Jón Gamlason (d. 1488) var ábóti í Þingeyraklaustri í nær hálfa öld, frá 1440 til 1488 og hafði áður verið prestur og officialis í Hólabiskupsdæmi. Hann tók við klaustrinu eftir lát Ásbjarnar Vigfússonar ábóta.

Jón var af höfðingjaættum, sonur Gamla Marteinssonar bónda í Lögmannshlíð í Eyjafirði og Valgerðar Þorvaldsdóttur konu hans. Bræður hans voru þeir Marteinn Gamlason sýslumaður á Ketilsstöðum á Völlum, faðir Hákarla-Bjarna, og Finnur Gamlason lögréttumaður á Ysta-Mói í Fljótum. Jón komst ungur til metorða, vígðist til prests 1432 og var orðinn ráðsmaður Hólastóls 1435. Hann þótti í fremstu röð presta og varð prófastur í Húnavatnsprófastsdæmi 1440, sama ár og hann varð ábóti.

Það ár sór hann líka eið fyrir Goðsvini Skálholtsbiskupi um að hann væri saklaus af áburði um legorð með Helgu Þorleifsdóttur, konu Skúla Loftssonar ríka og dóttur Vatnsfjarðar-Kristínar. Eiðurinn hefur dugað til að hreinsa hann af söguburðinum, að minnsta kosti fékk hann ábótastöðuna og gegndi henni í 48 ár.

Í ábótatíð hans, 1449, dæmdi Gottskálk Keneksson Hólabiskup klaustrinu aftur jörðina Ytri-Ey, sem Ásbjörn ábóti hafði áður selt, enda var það yfirleitt talið óheimilt að forsvarsmenn klaustra seldu jarðeignir undan klaustrum og voru þær gjarna dæmdar klaustrunum aftur ef það var gert.

Jón hefur verið orðinn háaldraður þegar hann dó, á níræðisaldri eða meira. Ásgrímur Jónsson munkur á Þingeyrum tók við ábótastarfinu.

Heimildir

breyta
  • „„Þingeyraklaustur". Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur, 1887“.
  • „„Þingeyraklaustur". Sunnudagsblaðið, 20. mars 1966“.