Ingjaldssandur er dalur við Önundarfjörð milli Barða og Hrafnaskálanúps. Þar nam Ingjaldur Brúnason land, langafi Ljóts hins spaka. Ljótur á að hafa búið í Álfadal á Ingjaldssandi en lenti í illdeilum við nágranna og var veginn. Vegur liggur til Ingjaldssands út með Dýrafirði hjá Núpi fram hjá Gerðhamradal og um Sandheiði. Frá Núpi að bænum Sæbóli á Ingjaldssandi eru 23 km.

Ingjaldssandur

Fyrrum var fjölmenn byggð á Ingjaldssandi. Jarðir í byggð á Ingjaldssandi voru sex en það voru Sæból, Álfadalur, Hraun, Háls, Brekka og Villingadalur. Það var venjulega tví-, þrí-eða fjórbýli á jörðum þessum og árið 1703 bjuggu 100 manns í hreppnum.

Sæból á Ingjaldssandi var kirkjustaður og þar eru ýmsir munir frá fyrri tíð svo sem ljósahjálmur frá 1649 og forn kaleikur og patína frá 18. öld. Guðjón Samúelsson teiknaði núverandi kirkju og var hún vígð 1928. Skírnarfontur í kirkjunni er eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal.

Heimildir breyta