVID-19.[14] Kenískir fjölmiðlar höfðu greint frá því að Magufuli hefði verið flogið á sjúkrahús í Naíróbí og gengist undir meðferð frá 7. til 11. mars.[18] Tveimur dögum eftir að tilkynnt var um dauða Magufuli var Samia Suluhu svarin í embætti sem nýr forseti Tansaníu.[19]

Tilvísanir breyta

  1. Basillioh Mutahi (2. nóvember 2020). „Tanzania President John Magufuli: The man who declared victory over coronavirus“. BBC News. Sótt 14. mars 2021.
  2. John Magufuli – Tanzania's 'Bulldozer' president in profile 30. október 2019 BBC). Skoðað 20. mars 2021.
  3. „Member of Parliament CV“ (enska). Þing Tansaníu. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. júlí 2015. Sótt 29. nóvember 2015.
  4. Isabel Pfaff: Der Kompromisslose. Süddeutsche Zeitung av 30. november 2018, s. 10.
  5. „Tanzania's Magufuli sworn in as president“ (eng). AFP. 5. nóvember 2015. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. nóvember 2020. Sótt 29. nóvember 2015.
  6. #WhatWouldMagufuliDo - ein Staatschef auf Sparkurs. tagesschau.de 9. desember 2015, skoðað 9. desember 2015
  7. „Tanzania's president says women using birth control are too 'lazy' to feed a family“. Independent. Sótt 6. oktober 2018.
  8. 'Don't use birth control,' Tanzania's President tells women in the country“. CNN. Sótt 6. oktober 2018.
  9. „Amnesty International condemns Tanzania's 'attack' on family planning“. CNN. Sótt 6. oktober 2018.
  10. Anita Anyango (4. desember 2020). „Top ongoing mega projects in Tanzania“. Construction Review Online (enska). Sótt 18. mars 2021.
  11. Michael Oduor (24. maí 2017). „Tanzania struggles to get bonds to finance standard gauge railway“. Africanews. Sótt 18. mars 2021.
  12. Hilda Mhagama (13. apríl 2017). „Tanzania: JPM Flags Off Standard Gauge Railway Project“. All Africa. Sótt 18. mars 2021.
  13. Dorothy Ndalu (11. janúar 2021). „Magufuli secures $1.32b China support for Tanzania SGR“. The East African. Sótt 18. mars 2021.
  14. 14,0 14,1 „Forseti Tansaníu látinn“. mbl.is. 17. mars 2021. Sótt 20. mars 2021.
  15. „Coronavirus: John Magufuli declares Tanzania free of Covid-19“ (enska). BBC News. 8. júní 2020. Sótt 20. mars 2021.
  16. „Tanzania President Magufuli dies of 'heart condition' (enska). France 24. 17. mars 2021. Sótt 20. mars 2021.
  17. Ævar Örn Jósepsson (18. mars 2021). „Tilkynnti andlát Tansaníuforseta vikum eftir hvarf hans“. RÚV. Sótt 20. mars 2021.
  18. „Tracking Magufuli's last moments, reports say he flew to Kenya“. AfricaNews. Sótt 20. mars 2021.
  19. Kjartan Kjartansson (19. mars 2021). „„Mamma" Samia fyrsta konan á forsetastóli í Tansaníu“. Vísir. Sótt 20. mars 2021.


Fyrirrennari:
Jakaya Kikwete
Forseti Tansaníu
(5. nóvember 201517. mars 2021)
Eftirmaður:
Samia Suluhu