Jón Sigurðsson (lögmaður)
Jón Sigurðsson (um 1565 – 26. maí 1635) var íslenskur lögmaður á 16. og 17. öld. Hann bjó á Reynistað í Skagafirði.
Jón var af Svalbarðsætt, sonur Sigurðar Jónssonar sýslumanns og klausturhaldara á Reynistað og konu hans Guðnýjar Jónsdóttur frá Stóru-Ökrum, sem var sonardóttir Gríms Jónssonar lögmanns. Hann var fyrst sýslumaður í Þingeyjarsýslu og eftir að faðir hans dó 1602 fékk hann Skagafjarðarsýslu. Vorið 1606 dó fððurbróðir hans, Jón lögmaður Jónsson, og var lögmannskosning á Alþingi um sumarið, raunar fyrir bæði lögmannsumdæmin því Þórður Guðmundsson var orðinn gamall og sagði af sér. Var Jón kosinn lögmaður norðan og sunnan en auk hans voru í kjöri þeir Ari í Ögri, Jón Magnússon eldri í Haga og Björn Benediktsson á Munkaþverá og var varpað hlutkesti milli þeirra, sem Jón vann.
Árið 1607 kom út konungsbréf þar sem lagt var fyrir lögmenn að flýta málum og láta Alþingi standa svo lengi að hægt væri að afgreiða mál, en ekki aðeins 1-2 daga eins og virðist hafa tíðkast á seinni hluta lögmannstíðar þeirra Þórðar og Jóns. Tveimur árum seinna kom annað konungsbréf þar sem landsmönnum var bannað að ausa skömmum yfir lögmenn þegar þeir væru að fara um og gegna skyldustörfum sínum.
Jón var settur af árið 1618 vegna misferlis í starfi og tengdist það kvennamálum hans. Um leið missti hann sýsluvöld. Árið 1622 fékk hann þó uppreisn hjá konungi og fékk jafnframt Húnavatnssýslu.
Hann var sagður gáfumaður og vel að sér í lögum en enginn sérstakur fjáraflamaður. Hann þótti mjög kvensamur, „oft við konur kenndur“, segir Jón Sigurðsson. Hann er sagður hafa eignast að minnsta kosti fjögur börn framhjá konu sinni, sem var Þorbjörg Magnúsdóttir frá Eiðum, Vigfússonar sýslumanns. Þau áttu fimm börn saman og er mikil ætt frá þeim komin.
Heimildir
breyta- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
Fyrirrennari: Jón Jónsson |
|
Eftirmaður: Halldór Ólafsson |