Jaroslav Hašek

(Endurbeint frá Jaroslav Hasek)

Jaroslav Hašek (30. apríl 18833. janúar 1923) var tékkneskur rithöfundur, blaðamaður og bóhem, þekktastur fyrir skáldsögu sína um Góða dátann Svejk, sem honum tókst þó ekki að ljúka við.

Jaroslav Hašek
Jaroslav Hašek
Myndin er líklega tekin á árunum 1920-1922
Fæddur: 30. apríl 1883(1883-04-30)
Prag, Austurríki-Ungverjalandi
Látinn:3. janúar 1923 (39 ara)
Lipnice nad Sázavou, Tékklandi
Starf/staða:Rithöfundur, hermaður
Þjóðerni:Tékkneskur
Tegundir bókmennta:háðsádeila
Var áhrifavaldur:Joseph Heller, Bohumil Hrabal
Undirskrift:

Hašek var fæddur í Prag, sem þá tilheyrði Austurrísk-ungverska keisaradæminu. Foreldrar hans voru fátækir og hann ólst upp við kröpp kjör og rótleysi sem setti mark sitt á líf hans. Faðir hans dó af völdum ofneyslu áfengis þegar hann var þrettán ára og tveimur árum síðar þurfti hann að hætta í skóla en tókst þó síðar að ljúka verslunarprófi. Hann vann um tíma í banka og einnig sem hundasölumaður, sem hann gerði einmitt að starfi Svejks. Hann kaus þó helst að vinna við ritstörf og njóta þess frjálsræðis sem það veitti.

Árið 1906 gerðist hann anarkisti og varð ári síðar ritstjóri anarkistatímaritsins Komuna. Þetta varð til þess að lögreglan fylgdist vandlega með ferli hans og hann var handtekinn hvað eftir annað og hnepptur í fangelsi. Í upphafsköflum Svejks gerir hann einmitt gys að starfsaðferðum lögreglu keisaradæmisins þegar hún reynir að fanga andófsmenn í net sín.

Árið 1907 varð hann ástfanginn af stúlku sem hét Jarmila Mayerová en foreldrum hennar leist ekki á hann sem tengdason og þess vegna dró hann úr rótttækni sinni og reyndi að hafa viðurværi sitt af skriftum. Árið 1909 sendi hann frá sér 64 smásögur og gerðist líka ritstjóri tímarits um dýralíf en var fljótlega rekinn fyrir að birta greinar um ímynduð dýr sem hann hafði spunnið upp. Hann giftist Jarmilu 1910 en sambúð þeirra entist aðeins í þrjú ár.

Hašek var kvaddur í herinn eftir að fyrri heimsstyrjöldin hófst og eru margar persónur í Góða dátanum Svejk byggðar á fólki sem hann kynntist í stríðinu. Hann féll í hendur Rússa í september 1915 og var sendur í fangabúðir, þar sem hann var gerður að ritara fangabúðastjórans og sleppt úr haldi 1916 en var áfram í Rússlandi. Eftir októberbyltinguna 1917 gekk hann í flokk bolsévikka, var tekinn í Rauða herinn og varð undirforingi þar. Hann giftist líka öðru sinni (en var þó enn kvæntur Jarmilu). Hann sneri aftur til Prag 1920 en var úthrópaður af sumum sem föðurlandssvikari og tvíkvænismaður.

Persónan Svejk hafði fyrst komið fram í smásagnasafni sem Hašek sendi frá sér 1912 en það var ekki fyrr en í stríðinu sem góði dátinn fór að mótast í þá mynd sem síðar varð. Hašek hafði upphaflega ætlað að skrifa sex binda verk um Svejk en hann var farinn að heilsu þegar hann kom aftur heim til Tékklands, hafði fengið berkla í stríðinu og áratuga sukk og óhollt líferni hafði sett mark sitt á hann, hann var veikur og þjáðist af offitu, og undir það síðasta skrifaði henn ekki sjálfur, heldur las texann fyrir. Hann hafðist þá við í þorpinu Lipnice og þar dó hann í ársbyrjun 1923, 39 ára að aldri. Hann náði ekki að ljúka við fjórðu bókina (vinur hans gerði það) og fimmta og sjötta bókin sem hann hafði fyrirhugað voru aldrei skrifaðar.

Bækurnar fjórar eru yfirleitt gefnar út í einu lagi undir nafninu Ævintýri góða dátans Svejk í heimsstyrjöldinni en oftast er bókin þó bara kölluð Góði dátinn Svejk. Hún hefur verið þýdd á yfir sextíu tungumál og nýtur stöðugra vinsælda. Hún er ein fyrsta og jafnframt þekktasta skáldsagan sem skrifuð var gegn stríði og hernaðarbrölti en er jafnframt hörð ádeila á þjóðrembu og hrokafulla valdhafa. Hún er langþekktust allra verka Hašeks en auk hennar skrifaði hann meðal annars um 1500 smásögur.

Heimildir breyta

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Jaroslav Hašek“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. apríl 2011.
  • „Átti sögupersónan Svejk í "Góða dátanum Svejk" sér fyrirmynd eða er hún tómur skáldskapur höfundar?“. Vísindavefurinn.